Séra Ólafur sagður gerandi í þremur kynferðisbrotamálum

Mynd: Þjóðkirkjan

Séra Ólafur Jóhannsson, sóknarprestur í Grensáskirkju og fyrrverandi formaður Prestafélags Íslands, var sendur í leyfi í sumar vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Þrjú mismunandi mál þar sem séra Ólafur er gerandi eru nú á borði fagráðs kirkjunnar um meðferð kynferðisbrota.

Fréttablaðið greinir frá þessu en þar segir að Séra Ólafur hafi verið sendur í leyfi til að einbeita sér að betrun hjá sálfræðingi. Séra Ólafur hefur áður komið við sögu fagráðs þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota. Séra Ólafur er sakaður um kynferðislega áreitni en sjálfur telur hann atvikin sakleysisleg.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup segir í samtali við Fréttablaðið að hún líði ekki slíka hegðun. „Ég sendi sr. Ólaf í leyfi í sumar því ég líð ekki svona mál á minni vakt. Ég beitti þeim úrræðum sem lög og reglur segja til um, og eitt af því var að senda hann í leyfi. Ég veitti honum tiltal og sendi hann í meðferð hjá sálfræðingi,“ segir Agnes.

Séra Ólafur neitar staðfastlega að hann hafi brotið á konunni í einu þessa mála. „Þar á í hlut kona sem ég hef talið til kunningja í ákveðnu samhengi. Ég tók utan um hana og kyssti hana á kinnina. Það er atvikið. Ég hélt það væri óhætt en það var greinilega ekki. Algjörlega fráleitt að kalla það kynferðislega áreitni að mínu mati, [þetta] var saklaus koss á kinn,“ hefur Fréttablaðið eftir séra Ólafi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.