Kynferðisbrot og óttastjórnun í Krýsuvík: Jón Einar lést daginn eftir umdeilda brottvísun

„Ég dey í kvöld“ - Engir starfsmenn eftir klukkan fjögur - Gríðarleg starfsmannavelta - Fjölskylda og vinir stjórna meðferðarstöðinni - Óeðlilegt samneyti starfsmanna við skjólstæðinga

Þorgeir er við stjórnvölinn í Krýsuvík
Þorgeir Ólason Þorgeir er við stjórnvölinn í Krýsuvík

Óttastjórnun, starfsmaður kærður fyrir alvarlegt kynferðisbrot, óviðeigandi samskipti yfirmanns við kvenkyns skjólstæðinga og andlát sem aldrei hefði átt að eiga sér stað. Þetta eru atvik sem koma við sögu á síðustu tveimur árum á meðferðarstöðinni og tengjast rekstri Krýsuvíkursamtakanna á meðferðarheimili í Krýsuvík.

„Ég dey í kvöld,“ sagði ungur maður, Jón Einar Randversson, við vini sína og ráðgjafa meðferðarheimilisins þegar honum var vísað úr meðferð í byrjun október. Jón Einar hafði dvalið í níu vikur í Krýsuvík. Hann hafði ekki lokið meðferð sem tekur sex mánuði. Samkvæmt heimildum DV hafði Jón Einar staðið sig með miklum sóma og þótti starfsfólki og öðrum skjólstæðingum meðferðarheimilisins brottvísunin afar ósanngjörn. Daginn eftir var Jón Einar látinn.

Gríðarleg starfsmannavelta

Þetta er aðeins eitt dæmi af nokkrum sem virðast benda til þess að pottur sé brotinn í málefnum meðferðarheimilis Krýsuvíkursamtakanna. Heimildir DV herma að nokkrir stjórnenda og starfsmanna heimilisins hafi síðustu misserin átt óviðeigandi samskipti og sambönd við skjólstæðinga heimilisins og hefur einn þeirra kært fyrrverandi starfsmann til lögreglu fyrir kynferðisbrot. Þá þykir stjórnun nokkurra helstu starfsmanna hafa verið mjög harðneskjuleg og ósanngjörn, bæði í garð skjólstæðinga og undirmanna. DV hefur rætt við ótal starfsmenn og skjólstæðinga vegna þeirra mála sem upp eru komin.

„Að mínu mati á að loka þessari stofnun,“ segir fyrrverandi ráðgjafi sem starfaði hjá Krýsuvíkursamtökunum um hálfs árs skeið. Hún segist hafa verulegar efasemdir um að þar innandyra sé unnið faglegt starf og að árangurinn, sem stjórnendur hreykja sér af, sé í besta falli ýktur. „Þann tíma sem ég var þarna þá held ég að það sé einn sem sé enn edrú, sem tókst að bjarga. Aðrir eru á kafi í neyslu eða látnir,“ segir hún. Þá segir hún að aðrar meðferðarstofnanir, til dæmis SÁÁ, nái mun betri árangri að hennar mati. Þá sé starfsmannaveltan gríðarleg, þvert á það sem stjórnendur halda fram.

Fjölskylda og vinir stjórna meðferðarstöðinni

Krýsuvíkursamtökin reka áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fólk af báðum kynjum frá 18 ára aldri. Skjólstæðingarnir eru rúmlega 22 hverju sinni og eru jafnan þeir sem hafa átt í hve mestum vandræðum að fóta sig í samfélaginu og á öðrum meðferðarstofnunum.

Í kringum 15 manns starfa fyrir samtökin og tengjast þau sterkum fjölskyldu- og vinaböndum. Framkvæmdastýra samtakanna er Lovísa Christiansen en sonur hennar, Þorgeir Ólason, er forstöðumaður meðferðarheimilisins. Á skrifstofunni starfar einnig mágkona Þorgeirs og meðal annarra lykilstarfsmanna hafa valist nánustu vinir Þorgeirs. Hafa nýir starfsmenn fundið fyrir því á eigin skinni að falli þeir ekki inn í þá fjölskyldustemningu og þann kúltúr sem hefur myndast á heimilinu þá verði þeir ekki langlífir í starfi. Þorgeir heldur fram að starfsmannavelta sé lítil sem engin en heimildir DV segja allt aðra sögu. Starfsmenn hafa flúið eða verið reknir skyndilega og er þar fyrst og fremst skorti á faglegri umgjörð um að kenna varðandi ógöngurnar í stjórnun Krýsuvíkursamtakanna. Þá séu þeir látnir fara sem hafa út á starfshætti yfirmanna að setja.

Óeðlilegt samneyti starfsmanna við skjólstæðinga

Blaðamenn DV hafa síðustu daga átt samtöl við ótal einstaklinga sem hafa komist í kynni við samtökin síðustu misserin, einkum fyrrverandi starfsmenn. Þeir hafa allir staðfest að samskipti ýmissa starfsmanna og yfirmanna við skjólstæðinga hafi verið óeðlileg og ósiðleg. Að minnsta kosti tveir starfsmanna hafi átt í lengra sambandi, ástarsambandi, við að minnsta kosti þrjá skjólstæðinga, á meðan þeir hafi verið í meðferð á heimilinu. Rétt er að hafa í huga að skjólstæðingar Krýsuvíkurheimilisins eru alla jafna afar illa settir andlega, og jafnvel líkamlega, og oftar en ekki flytja þeir þangað inn af götunni. Þá greiða skjólstæðingar fyrir vistina.

„Í raun og veru er þetta landsliðið í neyslu, fólkið sem er við það að fara að deyja. Það voru ógnvekjandi aðstæður og ég fékk á engan hátt nægilegan stuðning né þjálfun til þess að sinna því starfi. Enginn sem þarna starfar er með menntun við hæfi. Það kemur læknir einu sinni í viku sem og ráðgjafi varðandi kynferðisbrot. Að öðru leyti eru starfsmenn að mestu ómenntaðir,“ segir fyrrverandi starfsmaður. Þá segist hún strax hafa tekið eftir skrýtnum vinnubrögðum og áherslum forstöðumannsins, Þorgeirs Ólasonar. „Hann sat á fundum, alltaf aðeins hærra uppi en við og horfði valdsmannslega yfir okkur. Ef við vorum að ræða um einhvern skjólstæðing þá gerði hann oft athugasemdir eins og „eigum við ekki að reka hann?“ eða „er hann ekki bara að klæða sig í jakkann í þessum töluðu?“. Ég hugsaði oft hvernig hann gæti eiginlega hagað sér svona,“ segir annar starfsmaður.

Þetta er aðeins brot úr ýtarlegri umfjöllun sem birtist í helgarblaðinu.

DV reyndi að ná sambandi við Þorgeir. Slökkt var á síma hans. DV ræddi stuttlega við móður hans, Lovísu Christiansen sem er framkvæmdastjóri. Hún vildi ekki ræða við blaðamann DV eða aðstoða blaðamann að komast í samband við son hennar. Sagðist hún ekki mega gefa upp símanúmer hans.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.