Jón Garðar í samkeppni við Eldum rétt

Gerir strandhögg á hinum sívaxandi máltíðamarkaði.
Jón Garðar Ögmundsson Gerir strandhögg á hinum sívaxandi máltíðamarkaði.

Í vikunni var nýtt fyrirtæki á máltíðamarkaði kynnt til leiks. Fyrirtækið heitir Einn, tveir & elda og mun bjóða upp á tilbúna matarpakka til eldunnar líkt og Eldum rétt. Íslendingar hafa tekið hugmyndafræðinni fagnandi en hið nýja fyrirtæki hyggst skapa sér sérstöðu með því bjóða upp á aukið úrval rétta og gestapakka með uppskriftum frá vinsælustu kokkum landsins, til dæmis Ragnari Frey (Lækninum í eldhúsinu) og Jóa Fel.

Í forsvari fyrir fyrirtækið er athafnamaðurinn Jón Arnar Guðbrandsson, einn eigenda Lemon, og Gunnar Már Sigfússon einkaþjálfari, sem hefur getið sér gott orð sem talsmaður lágkolvetnalífsstílsins.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Einn, tveir og elda sé í eigu Dagný & co. Framkvæmdastjóri þess fyrirtækis er Jón Garðar Ögmundsson, fyrrverandi rekstraraðili McDonald's á Íslandi og veitingastaðarins Metro.

Rekstrarsaga Jóns Garðars er ekki beysin en fyrir tæpum tveimur árum hlaut hann tvo dóma fyrir umfangsmikil skattsvik. Annars vegar vegar í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að standa ekki skil á opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna McDonald's frá árinum 2009 og 2010. Hins vegar hlaut hann 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir sömu brot hjá Metro á árunum 2011 og 2012. Samtals þurfti Jón Garðar að greiða 115 milljónir í sektir í ríkissjóð fyrir brotin. Í kjölfarið var Jón Garðar úrskurðaður gjaldþrota en engar eignir fundust upp í 166 milljón króna kröfur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.