Segir sig frá Ljósanætursýningu vegna stóriðju

Náttúruljósmyndari neitar að leggja nafn sitt við ímynd bæjarins

Ellert Grétarsson náttúruljósmyndari hefur sagt sig frá Ljósanætursýningu Listasafns Reykjanesbæjar vegna stóriðjuáforma bæjaryfirvalda. Hann greindi frá þessu á vef Víkurfrétta í gær, mánudaginn 8. júní.

Ellert hafði áformað að sýna í listasafninu ljósmyndir af náttúru Reykjanesskagans sem hann hefur unnið undanfarinn áratug, en hefur nú hætt við þátttöku.

„Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa nú samþykkt að gera okkur bæjarbúa að tilraunadýrum í lýðheilsutilraun Thorsil og annarrar stóriðju í Helguvík,“ skrifar Ellert í yfirlýsingunni. Hann segir dapurlegt að hann hafi sjálfur stutt núverandi meirihluta í síðustu bæjarstjórnarkosningum, en hann hafi talið hann standa fyrir breyttum áherslum.

„Mér skjátlaðist hrapallega en auðvitað ætti maður að vita af reynslunni að þegar peningaöfl og pólitíkusar dansa saman á náttúran og umhverfið aldrei séns,“ skrifar Ellert.

„Í ljósi þessa hef ég satt best að segja engan áhuga á því lengur að taka þátt í menningarstarfi á vegum Reykjanesbæjar. Ég kæri mig ekki um að leggja nafn mitt og verk mín við þá sóðalegu og neikvæðu ímynd sem verið er að skapa um heimabæinn minn.“ 

Mynd: Reykjanesbær.is

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.