Mynd sem leiðir sannleikann í ljós: Sumir vilja DNA próf – Arndís kveðst vona að Abrahim sé faðir Haniye

Frétt DV fyrr í dag um orð sem Arndís Ósk Hauksdóttir, íslenskur sóknarprestur í Steinkjer í Þrændalögum í Noregi, lét falla á Facebook þar sem hún spurði í tvígang hvort Haniye Maleki og Abrahim Maleki væru hjón hefur vakið nokkra athygli. Ummælin lét Arndís falla undir þræði þar sem Hildur Hrönn Hreiðarsdóttir sagði að „þessi feðgin eiga heima í Þýskalandi. Íslendingar eru að verða niðursetningar í eigin landi.“

Presturinn spurði þá: „Feðgin? Hjón?“

Mátti á þessu skilja að Arndís væri að gefa í skyn að feðginin væru í raun hjón. Í athugasemdum undir fréttinni tóku einstakir lesendur undir orð hennar en flestir hafa gagnrýnt þau. Arndís hefur síðan þá látið í sér heyra undir frétt DV og í Facebook-hópnum Málfrelsið og heldur fram að hún vildi láta athuga þetta því það væri vel þekkt í öðrum löndum að karlar komi með barnabrúðir allt niður í 10 ára. Segir Arndís að hún vildi láta athuga þetta stúlkunnar vegna. Þegar Arndís varpaði fram spurningum í sitt hvorum þræðinum hvort Haniye Maleki og Abrahim Maleki væru hjón minntist hún ekki einu orði á að henni væri umhugað um hag þeirra feðgina.

Guðmundur Karl Karlsson, sem var einn skipuleggjenda 12 ára afmælisveislu Haniye í sumar og hefur verið þeim til halds og traust, sendi DV mynd sem ætti að taka allan vafa af faðerni hennar. Myndin sýnir þau feðgin á ferðalagi í Íran þegar Haniye var mjög ung að aldri. Guðmundur segir orð að Arndísar Óskar sóknarprests séu að öðru leyti ekki svaraverð og vill því ekki tjá sig nánar um þau.

Þó margir hafi fordæmt þess orð hennar þá voru nokkrir sem tóku undir með henni í athugasemdum. „Við megum heldur ekki líta framhjá því að barnahjónabönd eru standard practice í þessum löndum og betra að vera viss um að ekki sé heldur verið að brjóta á barni. Það ætti þá að vera leikur einn að komast að því og þá annað hvort að útiloka eða staðfesta og þá bjarga barninu,“ skrifaði ein kona og tók maður einn undir og sagðist vilja gera DNA próf.

Arndís Ósk skrifaði sjálf athugasemd við fréttina og taldi að fyrirsögnin væri villandi. „Ég hef alls ekki gefið í skyn að þessi litla fallega stúlka sé ekki dóttir mannsins. En aftur á móti er að mjög algengt að karlar komi hingað til Noregs með kornungar brúðir, allt niður í 10 ára,“ skrifaði Arndís. Stuttu síðar í sömu athugasemd sagðist hún þó „vona innilega að hann sé faðir hennar“.

Í Facebook-hópnum Málfrelsið tjáir Arndís sig jafnframt um málið. Þar segir hún að hún vildi láta athuga þetta stúlkunnar vegna. „ Ég væri til í að ættleiða þessa litlu yndislegu stúlku ef ég væri ekki orðin of gömul. Ég vona að maðurinn sé faðir hennar en hví má ekki kanna það vegna reynslu annarra landa?,“ skrifar Arndís þar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.