Lögfræðingar rifja upp erfiðustu málin: „Ferlega súrt að sjá saklausan mann dæmdan í fangelsi“

Kio Briggs, Shaken Baby Syndrome og stóra kóktappamálið

„Dómarinn í málinu hafði það á orði að væri heimska refsiverð, þyrftu fórnarlömbin í málinu að dúsa lengi í fangelsi“
Sveinn Andri Sveinsson „Dómarinn í málinu hafði það á orði að væri heimska refsiverð, þyrftu fórnarlömbin í málinu að dúsa lengi í fangelsi“

Lögmenn starfa á átakaflötum þjóðfélagsins þar sem deilt er um staðreyndir og réttar túlkanir á oft óskýrum textum löggjafans. Á borði þeirra lenda því bæði erfið og furðuleg mál, misalvarleg eins og gefur að skilja. DV spurði nokkra af þekktustu lögfræðingum landsins nokkurra spurninga um ferilinn.

Sveinn Andri Sveinsson

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Karl faðir minn, Sveinn Haukur Valdimarsson, var hæstaréttarlögmaður og hvatti mig lengi til að gera eitthvað allt annað en fara í lögfræði. Það var annaðhvort að fara í arkitektúr eða skella sér í lögfræðina. Aðdáun mín á gamla manninum varð síðan til þess að ég ákvað að velja lögfræðina og feta svo í hans fótspor. Það var samt þegjandi samkomulag okkar á milli að ég myndi ekki sækja um vinnu hjá honum.

[[0426CAB378]]

Hvert var fyrsta málið þitt?

Eftir útskrift starfaði ég í nokkur ár sem löglærður fulltrúi hjá mætum Ásgeiri Thoroddsen hrl. og Ingólfi Hjartarsyni heitnum. Ég fékk síðan eitt mál upp í hendurnar til að reka fyrir bæjarþingi í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu sem ég sótti um sem mitt fyrsta prófmál til að verða héraðsdómslögmaður. Málið hafði allt til að bera til að vera prófmál, en eftir mikinn og vandaðan undirbúning var því hafnað að málið væri tækt sem prófmál. Ég flutti það engu að síður, enda mátti löglærður fulltrúi án lögmannsréttinda flytja mál þá fyrir þeim dómi. Málið varðaði gallaða glerísetningu í sólhýsi heima hjá foreldrum núverandi utanríkisráðherra í Borgarnesi. Málið flutti ég gegn Óla sterka heitnum. Hann sá aldrei til sólar í þessu máli enda hefði ég tekið tekið próf í byggingafræði eftir þennan málflutning.

Hvert reyndist erfiðasta málið?

Það mál sem tekið hefur mest á mig er svokallað SBS-mál (Shaking Baby Syndrome). Það er í endurupptökuferli en ég hef verið að glíma við þetta mál, þar sem dagfaðir var ákærður og dæmdur fyrir að hrista ungabarn til ólífis.

[[1669A0E517]]

En furðulegasta málið?

Þau hafa mörg furðuleg málin verið í gegnum tíðina. Eitt það einkennilegasta var þegar ég og Vilhjálmur Hans vorum verjendur tveggja Nígeríumanna sem ákærðir voru og dæmdir fyrir fjársvik með því að hafa sannfært íslenska fjölskyldu um að mörg búnt af hvítum bleðlum væru í raun evrur sem aðeins þyrfti að hafa í bréfpoka og sprauta í pokann tilteknum vökva sem þeir voru með, þá myndi hvíta duftið fara af evrunum. Um væri að ræða eina milljón evra sem þeir sannfærðu Íslendingana um að kaupa á 100.000 evrur. Það tæki efnið átta klukkustundir að hvarfast í burtu. Það var akkúrat sá tími sem félagarnir töldu sig þurfa til að komast úr landi. Dómarinn í málinu hafði það á orði að væri heimska refsiverð, þyrftu fórnarlömbin í málinu að dúsa lengi í fangelsi.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Sætasti sigurinn á enn eftir að koma. Það gerist þegar ég vinn sigur í málaferlunum gegn Valitor vegna WikiLeaks. Krafan stendur í sex milljörðum í dag rúmlega.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Það var dómur Hæstaréttar í áðurnefndu SBS-máli. Ferlega súrt að sjá saklausan mann dæmdan í fangelsi, á „af því bara“ forsendum. En það er enn von.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.