Skapa sinn eigin sagnaheim

Brynjar Sigurðsson hefur vakið heimsathygli fyrir hönnun sína og hefur nú stofnað hönnunarteymi ásamt kærustu sinni Veroniku Seildmair.

Parið flutti inn og byrjaði að vinna sama í ágúst síðastliðinn. „Það var svolítið mikill pakki – margar áskoranir. Þessi vetur hefur kannski mest farið í að finna sameiginlegan grundvöll í vinnunni. En fyrir tveimur mánuðum ákváðum við svo endanlega að fara alla leið með þetta og stofna eigið hönnunarstudió.“
Brynjar og Veronica Parið flutti inn og byrjaði að vinna sama í ágúst síðastliðinn. „Það var svolítið mikill pakki – margar áskoranir. Þessi vetur hefur kannski mest farið í að finna sameiginlegan grundvöll í vinnunni. En fyrir tveimur mánuðum ákváðum við svo endanlega að fara alla leið með þetta og stofna eigið hönnunarstudió.“
Mynd: DV ehf / Þormar Vignir Gunnarsson

Brynjar Sigurðsson hefur vakið heimsathygli fyrir hönnun sína: húsgögn skreytt með hákarlahnútum frá Vopnafirði, hjálpartæki fyrir ímyndaðan veiðimann og prik með engan augljósan tilgang. Hann heldur til á mörkum list- og hönnunarheimsins en hefur fyrst og fremst áhuga á því að segja sögur.

Og sögurnar fara víða: hönnun hans hefur prýtt forsíðu Wallpaper, í vor hlaut hann Svissnesku hönnunarverðlaunin og í haust kemur út bók og vínylplata byggð á verkum hans, allt þetta þrátt fyrir að hann sé einungis 29 ára gamall.

Að undanförnu hefur hann unnið að því að koma á fót hönnunarfyrirtækinu Studio Brynjar and Veronika Seidlmair í Berlín ásamt kærustu sinni, þýska innanhúshönnuðinum Veroniku. Þessa dagana hefst parið við í höfuðstöðvum bókaúgáfunnar Crymogeu við Barónsstíg sem það hefur umbreytt í vinnustofu og sýningarrými – þar munu þau sýna og þróa ný verk næsta mánuðinn.

Lærði hnúta hjá hákarlaveiðimanni

Hlutirnir í húsgagnaseríunni Silent Village eru innblásnir af handverki og útliti Vopnafjarðar.
Innblástur frá Vopnafirði Hlutirnir í húsgagnaseríunni Silent Village eru innblásnir af handverki og útliti Vopnafjarðar.
Mynd: Fabrice GOUSSET & Alejandra Duarte

Brynjar útskrifaðist af vöruhönnunarbraut Listaháskóla Íslands árið 2009.
Til að vinna útskriftarverkefni sitt flutti hann í fjórar vikur á Vopnafjörð og lagði sig fram við að kynnast mannlífi og menningu þorpsins.

„Ég vissi ekkert hvað myndi koma úr því eða hvað ég vildi fá út úr því. Ég eyddi mánuði í bænum: hitti sjómenn, slökkviliðsmenn, spilaði körfubolta með prestinum og lögreglustjóranum og reyndi virkilega að fanga andrúmsloft bæjarins. Meirihluta tímans var ég samt einn, röltandi um með myndavélina mína að reyna að skilja anda staðarins,“ segir Brynjar.

„Síðan þá hef ég meðvitað og ómeðvitað unnið að því að þýða þetta hafnarumhverfi bæjarins yfir á form hluta,“ segir Brynjar. Það handverk og framleiðsluaðferðir sem hann kynntist á staðnum, meðal annars hnútar sem hann lærði af hákarlasjómanni, hefur hann nýtt sér áfram eftir útskriftina. Meðal annars við framleiðslu húsgagnalínunnar Þögult þorp (e. Silent Village) fyrir franska hönnunargalleríið Galerie Kreo.

Vildu ekki fara inn í hönnunarfyrirtæki

Prikin voru ekki hönnuð með neitt fyrirfram ákveðið hlutverk í huga
Prik Prikin voru ekki hönnuð með neitt fyrirfram ákveðið hlutverk í huga
Mynd: Vigfús Birgisson

Eftir LHÍ fluttist Brynjar til Lausanne í Sviss þar sem hann stundaði framhaldsnám við hinn virta hönnunarskóla ECAL, og eftir útskrift hefur hann unnið sem stundakennari við skólann.

Beinasta brautin fyrir efnilegan hönnuð hefði verið að ráða sig í vinnu hjá þekktu framleiðslufyrirtæki, en í stað slíks öryggis hafa Brynjar og Veronika ákveðið stökkva út í djúpu laugina og stofna eigið hönnunarstúdíó í Berlín í Þýskalandi.

„Í skólanum hittir maður marga hönnuði sem má segja að hafi „meikað það.“ Leiðin sem flestir þeirra fara er að byrja að vinna hjá framleiðslufyrirtækjum, kannski stóru ítölsku fyrirtæki á borð við Vitra eða eitthvað. Þar mynda þeir vissulega gott samband við fólk með mikla kunnáttu í ákveðnum framleiðsluaðferðum – en það er alltaf svolítið happdrætti. Hönnuðurinn færð yfirleitt bara frá 1,5 prósenti til 4 prósenta af heildsöluverði afurða sinna. Þannig að jafnvel þó þú sért að standa þig vel þá verða hlutirnir að seljast í þúsundum til að þú fáir þokkalega borgað. Jafnvel þessir frægu hönnuðir eru að ströggla í tíu, fimmtán ár. Þá eru þeir loksins kannski komnir með einhverjar tíu vörur og geta farið að lifa af því. Við spurðum okkur hvort þetta væri eitthvað sem við vildum taka þátt í og komumst að þeirri niðurstöðu að við viljum það ekki,“ segir Brynjar.

„Þessu fylgja nefnilega líka mikið af takmörkunum. Það sem við erum að gera er hvorki hefðbundin hönnun né hefðbundin list. Við erum á einhverjum óræðum mörkum. Ef við færum til hönnunarfyrirtækis væru okkur sagt að gera hlutina vörulegri og aðrar takmarkanir fylgja því að vera hluti af listheiminum. Þetta gefur okkur frelsi,“ bætir Veronika við.

Þau stefna heldur ekki á fjöldaframleiða hönnunarvörur ein síns liðs, heldur stenfa þau frekar að handsmíða sjálf fleiri einstaka hluti, halda yfirbyggingunni sem smæstri og sköpunarkraftinum sem mestum.

Meðal verka sem Brynjar og Veronica sýna við Barónsstíg eru ljósmyndir úr myndabanka þeirra, Visual vault, sem eru prentaðar á efni.
Sýna í Crymogeu Meðal verka sem Brynjar og Veronica sýna við Barónsstíg eru ljósmyndir úr myndabanka þeirra, Visual vault, sem eru prentaðar á efni.
Mynd: DV ehf / Þormar Vignir Gunnarsson

Hanna sinn eigin sagnaheim

Þegar þau hanna hafa þau ekki endilega hefðbundnar spurningar vöruhönnunarinnar til hliðsjónar. Hér er ekki verið að stefna að því að gera nytsamlega, straumlínulagaða og notendavæna hluti.
Til dæmis má nefna Prikin sem þau unnu fyrir Spark Design, en þau hafa ekki fyrirfram ákveðinn tilgang. Þau eru einfaldlega prik með ólíkum krókum, böndum og lykkjum. Þau kveikja hugrenningatengsl aftur í tímann, bæði aftur til barndóms þar sem prik getur spilað óteljandi hlutverk í ímyndunarafli barnsins og jafnvel þúsundir ár aftur í tímann til forfeðra okkar sem beittu þeim í ýmsum tilgangi.

„Það gæti alveg verið hagnýtt gildi í sumum hlutum sem við gerum en það eru líka aðrir hlutir sem að gegna öðrum hlutverkum í þessari fjölskyldu hluta. Ég held líka að í dag þegar hlutir eiga að vera svo hreinir og gagnlegir finnst mér skreyting vera orðið að einhverju sem skiptir máli í sjálfu sér,“ segir Brynjar.

„Ég held að oft væri hægt að þýða hlutina okkar yfir í annað form sem hefði skýrara hagnýtt gildi, en það er ekki forgangsatriði hjá okkur. Markmiðið er að skapa einhvern heim,“ segir Veronika.

Á hverjum tíma leggja þau sig þannig fram við að skapa sjálfstæðan heim hönnunarvara, heim sem segir ákveðna sögu. Hvaða miðill hentar fyrir söguna hverju sinni er svo mismunandi.

„Nýlega var okkur boðið að taka þátt í gestavinnustofu í París og hugmyndin er að gera einhverskonar leikhús- eða gjörningatengt verkefni. Við ætlum að vinna með leikurum, dönsurum eða jafnvel fólki úr óperuheiminum. Við vitum enn ekki hvort það verði í hefðbundnu leikhúsi eða verði einhvers konar inngrip í almenningsrýmið,“ segir Brynjar.

Brynjar gerði heimildamynd um ímyndaða veiðimanninn Borgþór Sveinsson og hannaði ölli tæki og tól þessa sérlundaða einbúa.
Hannað fyrir skáldskap Brynjar gerði heimildamynd um ímyndaða veiðimanninn Borgþór Sveinsson og hannaði ölli tæki og tól þessa sérlundaða einbúa.

„Það er líka eitthvað sem við höfum áhuga á að gera, að skapa hluti fyrir skáldskap. Mér finnst mjög áhugavert að í kvikmyndum ert þú með fjöldan allan af hönnuðum leikmunum. og það er svo mikið frelsi í hönnun þeirra. Eina gildi þeirra felst í því hvernig þeir líta út á skjánum, þannig að þú ert frjáls undan öllum öðrum takmörkunum. Þess vegna getur maður leyft sér að dreyma örlítið meira. Þannig að hugmyndin um að gera leikrit eða kvikmynd finnst okkur svolítið heillandi – jafnvel að gera kvikmynd þar sem allir hlutirnir í myndinni væru til sölu. Það gæti verið okkar leið til að kynna það sem við gerum.“

Heimildamynd Brynjars um sérlundaða einbúann og veiðmanninn Borgþór Sveinsson er dæmi um þetta, en hann hannaði allan búnað þessa ímyndaða veiðimanns og síðar sýnt sem serían Like Animals.

Sögur verður líka í stóru hlutverki í september þegar bók um verk Brynjars verður gefin út. Bókin er hluti af bókaröðinni Field Essays sem er unnin af hönnunarkennaranum og sýningarstjóranum Sophie Krier, en þar etur hún saman upprennandi hönnuði eða listamanni og eldri fræðimanni. Bókin er því unnin í samvinnu við Tim Ingold, prófessor í mannfræði við Aberdeen-háskóla í Skolandi.

Bókin er unnin út frá verkum Brynjars og viðtal við hönnuðinn, en með henni fylgir einnig vínylplata, en á henni segir Brynjar sögur sem hann hefur safnað á undanförnum árum. „Þarna er til dæmis saga frá vini mínum sem vann sem sjómaður, sögur byggðar á eigin upplifunum og ýmislegt fleira.“

Of skítug til að vinna í tölvunni

Veronika segir að þau viti í raun ekkert hvað muni koma úr dvölinni hér á landi og vinnustofunni í Crymogea, en þau ætli að prófa sig áfram með efnivið úr íslenskri náttúru, meðal annars íslenskan leir.

„Sú hugmyndin kviknaði eiginlega vegna þess að vinnustofan var að verða að eins og bókunarskrifstofa. Við vorum með sýningar og ferðalög svo maður var bara að skipuleggja og senda tölvupósta allan daginn. Það er alveg hræðilegt þegar maður hefur ekki tíma til að gera neitt skapandi. En þegar þú ert að vinna með leir eru hendurnar of skítugar til að þú getir unnið á tölvuna. Þannig að maður neyðir sig frá ritarastörfunum,“ segir Brynjar og þau hlæja.

„En hugmyndin var að koma til Íslands og vinna með íslensk efni, bara vera svolítið spontant og skapa. Og sjá svo hvað yrði til í lok mánaðarins. Okkur langar líka að vinna með íslenskan sand, búa til gler úr honum. Við byrjum vonandi að prófa okkur áfram með það í næstu viku. Svo langar okkur að prófa okkur áfram með teppi úr íslenskri ull,“ segir Veronika.

Brynjar og Veronica fá oft Innblástur frá íslenski náttúru - en Brynjar segir að áhugi hans á landinu hafi ekki kviknað fyrr en hann flutti frá því.
Jöklakerti Brynjar og Veronica fá oft Innblástur frá íslenski náttúru - en Brynjar segir að áhugi hans á landinu hafi ekki kviknað fyrr en hann flutti frá því.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.