Tónlist að heiman: Rödd kvenna í Afganistan

Fatima Hossaini mælir með lögunum „Sarzamine man“ og „Qahramaan“ frá Afganistan

Lög- og kynjafræðingur mælir með tónlist frá Afganistan.
Fatima Hossaini Lög- og kynjafræðingur mælir með tónlist frá Afganistan.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Uppáhaldslagið mitt frá Afganistan er líklega „Heimalandið mitt“,“ segir Fatima Hossaini, en hún mælir sérstaklega með útgáfu söngvarans Dawood Sarkhoosh af laginu, sem nefnist á frummálinu Sarzamine-man.

Fatima er fædd og uppalin í Íran en er dóttir afganskra flóttamanna. Hún flutti til Afganistan eftir fall talíbanastjórnarinnar og menntaði sig þar. Árið 2010 flutti hún til Íslands og er í dag íslenskur ríkisborgari.

„Þetta lag er það fyrsta til að hreyfa við mér þannig að ég tók ástfóstri við upprunaland foreldra minna – en ég er fædd í Íran og hafði litla tengingu við Afganistan áður. Í laginu tjáir skáldið ást sína, áhyggjur og sorgir varðandi heimaland sitt, hvernig lífið hefur enga merkingu án heimalands eða eigin staðar, hversu vansælt lífið verður þegar maður þarf að yfirgefa heimalandið, hvernig aðrir svíkja það fyrir græðgi og rífa það í sundur – það er enginn sem getur læknað sár heimalandsins. Dagar skáldsins eru myrkir án heimalands og hann bíður þess dags þegar hann getur snúið aftur. Lagið fjallar um aðskilnað og þrá eftir heimili, stað til að öðlast frið. Það varpar ljósi á líf og ástand fólks sem þarf að yfirgefa heimili sín við erfiðar aðstæður,“ segir Fatima.

Syngur um glatað heimaland í laginu Sarzamine-man.
Dawood Sarkhoosh Syngur um glatað heimaland í laginu Sarzamine-man.

Hún mælir einnig með laginu „Qahramaan“, eða „Sigurvegari“, með poppsöngkonunni Aryana Sayeed. „Hún er sú söngkona sem getur hvað helst talist rödd kvenna í Afganistan, því á síðustu árum hefur hún ögrað steríótýpum og hefðbundinni ímynd kvenna í Afganistan. Hún hefur ítrekað verið gagnrýnd fyrir það hvernig hún kemur fyrir á opinberum vettvangi, en það hefur ekki tekist að hræða hana. Hún er alltaf tilbúin að svara gagnrýnendum og tekur harða afstöðu gegn gildum feðraveldisins sem bitna á konum. Ég virði þessa viðleitni hennar en ég hef líka gaman af verkum hennar – sérstaklega þeim lögum sem fjalla um konur.“

Ögrar hefðbundnum hugmyndum um stöðu og ímynd kvenna í afgönsku samfélagi.
Aryana Sayeed Ögrar hefðbundnum hugmyndum um stöðu og ímynd kvenna í afgönsku samfélagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.