Móðir dæmd fyrir að beita son sinn ofbeldi: Kleip hann í kinnar og reif í hár hans

Fangelsisrefsingin er skilorðsbundin til tveggja ára.
Sex mánaða dómur Fangelsisrefsingin er skilorðsbundin til tveggja ára.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás gegn syni sínum. Dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára.

Konan var ákærð fyrir að hafa þann 4. febrúar 2016 gripið fast um upphandleggi og axlir sonar síns og klipið í báðar kinnar hans. Afleiðingarnar urðu þær að hann hlaut mar í andliti beggja vegna, mar á vinstri upphandlegg og sár ofarlega á hægri öxl.

Þá var hún ákærð fyrir að hafa, tæpu ári síðar, eða þann 29. janúar á þessu ári, rifið í hár sonar síns með þeim afleiðingum að hann hlaut roða á hvirfli. Ekki kemur fram hvað drengurinn er gamall.

Konan, sem er fædd árið 1981, játaði sök fyrir dómi en samkvæmt sakavottorði hefur hún ekki áður sætt refsingu. Dómurinn er sem fyrr segir skilorðsbundinn til tveggja ára en auk þess var henni gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns að fjárhæð 274 þúsund krónur

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.