Nýr forseti Mormóna er 93 ára og á 116 barnabarnabörn

Hjónaband karls og konu „vilji guðs“
Russel M. Nelson Hjónaband karls og konu „vilji guðs“

Mormónakirkjan í Bandaríkjunum hefur valið nýjan forseta eftir að Thomas S. Monson sem stýrði kirkjunni í áratug féll frá 2. janúar síðastliðinn. Hinn nýi forseti, sem gegnir einnig hlutverki spámanns og sjáanda, heitir Russell M. Nelson, en ekki má búast við því að hann gegni embættinu mjög lengi því að hann er 93 ára gamall.

Kirkjan, sem stofnuð var af spámanninum Joseph Smith árið 1830, hefur höfuðstöðvar sínar í Salt Lake City í Utah fylki. Borg sem var stofnuð af öðrum forseta Mormónakirkjunnar, Brigham Young. Söfnuðurinn hefur í gegnum tíðina oft komist í kast við alríkisstjórnina í Bandaríkjunum, aðallega vegna fjölkvænis sem almennt var stunduð í kirkjunni til ársins 1890 og enn stunduð í jaðarhópum. Um miðja 19. öldina átti kirkjan í beinu stríði við Bandaríkin.

Ættstór og íhaldssamur

Talið var að Mormónakirkjan væri í klípu undir Monson því að útbreiðsla trúarinnar hafði minnkað. Mormónar eru þekktir fyrir að stunda trúboð um allan heim og er það talin skylda ungs fólks að eyða einu til tveimur árum erlendis til að reyna að ná í nýja safnaðarmeðlimi. Kirkjan hefur verið töluvert í sviðljósinu undanfarin ár, bæði vegna opinnar baráttu gegn hjónabandi samkynhneigðra og kynferðisskandala innanhúss. Árið 2015 gaf Mormónakirkjan út yfirlýsingu um að samkynhneigð pör séu guðleysingjar og að börn þeirra myndu ekki fá að taka þátt í kirkjustarfi uns þau flyttu að heiman.

Nelson, hinn nýi leiðtogi er ekki talinn marka mikla stefnubreytingu. Hann hefur sagt að hjónabönd eigi einungis að vera milli karlmanns og konu, það sé „vilji guðs.“ Þá er hann á móti femínisma og segir hlutverk kvenna fyrst og fremst að vera mæður og þar með með kirkjuna.

Nelson var þekktur hjartalæknir og kom meðal annars að hönnun tækis sem gerði opna hjartaaðgerð mögulega í fyrsta skipti árið 1951. Hann þjónaði í Kóreustríðinu og starfaði seinna á sjúkrahúsum í Boston og Salt Lake City. Hann er tvígiftur og á tíu börn. Seint verður sagt að hann sé ættlítill maður því hann á alls 116 barnabarnabörn.

Hinn 93 ára Nelson valdi sér engin unglömb sem aðstoðarmenn heldur. Dallin Oaks, sem er 85 ára gamall, og Henry B. Eyring 84 ára.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.