Rapp, bankarapp

Bankarnir nýta sér íslenska rappara í auglýsingaskyni

Mynd: Arion Banki

Íslenskt rapp hefur verið í miklum blóma undanfarin ár. Margir hafa líkt óhefluðu viðhorfinu, gróskunni og kraftinum sem hefur verið viðloðandi rappsenuna við pönkið og róttæka andspyrnuna við borgaralegt siðferði sem kristallaðist í þeirri menningu. Mörg fyrirtæki sjá sér leik á borði, vilja nudda sér upp við hina ungu listamenn í þeirri von að ára ungæðingslegrar orku og ferskleika smitist yfir á vörumerki þeirra, og ólíkt flestum þeim sem kenna sig við pönkið virðast margir íslenskir rapparar vera tilbúnir í að lána fyrirtækjum ímynd sína.

Þau fyrirtæki sem hafa verið hvað mest áberandi í tengslum sínum við rappsenuna eru strigaskóframleiðendur. Það kemur kannski ekki á óvart en tengsl alþjóðlegrar rapptónlistar og strigaskóframleiðenda hafa að mörgu leyti verið samtvinnuð síðustu áratugi, eða allt frá því að RUN DMC gerði Adidas að einkennismerki sínu snemma á níunda áratugnum. Á Íslandi hafa Adidas og Nike barist um að fá að klæða rapptónlistarmennina undanfarin ár, og ýmist haldið eða greitt fyrir stórtónleika rapptónlistarmanna, til dæmis má nefna mikla rappveislu Adidas í Listasafni Íslands fyrir tveimur árum og Nike (og Coca Cola)-styrktastórtónleika KBE-rapphópsins í Gamla bíói í desember.

Eftir því sem vinsældir íslensks rapps hafa aukist og það hefur náð meginstraumsvinsældum hafa fyrirtæki með íhaldssamari ímynd einnig farið að sækja í rappið, eflaust til að gefa fyrirtækjum sínum áru ferskleika og andspyrnu. Nú síðast hafa allir íslensku viðskiptabankarnir fengið rappara í ýmiss konar samstarf í auglýsingatilgangi.


Landsbankinn framleiddi myndband við lagið „Út í geim“ með rapparnum Birni í aðdraganda tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves í nóvember.
Birnir og bankinn Landsbankinn framleiddi myndband við lagið „Út í geim“ með rapparnum Birni í aðdraganda tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves í nóvember.
Mynd: Landsbankinn

Landsbankinn hefur um nokkurt skeið framleitt stutt tónlistarmyndbönd í tengslum við Iceland Airwaves-tónlistarhátíðina. Þar stíga ungir tónlistarmenn á svið og myndbönd af flutningnum eru framleidd og dreift af bankanum. Í ár fékk Landsbankinn meðal annars að frumflytja lagið „Út í geim“ með rapparanum Birni, en lagið hefur notið mikilla vinsælda í kjölfarið og myndbandið, sem hýst er á Youtube-rás Landsbankans, fengið yfir 120 þúsund áhorf.

Íslandsbanki hefur fengið rappara í ýmiss konar samstarf. Í febrúar mun Arnar Freyr úr rappsveitinni Úlfur Úlfur til dæmis halda rappnámskeið á vegum bankans í einu útibúa þess. Þá hefur bankinn birt stuttar frásagnir tónlistarfólks á Facebook-síðu sinni undir yfirskriftinni „Bransasögur.“ Í desember birtist myndband þar sem rapparinn Herra Hnetusmjör rifjar upp söguna á bakvið lag hans og Birnis, „Já, ég veit“, vinsælasta rapplag landsins þann mánuðinn. Frásögn rapparans var lífleg og hefur myndbandið verið spilað yfir 71 þúsund sinnum. Í síðustu viku birtist svo frásögn nýstirnisins Króla af velgengni hans og samstarfsmannsins JóaPé.

JóiPé hefur sjálfur nýlega birst í auglýsingu annars banka. Arion-banki tók þátt í framleiðslu lags og tónlistarmyndbands JóaPé. Brot úr laginu og myndbandinu birtist fyrst í sjónvarpsauglýsingu bankans sem sýnd var á meðan Evrópumeistaramótið í handbolta stóð yfir. Eftir að mótinu lauk kom myndbandið svo loksins út á Youtube-rás bankans, og á streymisveitunni Spotify er lagið enn fremur skráð sem höfundaverk bankans.

Herra Hnetusmjör og Króli hafa tekið þátt í myndböndum sem birtast á vefsíðu Íslandsbanka.
Bransasögur Íslandsbanka Herra Hnetusmjör og Króli hafa tekið þátt í myndböndum sem birtast á vefsíðu Íslandsbanka.
Mynd: Íslandsbanki

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.