Engin undankomuleið

And Then There Were None er mögnuð sjónvarpsmynd

Maeve Dermod og Charles Dance í hlutverkum sínum.
Örvænting Maeve Dermod og Charles Dance í hlutverkum sínum.

Engin bóka Agöthu Christie er jafn myrk og hrollvekjandi og And Then There Were None, sem mun vera mest selda glæpasaga allra tíma. Um páskana sýndi RÚV nýlega breska sjónvarpsmynd sem gerð er eftir bókinni. Tíu persónur dvelja saman á eyju og smám saman fer að fækka í hópnum. Það er engin undankomuleið.

Sagan hefur áður verið kvikmynduð en þar sem framvindan er svo vægðarlaus hefur endinum venjulega verið breytt og hann mildaður til mikilla muna. Það er reyndar í samræmi við lokin á leikriti sem Christie samdi síðar upp úr sögu sinni en þar hafði traust og væntumþykja betur gegn tortryggni og heift – og þess vegna komust tvær persónur lífs af. Endir þessarar sjónvarpsmyndar var hins vegar í takt við bókina. Allir dóu.

Þetta var gríðarlega vel gerð mynd. Í kvikmyndatökunni var lögð áhersla á að sýna einangrun persóna sem fóru að hegða sér eins og hrædd dýr sem óttuðust hverja stund að vera veidd í gildru. Leikur allra var framúrskarandi og þarna brá fyrir kunnuglegum andlitum eins og Aidan Turner, sem við þekkjum sem Poldark, Charles Dance, Sam Neill, Miröndu Richardson og Toby Stephens.

Í glæpamyndum er það venjulega þannig að áhorfandinn getur reitt sig á leynilögreglumanninn. Í þessari mynd var enginn í því hlutverki. Allar persónurnar voru sekar um glæp og flett var ofan af þeim hverri á fætur annarri. Unga stúlkan sem áhorfandinn hafði kannski hvað mesta samúð með reyndist undir lokin vera undirförult glæpakvendi. Lokaatriðið þar sem hún barðist um í snörunni var gríðarlega óhugnanlegt.

Þetta er mögnuð sjónvarpsmynd.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.