Svona vildi Kjarval hafa íslenska fánann

Tillögur Jóhannesar Kjarvals að íslenskum fána sýndar á Kjarvalsstöðum - Fannst íslenski fáninn ófrumlegur

Ef tillaga Kjarvals hefði orðið ofan á í fánasamkeppninni árið 1914 hefði þessum fána verið flaggað á þjóðhátíðardögum og landsleikjum.
Áfram Ísland! Ef tillaga Kjarvals hefði orðið ofan á í fánasamkeppninni árið 1914 hefði þessum fána verið flaggað á þjóðhátíðardögum og landsleikjum.

Jóhannesi Kjarval fannst íslenski fáninn ófrumleg stæling á þjóðfánum nágrannaríkjanna. Þetta segir Hörður Lárusson, grafískur hönnuður og fánasérfræðingur.

Sem hluti af Kjarvalssýningunni „Hugur og heimur“, sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum, hefur Hörður grafið upp tillögur málarans að íslenskum fána sem hann sendi inn í hugmyndasamkeppni um þjóðfána árið 1914, þegar hann var enn námsmaður.

„Við ætlum að sýna upphaflegar skissur Kjarvals frá Þjóðminjasafninu og svo munum við sauma alvöru útgáfu af fánanum hans í fyrsta skipti,“ segir Hörður, en hann mun einnig segja ítarlega frá fánatillögunni í fyrirlestri í safninu sunnudaginn 19. júní klukkan 14.00.

„Það sést á skissunum hvað hugmyndin er margbrotin. Tillagan virkar aðeins flóknari en fáninn okkar í dag, flóknari form og miklar pælingar. Inni í fánanum eru falin ýmis form: manneskja, sverð, eldfjall, ísinn, himinbláminn og ýmislegt annað.“

Hörður segist þó álíta að fáninn hefði getað sæmt sér vel sem þjóðfáni Íslendinga ef hann hefði orðið fyrir valinu. „Hann væri ennþá í dag svolítið sérstæður á heimsvísu þegar kæmi að fánum,“ segir hann.

„Ég er eiginlega með þá kenningu að ef hann hefði verið orðinn jafn þekktur þegar hann sendi inn tillöguna og hann varð seinna þá hefði hann átt meiri möguleika,“ segir Hörður.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.