Bókarkápuflóðið

Grafískir hönnuðir rýna í jólabókaflóðið

Arnar Freyr Guðmundsson, Lóa Auðunsdóttir og Snæfríð Þorsteins spjalla um bókakápur í jólabókaflóðinu
Hönnuðaspjall Arnar Freyr Guðmundsson, Lóa Auðunsdóttir og Snæfríð Þorsteins spjalla um bókakápur í jólabókaflóðinu
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ár hvert skellur stórflóð á bókaþjóðinni. Í jólabókaflóðinu alræmda flæða hins vegar ekki einungis orð, textar og sögur yfir landann heldur einnig bókarkápur, ­myndir, leturgerðir og umbrot fjölmargra hönnuða. Þessi órjúfanlegi hluti bókarinnar fær hins vegar yfirleitt varla meiri umfjöllun í fjölmiðlum en sem samkvæmisleikur þar sem teknar eru saman bestu og verstu bókarkápurnar.

DV fékk þrjá grafíska hönnuði til að rýna í bókarkápuflóðið í ár – Lóa Auðunsdóttir, Snæfríð Þorsteins og Arnar Freyr Guðmundsson hittust á kaffihúsinu í bókabúð Eymundsson og spjölluðu við blaðamann um bókahönnun.

Þröngur rammi

Öll hafið þið fengist við bókahönnun, en kannski helst á stórum bókum og bókverkum – sem er kannski ólíkt skáldsögunum. Hvernig nálgist þið hönnun á bókum og hvað finnst ykkur vera góð hönnun á bók?

SÞ: „Mér finnst mikilvægast að hún hæfi efninu. Þegar maður vinnur að stórum bókum og bókverkum þá vinnur maður kápuna einnig sem part af því. Þetta vinnst eiginlega samhliða, maður fær efni í hendurnar og reynir að finna einhverja leið til að túlka innihaldið.“

AFG: „Ég held að lykillinn ­fyrir hönnuð sé að skilja innihaldið og ná einhverri tengingu við það. Sjálfur geri ég kápuna yfirleitt síðast. Ég byrja að hanna innsíðurnar, þá verður til einhver leikur eða „konsept“ og í kjölfarið kemur kápan eiginlega af sjálfri sér. Hún er þá bara rökrétt framhald af því sem er inni í bókinni.“

SÞ: „Maður byrjar að skoða innihaldið og setja upp, en smám saman tekur efnið yfirhöndina og vill fara í einhvern ákveðinn farveg.“

Fá hönnuðir yfirleitt nægan tíma til að sökkva sér ofan í efnið?

LA: „Ég held að það sé mjög misjafnt ­eftir gerð bóka. Ég held að það sé oft lítill tími hjá þeim sem hanna skáldsögurnar. Þar eru líka oft fyrirfram gefnar hugmyndir um hvernig ­tilteknar ­tegundir bóka eigi að líta út og hönnuðum því settur svolítið þröngur rammi. Það hafa ­skapast ákveðnar hefðir um útlitið: „spennusögur eiga að vera svona og ævisögur hinsegin.“ Mig grunar stundum að þessar hefðir séu svolítið strangari hér en erlendis. Ef maður fer í bókabúðir erlendis, þá er eins og þar ríki meira frelsi.“

Frelsi til að dansa á „tacky“ línunni

Getið þið eitthvað greint hvernig þessar óskrifuðu reglur eða útlitshefðir eru – til dæmis í spennusögunum – þær eru kannski oft svona myrkar og í dökkum litum?

LA: „Já, og eiga það til að dansa á einhverri svona „tacky“ línu. Þær hafa frelsi til þess.“

AFG: „Mér finnst þær oft sýna atburð á einhvern óljósan hátt.“

Þær eru þá nánast eins og stilla úr bíómynd?

LA: „Já, bókarkápan er náttúrlega „trailerinn“ fyrir innihaldið. Það er hennar sögulega ­hlutverk, að minnsta kosta í skáldsögum. Svo eru ævisögurnar náttúrlega yfirleitt með þessa hefðbundnu andlitsmynd af viðkomandi á kápunni.“

Sjáið þið einhverjar aðrar línur eða „trend“ í hönnuninni í ár – fyrir utan þessar hefðbundnu bókategunda-línur? Eitt sem ég var búinn að taka eftir og skrifa um í DV voru skuggamyndir af andlitum þar sem náttúrumyndir fylla í andlitin.

AFG: „Ég hef tekið ­eftir því að það er svolítið ­mikið um svartar kápur með silfurfólíu – og ég er sjálfur sekur! Kannski er bara eitthvað í loftinu, en mér fannst það bara passa við bókina [Nína S. eftir Hrafnhildi Schram]. En svo tók ég eftir að það er fullt af öðrum bókum sem notast við þetta. Það er líka ákveðin leið, til dæmis fyrir þá sem hanna kiljur til að fá almennilega áferð á hana. Um leið og það er komið eitthvað annað en pappírsáferð þá ertu búinn að segja meira, hún er orðin meira elegant.“

LA: „Annað sem maður tekur eftir er að margir höfundar eru ­orðnir að sínu eigin vörumerki, Yrsa og Jón Kalman til dæmis. Það er komið ákveðið útlit sem er bara fyllt inn í með hverri nýrri bók.“

Bókaflokkur Yrsu er kominn með svo einkennandi útlit að maður sér í raun ekki nafnið hennar á bókarkápunni en samt þekkir maður hana.

AFG: „En svo er líka áhugavert augna­blikið þegar nafn höfundarins er orðið stærra en titill bókarinnar. Þú sérð ARNALDUR INDRIÐASON áður en þú veist hvað bókin heitir.“

LA: „Það er orðið aukaatriði.“

AFG: „Það mikilvæga er að þessi bók sé eftir Arnald.“

Átakalítið bókaflóð

SÞ: „Það er kannski ekki margt sem stendur upp úr í ár og heilt yfir línuna finnst mér þetta heldur átakalítið, en það er samt ekki af því að hönnuðirnir séu slæmir. Það eru bara ákveðnar vörður á mörgum stöðum á leiðinni sem þarf að fylgja. Það er komin hefð á ákveðið útlit á ákveðnar tegundir bóka og ætlast til að henni sé fylgt, forlögin eru þá kannski hrædd við að brjóta það upp. Svo koma bókabúðirnar og hafa líka sterka rödd í þessu samtali – bækurnar þurfa að passa inn í þeirra rekka. Það sem fer út fyrir hina hefðbundnu stærð og umbrot er óþægilegt fyrir búðirnar. En bókabúðirnar eru að fyllast af alls konar gjafavörubókum og ágætis bókum að utan. Þannig að mér finnst dálítið skrýtið að þessi mikla bókaþjóð gangi ekki aðeins lengra almennt í hönnuninni.“

AFG: „Maður finnur hvernig bókverkin eru alltaf að færast aftar og aftar í bókabúðunum. Í Eymundsson í Austurstræti eru þær til dæmis komnar alveg út í horn: þú gengur alltaf fyrst í gegnum íslenskt nammi og boli sem á stendur „ég tala ekki íslensku,“ næst ­gengur þú framhjá venjulegum bókum og svo loksins stóru bókunum.“

SÞ: „Kannski er heldur ekki mikið af stórum verkum og fræðibókum að koma út núna miðað við undanfarin ár. Kannski er að koma út meira af bókum sem fara aðeins út fyrir rammann jafnt yfir árið, ­bækur sem eru að koma út í tengslum við sýningar og annað slíkt. Það er kannski tekinn minni séns á þessum árstíma. En manni þætti gaman ef það væri gengið aðeins lengra í þessum almennu bókum – að það sé ekki bara í þessum dýru gjafabókum sem er dansað á línunni.“

LA: „Ég hugsa að fólk sé alveg tilbúið í það og það verði enginn hræddur. Fólk hefur nú séð ýmislegt.“

SÞ: „Það væri bara gaman að sjá fólk ganga lengra, en spurningin er: hver varðar leiðina? Það er oft eins og við séum að eltast við það útlit sem við höldum að markaðurinn vilji, frekar en að leyfa þeim sem eru menntaðir í faginu að hafa aðeins meira að segja og stýra vinnunni – aðeins þannig fæðast nýir hlutir.“

LA: „Ég held einmitt að það sé svolítið mikil klisja að tala um hvað markaðurinn vill í sambandi við útlit á hlutum og eitthvað slíkt. Fólk er spennt fyrir því að sjá alls konar hluti og lærir að meta.“

AFG: „Þegar hönnuðir leyfa sér meira þá vekur það meiri athygli. Oft sjá verkkaupar eftir á að það er þess virði að fara aðeins út fyrir normið.“

Kiljur henta tíðarandanum

SÞ: „Það kemur mér svolítið á óvart hversu mikil áhersla er ennþá á harðspjaldakápurnar. Mér finnst ­kiljurnar ekkert síður spennandi og góðar að handfjatla. En þarna ­kemur markaðurinn kannski aftur inn, hann segir að það sé við hæfi að gefa bók með harðspjaldakápu í jólagjöf. En mér finnst að það mætti skoða hvað sé við hæfi hverju sinni – og hvort kiljur henti ekki tíðarandanum í dag.“

Það þykir kannski merkilegri upplifun að gefa og lesa harða og þunga bók?

SÞ: „Já, það er svolítið búið að ala það upp í fólki, en að mörgu leyti er miklu mýkra og betra að handfjatla kiljurnar.“

LA: „Persónulega er ég miklu meiri „sökker“ fyrir kiljum.“

SÞ: „Já, mér finnst þær oft og tíðum miklu fallegri. En hér þarf kannski að gera greinarmun á listaverkabókum og öðrum bókum sem eru meiri „gripir“ og svo þeim bókum sem ætti bara að vera gott að strjúka, handfjatla og taka með sér upp í rúm. Bækur þar sem það er fyrst og fremst innihaldið sem á að skipta máli.“

Skortur á leturmeðvitund

Hirðhönnuðir forlaganna eru mest áberandi í skáldsagnaflokknum, til dæmis Ragnar Helgi Ólafsson hjá Veröld og Alexandra Buhl og ­Emilía Ragnarsdóttir hjá Forlaginu. Svo dreifist það víðar hjá minni forlögum. Eru mikið um að fólk sem ekki er menntaðir hönnuðir sé fengið í að gera bókarkápur eða eru þetta aðallega menntaðir hönnuðir?

LA: „Já, ég hugsa að þetta séu aðal­lega hönnuðir. Myndlistarmenn hafa líka oft fengist við að gera bækur – þetta fag er náttúrlega tengt báðum þessum sviðum. En eitt annað sem maður tekur eftir að vantar stundum upp á í hönnuninni er leturmeðvitund og týpógrafía. Það er eins og það sé almennt ekki mikil áhersla lögð á að vinna með það.“

Þannig að áherslan virðist þá fyrst og fremst vera á hið myndræna?

LA: „Já, það er áhersla á myndina en svo er bara settur einhver texti yfir. Það er þá ekki lögð mikil áhersla á að láta þetta vinna saman. Og láta þetta tengjast inn í bókina líka, þannig að titillinn birtist til dæmis aftur í sömu mynd á titilsíðu. Oft er hann bara kominn í allt annað letur og aðra stærð, en þá myndar þetta ekki jafn mikla heild.“

Fallegustu bækurnar

Eru einhverjar bækur sem þið getið nefnt sem hafa komið út á Íslandi í ár sem ykkur finnst virkilega vel heppnaðar hönnunarlega séð?

SÞ: „Það er svolítið erfitt að taka einhverja eina út. En ég er að lesa eina núna sem ég tók sérstaklega eftir þegar hún kom út: Ef að vetrar­nóttu ferðalangur eftir Italo Calvino. Þetta er bara snotur og falleg kilja og engir óþarfa stælar. Það er svolítið sérstakt að fyrsti kafli bókarinnar fjallar einmitt um bókverkið. Rödd höfundar stekkur fram og hann talar um augnablikið þegar þú tekur hana með þér heim og skerð utan af henni umbúðirnar. Hann talar um hvaða heimur bíður þín þegar þú handfjatlar bókina.“

LA:Svo þú villist ekki í hverfinu hérna eftir Patrick Modiano finnst mér líka mjög falleg. Hún er kannski enn hefðbundnari. Hún líkir eftir gömlum titilsíðum á kiljum. Þetta er eins og standard franskt kiljuútlit.“

SÞ: „Þetta er mjög klassískt útlit í Frakklandi og voða fallegt, og maður er yfirleitt ekki að sjá þennan sama klassa hér, svona heilt yfir línuna.“

LA: „Það væri kannski hægt að nefna lærdómsrit Íslenska bókmenntafélagsins – ég myndi alltaf velja eina þaðan.“

AFG: „Ef við skoðum heildarmyndina þá finnst mér Skínandi eftir Birtu Þrastardóttur vera mjög góð. Ef maður skoðar hana finnur maður að það eru engar tilviljanir í hönnuninni: rúnnuðu hornin, áferðin í pappírnum. Maður heldur á henni og finnur að hún er úthugsuð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.