Gosminjasýning hlaut Hönnunarverðlaun Íslands

Gosminjasýningin Eldheimar í Vestmannaeyjum og stoðtækjaframleiðandinn Össur hlutu verðlaunin

Gosminjasýningin Eldheimar í Vestmannaeyjum hlaut Hönnunarverðlaun Íslands sem voru veitt í annað sinn á Kjarvalsstöðum í dag. Þá hlaut stoðtækjafyrirtækið Össur verðlaun fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2015.

Eldheimar er verk Axels Hallkells Jóhannesssonar sýningarhönnuðar, Gagarín sem hannaði gagnvirka sýningarhluta, arkitektsins Margrétar Kristínar Gunnarsdóttur og Lilju Kristínar Ólafsdóttur landslagsarkitekts. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Sýningin miðlar einstökum atburði í náttúrusögu Íslands með framúrskarandi hætti. Sýningin er til vitnis um hugmyndaríkar og vel útfærðar leiðir til að ná til gesta með öflugum sjónrænum og gagnvirkum hætti. Verkefnið er einstaklega metnaðarfullt og gildi þess ótvírætt þegar litið er til þverfaglegs samstarfs hönnuða og arkitekta.“

Önnur verkefni sem hlutu tilnefningar í ár voru landslagsverkið Allt til eilífðar sem er hannað af Studio Granda arkitektum og unnið í samstarfi við Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmann, Íslenski fáninn eftir grafíska hönnuðinn Hörð Lárusson, skartgripalínan Primitiva eftir Katrínu Ólínu Pétursdóttur og fatahönnun Anítu Hirlekar.

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fyrsta skipti í fyrra, en þá hlaut verkefnið Austurland - Designs from nowhere heiðurinn. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Að launum fær sigurvegarinn peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, en þau eru veitt af iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í ár var svo í fyrsta sinn verðlaunað fyrir bestu fjárfestingu í hönnun.
Dómnefndina í ár skipuðu þau Harpa Þórsdóttir (formaður), Katrín María Káradóttir,, Massimo Santanicchia, Tinna Gunnarsdóttir, Almar Guðmundsson og Örn Smári Gíslason.

Fyrir verðlaunaafhendinguna í dag fór fram málþing um tækifæri í hönnun og framleiðslu á Íslandi þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, og fleiri tóku þátt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.