Tekjur tónlistarbransans vaxa á ný

Meira en helmingur tekna bandaríska útgáfubransans kemur frá streymisþjónustum

Mynd: EPA

Smásölutekjur tónlistarbransans í Bandaríkjunum árið 2016 jukust um meira en 11 prósent frá árinu á undan og enduðu í 7,7 milljörðum bandaríkjadollara.

Aukningin er sú mesta í um tuttugu ár, en heildartekjurnar eru þó ennþá aðeins rúmlega helmingur af því sem þær voru fyrir tveimur áratugum – áður en stafræna byltingin hófst fyrir alvöru. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka fyrirtækja í tónlistarútgáfu í Bandaríkjunum (RIAA) sem var birt í lok mars.

Ástæðan fyrir aukningunni er fyrst og fremst auknar tekjur frá streymisþjónustum en árið 2016 var fyrsta árið í sögunni þar sem tekjur frá streymisþjónustu voru meirihluti smásölutekna tónlistarbransans í Bandaríkjunum, eða um 51,4 prósent. Tekjur af niðurhali minnkuðu hins vegar um 22 prósent á síðasta ári og tekjur af sölu geisladiska minnkuðu um 21 prósent. Tekjur af sölu vínylplatna jukust um fjögur prósent.

Tekjur af streymisþjónustu hafa aukist ævintýralega á síðustu árum. Meira en tvöfalt fleiri Bandaríkjamenn keyptu sér til dæmis áskrift að streymisþjónustunum árið 2016 en árið áður, eða um 22 milljónir manna. Tekjurnar af sölu streymisáskrifta uxu þannig úr 2,5 í 3,9 milljarða dollara.

Streymismarkaðurinn er að langmestu leyti í höndum nokkurra risafyrirtækja á borð við Apple, Amazon og Spotify og enn gengur illa fyrir tónlistarmennina sjálfa að fá mikinn ágóða úr streyminu. Samkvæmt bloggfærslu Cary Sherman, framkvæmdastjóra RIAA, kemur Apple best fram við listamennina og er það fyrirtæki sem borgar þeim langstærsta hlutfallið í höfundaréttargreiðslur. Youtube sé hins vegar á botninum en fyrirtækið er sagt nýta sér lagaglufur til að borga höfundarréttarhöfum algjörar lágmarksgreiðslur, þar sem höfundarréttarhafi fái um það bil einn dollara fyrir hverjar þúsund spilanir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.