Leiðsögnin sem leikrit

Ragnheiður Maísól og Ragnar Ísleifur segja hversdagslegar sögur í leiðsögn um Bergstaðastrætið

Ragnheiður Maísól og Ragnar Ísleifur standa fyrir leiðsögn um helgina þar sem kafað verður ofan í allar litlu hversdagslegu sögurnar sem leynast svo víða í umhverfi okkar, í bakgörðum og undir gangstéttarhellum.
Leiðsögn um bæinn Ragnheiður Maísól og Ragnar Ísleifur standa fyrir leiðsögn um helgina þar sem kafað verður ofan í allar litlu hversdagslegu sögurnar sem leynast svo víða í umhverfi okkar, í bakgörðum og undir gangstéttarhellum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þeir eru ófáir íslensku sviðslistamennirnir sem taka að sér aukavinnu og hliðarstörf í ferðamannabransanum um þessar mundir, ekki síst við leiðsögn fyrir hópa erlendra ferðamanna um land og bæ. Þó að tilgangurinn sé yfirleitt að fræða frekar en skemmta getur leiðsögnin í raun verið hálfgert leikverk, með mörgum litlum samtengdum sögum, með dýnamík og uppbyggingu, góðri framsögn og leikrænum tilburðum.

Listaparið Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Ragnar Ísleifur Bragason hafa nýtt sér þetta form til að skapa leikverkið Leiðsögn / A Guided Tour sem frumflutt verður um helgina, sem hluti af sviðslistahátíðinni Everybody's Spectacular.

Everybody's Spectacular

Everybody's Spectacular

Á miðvikudag hófst sviðslistahátíðin Everybody's Spectacular, sem er árlegt samstarfsverkefni leiklistarhátíðarinnar Lókal og Reykjavík Dance Festival. Hátíðin er fimm daga vettvangur fyrir þá sem vilja kynna sér nýjustu strauma og stefnur í sviðslistum. Dagskráin er fjölbreytt, veglegt málþing fer fram, verðlaunaverk eru endurflutt, erlendir listamenn koma fram auk þess sem íslenskir listamenn frumsýna ný verk sem eru samin sérstaklega fyrir hátíðina.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu hátíðarinnar spectacular.is.

„Þetta er óvenjuleg leiðsögn sem byggir á þessu hefðbundna leiðsagnarformi. Við segjum ekki frá sögulega merkilegum hlutum eða sögum sem almennt væru taldar fréttnæmar. Við segjum hversdagslegar sögur sem tengjast frekar ómerkilegum stöðum – eða stöðum sem líta úr fyrir að vera ómerkilegir. Við erum bæði mjög upptekin af og uppnumin yfir hversdagsleikanum og hvað hann er stórmerkilegur í raun og veru,“ segir Ragnheiður Maísól.

Í verkinu munu gestir ganga um Bergstaðastrætið með parinu og heyra fjölda sagna sem þau hafa safnað að undanförnu. „Venjulega fjallar leiðsögn um stórbrotin og söguleg atvik og hluti sem hafa ekki endilega mikla tengingu við daginn í dag. Svo ætli þetta sé ekki leið til að varpa öðru og hversdagslegra ljósi á staðina í kringum okkur. Þarna verða sagðar sögur sem fólk myndi alla jafna ekki fá að heyra, minningar og sögur sem fólk heldur yfirleitt bara fyrir sig sjálft.“

Sögurnar koma úr öllum áttum, sögur sem þau hafa heyrt á förnum vegi, veitt upp úr vegfarendum, fengið frá fyrrverandi og núverandi íbúum á götunni, eða vinum og kunningjum. „Yfirleitt þegar við höfum beðið fólk um að koma með okkur í göngutúr og segja okkur sögu frá tilteknum stað, þá er svarið að það eigi engar almennilegar sögur. En um leið og fólk byrjar að tala, spretta fram sögur sem virka hversdagslegar í upphafi en reynast afar stórar, sögur af ýmiss konar viðsnúningi í lífi fólks, um upphaf og lok lífs.“

A guided tour verður sýnt á laugardag og sunnudag klukkan 13. og 16. Leiðsögnin er ókeypis en nauðsynlegt er að panta pláss á tix.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.