Lögregla stöðvaði barnaníðsgrín unglinga á Facebook

Foreldrar uggandi og töldu Gunnar Jakobsson Facebook-vin barna sinna

Það er óneitanlega nokkur svipur með manninum sem piltarnir notuðu á Facebook-aðganginn og Gunnari Jakobssyni.
Líkir Það er óneitanlega nokkur svipur með manninum sem piltarnir notuðu á Facebook-aðganginn og Gunnari Jakobssyni.

Lögregla hafði samband við nokkra unglingspilta á dögunum og bað þá um að láta af gríni sínu á Facebook. Piltarnar, sem eru í 10. bekk grunnskóla, höfðu gert falskan Facebook-aðgang undir nafninu Ragnar Theodórsson Malmqvist og þótti mörgum forsíðumynd aðgangsins líkjast Gunnari Jakobssyni, áður Roy Svani Shannon, dæmdum barnaníðingi. Þessi falski aðgangur hefur verið nokkuð á milli tannanna á fólki undanfarið og hefur fjöldi þráða verið stofnaður um málið, til að mynda í Facebook-hópum eins og Beautytips og Góða systir.

Þessi falski aðgangur piltanna vakti talsverðan óhug hjá mörgum. Myndin sem þeir notuðu líkist talsvert Gunnari Jakobssyni, einum alræmdasta barnaníðingi Íslands. Í viðtali við DV í fyrra sagðist Gunnar vera með ólæknandi barnagirnd og var hann síðast dæmdur fyrir að vera með 48.212 ljósmyndir og 484 myndskeið af barnaklámi í sínum fórum. Myndin sem piltarnir notuðu var þó ekki af Gunnari, en eftir því sem DV kemst næst virðast þeir hafa fundið myndina með að gúgla „creepy old man“.

Margir foreldrar urðu því uggandi þegar þeir tóku eftir því að börn sín væru að vingast við slíkan mann á Facebook. „Langaði bara að vekja athygli á þessum manni! Dæmdur níðingur sendi 13 ára dóttur minni vinabeiðni í dag. Langar bara að biðja mæður að fara inn á prófílinn hans og athuga hvort hann sé vinur ykkar barna. Virðist bara vera með börn sem vini,“ skrifaði til að mynda ein kona í hópnum Góða systir.

Heimir Ríkarðsson lögreglufulltrúi segir í samtali við DV að lögreglu hafi borist tilkynningar um þennan Facebook-aðgang og því gripið til þess ráðs að hafa samband við piltana. „Ég get alveg staðfest að við fylgjumst með svona síðum. Við ræddum við nokkra stráka og báðum þá að gæta sín. Fyrst þegar við sáum þetta þá gerðum við okkur strax grein fyrir því að svona var í pottinn búið, ekki neitt á bak við þetta. Þeir hættu þessu,“ segir Heimir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.