Helgi barði Ósk: „Skilaboðin eru þau að það sé í lagi að beita ofbeldi“

Ósk: „Skilaboðin eru þau að það sé í lagi að beita einhvern ofbeldi“

Birti sláandi myndir af áverkum sínum eftir heimilisofbeldi í sumar. Fyrrverandi kærasti hennar var dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi á dögunum.
Ósk Matthíasdóttir Birti sláandi myndir af áverkum sínum eftir heimilisofbeldi í sumar. Fyrrverandi kærasti hennar var dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi á dögunum.

„Á meðan hann er á skilorði þá er ég fangi á eigin heimili,“ segir Ósk Matthíasdóttir í stuttu samtali við DV. Fyrrverandi kærasti Óskar, Helgi Sigurðsson, var dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjölmörg ofbeldisbrot gegn henni auk þess að veitast að lögreglumanni. Ósk gagnrýnir harðlega hve dómurinn er vægur og að hann sé skilorðsbundinn. „Skilaboðin eru þau að það sé í lagi að beita einhvern ofbeldi. Maður sleppur við fangelsi ef maður heldur skilorð.“ Þá sér hún fram á áframhaldandi þolraun því dómnum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

„Alltof oft lokuð inni svo enginn sjái áverkana“

Það vakti mikla athygli í sumar þegar Ósk steig fram og svipti hulunni af alvarlegu heimilisofbeldi sem hún hafði orðið fyrir. Það gerði hún með því að birta sláandi myndir af áverkum sínum á Facebook-síðu sinni auk pistils sem hún veitti DV leyfi til þess að vinna frétt upp úr. „Ótrúlegt hve lengi maður getur þraukað og leikið líf sitt fagurt og hamingjuríkt þegar raunin er algjör andstæða. Eftir fleiri tugi heimsókna á slysó. Alltof oft lokuð inni svo enginn sjái áverkana,“ sagði Ósk við það tilefni.

Þá var málarekstur yfirvofandi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ósk kærði ekki sjálf ofbeldið heldur var það ákvörðun lögregluyfirvalda. Dómur féll síðan þann 20. nóvember síðastliðinn en dómurinn er ekki aðgengilegur á heimasíðu héraðsdóms. Það er fyrst nú sem DV hefur fengið hann í hendur.

Strauk búrhníf yfir háls

Alls gaf lögreglan á höfuðborgarsvæðinu út tvær ákærur á hendur Helga og voru þær báðar í tveimur liðum. Helgi var sakfelldur í öllum fjórum liðunum en rétt er að geta þess að hann neitaði allri sök þó að hann kannaðist við rifrildi og átök milli sín og Óskar.

Þann 29. september 2016 þótti sannað að Helgi hefði meðal annars slegið Ósk þannig að hún lenti með höfuðið á spegli í íbúð að Krókavaði í Reykjavík. Upphafið að ofbeldisverkinu tengdist rifrildi vegna símatengingar. Ósk hafi yfirgefið íbúðina en Helgi hafi dregið hana aftur inn með ofbeldi. Hótaði hann henni með búrhníf og strauk honum um háls hennar. Hlaut Ósk yfirborðsáverka á höfði, opið sár á hálsi, marga yfirborðsáverka á úlnlið og hendi auk mars á mjóbaki og mjaðmagrind.

Slegin með krepptum hnefa á eyrun

Að morgni föstudagsins 23. desember sama ár veittist Helgi að Ósk í íbúð í Skipholti. Sparkaði hann í hægra læri hennar og reif í hár hennar þannig að hárlokkar losnuðu. Síðan dró hann Ósk eftir gólfi íbúðarinnar. Á meðan hótaði hann henni lífláti. Afleiðingarnar urðu margvíslegir áverkar á læri og hársverði.

Næsta brot átti sér stað laugardaginn 25. mars á þessu ári, í sömu íbúð í Skipholti. Helgi veittist þá að Ósk og greip í kraga á peysu hennar þannig að hún féll í gólfið. Í framhaldinu hélt hann henni niðri og sló hana með krepptum hnefa í nokkur skipti á bæði eyru. Síðan greip hann báðum höndum í hálsmálið á peysunni og herti að þannig að Ósk átti erfitt með andardrátt. Síðan sló Helgi hana í síðuna og ýtti við henni. Hlaut Ósk dreifð eymsli og mar víða um líkamann.

Síðasta brotið átti sér stað þegar Helgi var handtekinn sama dag við hús á Álftanesi. Missti hann stjórn á skapi sínu þegar lögreglan freistaði þess að handtaka hann. Greip hann í vesti lögreglumanns og þurftu lögreglumenn að beita varnarúða til þess að yfirbuga hann.

Eins og áður segir var Helgi dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi. Skaðabótakröfu Óskar upp á 250 þúsund krónur, fyrir ýmsa muni sem höfðu skemmst, var vísað frá dómi en Helga var gert að greiða henni 600 þúsund krónur í miskabætur. Að auki var hann dæmdur til þess að greiða málsvarnarlaun lögmanna beggja.

Þolendur heimilisofbeldis geta leitað sér aðstoðar hjá eftirtöldum aðilum:

Á höfuðborgarsvæðinu:

Kvennaathvarfið – sími: 561-3720 Neyðarnúmer allan sólarhringinn: 561-1205 Netfang: Kvennaathvarf@kvennaathvarf.is Stígamót – sími: 562-6868 / 800-6868 Netfang: stigamot@stigamot.is

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis Landspítalanum 543 1000 - Aðalskiptiborð LSH 543 2000 - Afgreiðsla bráðamóttöku LSH 543 2094 - Neyðarmóttaka á dagvinnutíma 543 2085 - Áfallamiðstöð LSH Kristínarhús - Sími: 546 3000 Netfang: steinunn@stigamot.is Kvennaráðgjöfin – Sími: 552-1500 Karlar til ábyrgðar - Sími : 555-3020 Drekaslóð - Símanúmer: 551 - 5511 / 860-3358

Landsbyggðin:

Aflið, systursamtök Stígamóta á Akureyri - Símanúmer: 461 5959 / 857 5959 Sólstafir, systursamtök Stígamóta á Ísafirði - Sími: 846-7484

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.