Þessu áttu starfsmenn Kvennaathvarfsins ekki von á þegar lögreglumenn bönkuðu upp á

„Í gær birtust tveir lögreglumenn í fullum skrúða í athvarfinu. Við erum svo sem ekki óvanar því en þessir voru hvorki að fylgja konu í dvöl né að bregðast við áreiti í garð dvalarkvenna heldur voru þeir með fötu af krækiberjum sem þeir höfðu lofað að koma til skila.“

Þannig hefst færsla á Facebook-síðu Kvennaathvarfsins sem vakið hefur athygli. Berin hafði maðurinn tínt sjálfur og farið með á lögreglustöðina. Vildi hann að Kvennaathvarfið fengi að njóta þeirra en vissi ekki hvar athvarfið var og fannst það ekki koma sér við. Hann óskaði því eftir aðstoð lögreglunnar til að koma berunum í réttar hendur ásamt peningaseðlum sem hann vildi láta renna til Kvennaathvarfsins. Á Facebook-síðu athvarfsins segir:

„Lögreglan tók að sér að koma berjunum til skila en benti manninum á aðrar leiðir til að koma peningunum í athvarfið. Við þökkum hinum ókunna velgjörðarmanni og einkennisklæddu berjasendlunum fyrir okkur og köllum sultugerðarkonur athvarfsins til starfa.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.