Talsverður munur á æfingagjöldum íþróttafélaga

Dýrt að æfa í Garðabæ - Lægsti frístundastyrkurinn og enginn systkinaafsláttur

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Talsverður munur er á æfingagjöldum íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu í boltaíþróttunum þremur, fótbolta, körfubolta og handbolta. DV fór á stúfana og skoðaði verð í tveimur aldursflokkum hjá nokkrum íþróttafélögum í þessum vinsælu greinum. Úttekin nær til KR og ÍR í Reykjavík, Gróttu á Seltjarnarnesi, Breiðabliks í Kópavogi, Stjörnunnar í Garðabæ, Hauka í Hafnarfirði og Aftureldingar í Mosfellsbæ. Rétt er að geta þess að þessi félög bjóða ekki öll upp á allar þrjár boltagreinarnar.

Í úttektinni var skoðað verð fyrir börn sem fædd eru árið 2005 og hins vegar börn sem eru fædd 2009. Munur milli félaganna er lítill í eldri árganginum en er talsverður hjá yngri börnunum. Stjarnan í Garðabæ er oftast með hæstu gjöldin í þessum þremur greinum. Þá sker félagið sig úr að því leyti að Stjarnan er eina félagið sem býður ekki upp á systkinaafslátt. Þá er Garðabær það sveitarfélag sem býður upp á lægstu frístundastyrkina eða 32 þúsund krónur á ári fyrir hvert barn, samanborið við 50 þúsund króna styrki hjá Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesi.

Reykjavík og Seltjarnarnes með hæstu frístundastyrki

Talsverður munur er á milli sveitarfélaga varðandi frístundastyrki. Reykjavík og Seltjarnarnes bjóða best ef fólk á 1-2 börn eða 50 þúsund króna niðurgreiðslu fyrir hvert barn frá 6-18 ára aldri. Mosfellsbær býður upp á 32.500 króna styrk fyrir fyrsta barn en síðan hækkar styrkurinn um 25% fyrir hvert barn. Ef að þrjú börn eru í fjölskyldu fer styrkurinn þar upp í 50.781 krónur.

Garðabær býður lægsta styrkinn eða 32 þúsund krónur. Þar á bæ hafnaði meirihluti Sjálfstæðismanna nýlega tillögu minnihlutans um hækkun styrksins til jafns við það sem gerist í höfuðborginni. Garðabær er ásamt Kópavogi eina sveitarfélagið sem lætur styrkinn gilda einnig fyrir 5 ára börn.

Frístundastyrkir

Reykjavík 6-18 ára - 50.000 Seltjarnarnes 6-18 ára - 50.000 Kópavogur 5-18 ára 40.000 Hafnarfjörður 6-18 ára 36.000 Garðabær 5-18 ára 32.000 Mosfellsbær 6-18 ára 32.500 - 50.781

Æfingagjöld segja ekki alla söguna

Vetrarstarf íþróttafélaganna er í flestum tilvikum hafið af fullum krafti. Valkostirnir sem standa börnum og unglingum til boða eru gríðarlega margir og fjölbreyttir en kostnaðurinn er æði mismunandi milli félaga. Flestir foreldrar setja kostnað við íþróttaiðkun barna sinna ekki fyrir sig, ef fjárhagur leyfir það á annað borð, þar sem óumdeilt er að íþróttaiðkunin eða tómstundirnar eru uppbyggilegar, stuðla að bættri heilsu, betri árangri í námi, geta hjálpað börnum félagslega og hafa forvarnargildi á unglingsárunum.

Þó er rétt að geta þess að æfingagjöldin segja aðeins lítinn hluta sögunnar. Ofan á þau bætist kostnaður við ýmsan búnað eins og skófatnað og íþróttabúninga merkta félögunum. Sá kostnaður hleypur iðulega á tugum þúsunda og getur reynst þungur baggi fyrir margar fjölskyldur.

Enginn systkinaafsláttur hjá Stjörnunni

Til þess að létta undir með stórum fjölskyldum bjóða íþróttafélögin yfirleitt upp á systkinaafslátt. Af þeim félögum sem DV skoðaði skar Stjarnan sig úr að því leyti að félagið er hið eina sem veitir ekki slíkan afslátt. Hjá öðrum er afslátturinn á bilinu 10–12,5 prósent ef yngri systkini byrja líka að æfa einhverja íþróttagrein hjá félaginu. Breiðablik býður best eða 15 prósenta afslátt.

Fyrir utan þá staðreynd að Stjarnan býður ekki upp á systkinaafslátt þá eru æfingagjöld félagsins í hærri kantinum í öllum flokkum. Framkvæmdastjóri félagsins segir að áhersla félagsins á að ráða vel menntaða þjálfara og að hafa ekki mjög stóra hópa iðkenda á hvern þjálfari geti mögulega útskýrt verðmun milli félaga að einhverju leyti. Þá sé ýmiss konar önnur þjónusta innifalin sem sé ekki endilega auglýst. Má sem dæmi nefna opnar tækniæfingar fyrir yngri iðkendur sem eru til viðbótar við auglýstar æfingar.

„Verðskrá fyrir barna- og unglingastarf Stjörnunnar er ákveðin út frá mjög föstu formi. Tekin er fjöldi iðkenda sem æfði með deildinni árið áður og sá fjöldi notaður til viðmiðunar í útreikningum. Miðað er við að æfingagjöld deildanna standi undir launakostnaði þjálfara enda er það langstærsti útgjaldaliður starfseminnar. Annar kostnaður er svo fjármagnaður með ýmiss konar fjáröflun svo sem mótahaldi, veitingasölu, sameiginlegum söfnunum og svo framvegis,“ segir Ása Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Stjörnunnar. Hún segir að Stjarnan leggi áherslu á að barna- og unglingastarfið sé ekki að safna styrkjum frá fyrirtækjum í samkeppni við afreksstarfið í félaginu fyrir sínum rekstri, heldur er starfið rekið á æfingagjöldum að mestu leyti. Tap var á rekstri barna- og unglingastarfs flestra deilda Stjörnunnar síðastliðinn vetur og þarf því að leiðrétta þá stöðu. „Samt voru æfingagjöld flestra deilda aðeins hækkuð um 3 prósent nú í haust, þrátt fyrir að vísitala launa á almennum markaði hafi hækkað um 8 prósent á síðastliðnu ári, en Stjarnan reynir eins og kostur er að fylgja launaþróun á almennum markaði. Þar sem laun þjálfara eru stærsti útgjaldaliðurinn, eins og áður kom fram hafa launahækkanir að sjálfsögðu mikil áhrif á rekstur félagsins,“ segir Ása Inga.

Systkinaafslættir íþróttafélaga

Útfærsla systkinaafslátta er yfirleitt á þá leið að afslátturinn er reiknaður af báðum gjöldum en síðan dregst heildarafsláttarsumman af lægra gjaldinu. Íþróttafélagið Haukar í Hafnarfirði skera sig þó aðeins úr. Þar á bæ er fjórða iðkun systkina og allar þær sem á eftir koma ókeypis. Ef forráðamaður á tvö börn sem æfa bæði knattspyrnu og körfubolta þá er fjölskyldan komin með fjórar iðkanir. Fjórða iðkunin er því frí og þær sem á eftir koma og að sjálfsögðu er ódýrasta iðkunin er frí.

Breiðablik - 15% afsláttur KR - 12,5% afsláttur ÍR - 10% afsláttur Afturelding - 10% afsláttur Grótta - Haukar - Fjórða iðkun frí og allar þær sem eftir koma

Stjarnan - Enginn afsláttur

Þrýstingur á að halda gjöldunum lágum

ÍR er yfirleitt í lægri hlutanum varðandi æfingagjöld sem innheimt eru fyrir þær íþróttir sem eru í boði hjá félaginu. Þá heldur félagið úti athyglisverðu verkefni sem gerir börnum kleift að prófa flestar íþróttagreinarnar hjá félaginu fyrir eitt lágt gjald. Að sögn íþróttastjóra félagsins, Þráins Hafsteinssonar, reynir félagið að bjóða upp á lág gjöld og það hefst með góðri aðstoð aðstandenda hins unga íþróttafólks. „Innan félagsins er lögð mikil áhersla á að halda æfingagjöldum í lágmarki. Við finnum fyrir miklum þrýstingi úr hverfinu um að æfingagjöld séu hófleg og við reynum að koma til móts við hann,“ segir Þráinn. Hann segir að það komi ekki niður á gæðum starfsins enda sé mikill metnaður innan félagsins um að ráða menntaða þjálfara til starfa.

„Við náum þessu með því að halda yfirbyggingu félagsins í lágmarki. Það er enginn launaður starfsmaður hjá deildum félagsins heldur treystum við á öflugt sjálfboðaliðastarf. Þjálfararnir eru þeir einu sem þiggja greiðslur fyrir sína vinnu,“ segir Þráinn.

Mynd: Helgi Bjornsson

Eins og áður segir hefur félagið komið til móts við yngstu iðkendurna með athyglisverðu verkefni sem gefur krökkum í hverfinu kost á að prófa fjölmargar íþróttagreinar. „Fyrir nokkrum árum fórum við af stað með verkefnið ÍR ungar fyrir nemendur í 1. og 2. bekk. Það virkar þannig að aðstandendur borga 25 þúsund króna gjald fyrir önnina en barnið má prófa sex íþróttagreinar; fótbolta, körfubolta, handbolta, frjálsar, keilu og skíði. Þannig getur barnið prófað og vonandi fundið út hvaða grein hentar því best. Þetta hefur gefið góða raun og nýtur gríðarlega vinsælda. Það er mikill þrýstingur á okkur um að færa út kvíarnar og taka 3. og 4. bekk einnig inn í verkefnið,“ segir Þráinn.

Fótbolti

Fótbolti er langvinsælasta íþróttagrein landsins og má búast við því að áhugi barna á þeirri íþrótt muni aðeins aukast í takt við frábæran árangur íslenskra knattspyrnulandsliða. Æfingagjöldin í fótbolta ná yfir tólf mánaða tímabil en handbolta- og körfuboltadeildir félaganna eru aðeins starfandi í níu mánuði. Hæstu æfingagjöldin eru hjá Breiðabliki og Stjörnunni fyrir krakka fædda árið 2005, sem eru þá í 5. flokki. Gjaldið er 89.000 krónur á ári hjá báðum félögum en rétt er að geta þess að Breiðablik hefur ekki enn uppfært gjaldskrá sína og því gætu gjöldin þar hækkað. Í boði eru fjórar æfingar í viku hjá öllum félögum en æfingarnar hjá Breiðabliki eru óvenjulangar eða tvær klukkustundir hver. Það má því segja að iðkendur þar fái mikið fyrir peninginn. Lægsta gjaldið fyrir árið er hjá KR í Reykjavík.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Árgjald í knattspyrnu fyrir börn fædd árið 2005:

1.–2. Breiðablik - 89.000 krónur
1.–2. Stjarnan - 89.000 krónur
3. Haukar 88.500 krónur
4.–5. Grótta - 87.600 krónur
4.–5. Afturelding - 87.600 krónur
6. ÍR - 75.000 krónur*
7. KR - 72.500 krónur

*Haustönn hjá ÍR, alls fjórir mánuðir, kostar 25.000 krónur. Árgjaldið var því áætlað samkvæmt því.

KR-ingar eru afar sanngjarnir varðandi æfingagjöld sín í knattspyrnu en félagið býður einnig upp á lægstu gjöldin fyrir börn fædd árið 2009. Grótta er með hæstu gjöldin en Seltirningarnir eru með sama verð fyrir 3.–7. flokk, 7.300 krónur á mánuði. Þá er Stjarnan eins og endranær ofarlega á blaði.

Árgjald í knattspyrnu fyrir börn fædd árið 2009:

 1. Grótta - 86.700 krónur
 2. Stjarnan - 81.370 krónur
 3. Breiðablik - 77.000 krónur
 4. ÍR - 75.000 krónur *
 5. Afturelding - 63.600 krónur
 6. Haukar - 62.500 krónur
 7. KR - 60.000 krónur

Körfubolti

Öll ofangreind félög nema Grótta bjóða börnum upp á að æfa körfuknattleik. Krakkar fæddir árið 2005 fá yfirleitt þrjár æfingar í hverri viku. Í þessum flokki bjóða Haukar upp á langlægsta gjaldið eða 53 þúsund krónur fyrir árið. Hæsta gjaldið er hjá Aftureldingu eða 80.325 krónur á ári. Stjarnan er skammt undan með 79.000 krónur á ári. Þessi félög skera sig nokkur frá öðrum varðandi há æfingagjöld í körfuknattleik.

Árgjald í körfubolta fyrir börn fædd árið 2005:

 1. Afturelding - 80.325 krónur
 2. Stjarnan - 79.000 krónur
 3. Breiðablik - 71.000 krónur
 4. KR - 70.150 krónur
 5. ÍR - 66.000 krónur
 6. Haukar - 53.000 krónur

Hjá krökkum sem eru fæddir árið 2009 er langhæsta gjaldið hjá Breiðablik eða 71.000 krónur fyrir árið. Stjarnan er næstdýrust sem endranær en Haukar eru aftur langódýrastir með árgjald upp á 40.500 krónur. Athygli vekur að æfingagjöldin hjá Aftureldingu hrynja niður samanborið við gjöldin í eldri árganginum.

Árgjald í körfubolta fyrir börn fædd árið 2009:

 1. Breiðablik - 71.000 krónur
 2. Stjarnan - 66.000 krónur
 3. ÍR - 58.000 krónur
 4. KR - 50.000 krónur
 5. Afturelding - 42.525 krónur.
 6. Haukar - 40.500 krónur

Handbolti

Af ofangreindum félögum eru tvö sem bjóða ekki upp á handboltaæfingar, KR og Breiðablik. Æfingagjöldin fyrir krakka fædda árið 2005 eru á talsvert dreifðu bili. Lægsta gjaldið er hjá Gróttu eða 64.980 krónur en Haukar eru skammt undan. Hæsta gjöldin eru hjá Stjörnunni sem hefur talsverða yfirburði í þeim efnum.

Árgjald í handbolta fyrir börn fædd árið 2005:

 1. Stjarnan - 83.900 krónur
 2. Afturelding - 75.000 krónur
 3. ÍR - 70.000 krónur
 4. Haukar - 66.000 krónur
 5. Grótta - 64.980 krónur

Halda mætti að félögin í úttektinni hafi haft verðsamráð varðandi æfingagjald fyrir börn fædd árið 2009. Þar eru Haukar þó undanskildir því þar á bæ bjóða menn upp á langlægsta gjaldið eða 42.800 krónur. Gjöld hinna fjögurra félaga eru á bilinu 51.500–55.000 krónur og er Afturelding með hæsta gjaldið.

Árgjald í handbolta fyrir börn fædd árið 2009:

 1. Afturelding - 55.000 krónur
 2. Grótta - 54.500 krónur
 3. ÍR - 54.000 krónur
 4. Stjarnan - 51.500 krónur
 5. Haukar 42.800
Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.