Nágrannaerjur í Mosfellsbæ fyrir dóm: „Við fengum skyndilega bréf frá lögreglunni“

Málið fer senn fyrir hæstarétt - „Valdníðsla,“ segja eigendur

Einar Bogi og Kristján Ingi við glæsilegt hænsnahúsið að Suður-Reykjum 3 í Mosfellsbæ. Þeir hafa átt í áralöngu stríði við Mosfellsbæ sem hefur tekið sinn toll.
Fjaðrafok Einar Bogi og Kristján Ingi við glæsilegt hænsnahúsið að Suður-Reykjum 3 í Mosfellsbæ. Þeir hafa átt í áralöngu stríði við Mosfellsbæ sem hefur tekið sinn toll.
Mynd: Brynja

Hjónin Kristján Ingi Jónsson og Einar Bogi Sigurðsson hafa í rúm fimm ár staðið í deilum við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ út af gali í tveimur hönum sem þeir halda á heimili sínu ásamt tólf hænum. Málið var tekið fyrir á héraðsdómstigi á dögunum en yfirvöld fara fram á að leitað verði að hönunum á heimili Kristjáns og Einars og finnist þeir verði þeim fargað. ­Héraðsdómur ­vísaði málinu frá í gær, fimmtudag, en lögreglan hyggst halda málinu til streitu og verður því áfrýjað til Hæstaréttar. Heimili hjónanna, Suður-Reykir 3, hefur ­verið lögbýli í rúma sjö áratugi en að sögn Kristjáns breyttu bæjaryfirvöld því í skjóli nætur. Mosfellsbær heldur því nú fram að heimili þeirra heiti Reykjahvoll 5 og sé hluti af þéttbýli, en þar með væri hanahaldið óleyfilegt. „Við höfum engar upplýsingar um hvenær þetta var gert. Sem lögbýli þá erum við í fullum rétti til þess að halda þau dýr sem við viljum. Bærinn skilgreinir okkur núna sem hluta af þéttbýli og byggir þessa fráleitu kröfu sína á því. Reykjahvoll 5 er hins vegar ekki til, við búum að Suður-Reykjum 3. Það er forkastanlegt að valtað sé yfir fólk og söguna með þessum hætti,“ segir Kristján.

Vagga íslenskrar garðyrkju

Bar skarðan hlut frá borði í valdabaráttu við bróður sinn, Kolamola Kóng. Framtíð hans er í uppnámi en það hefur hann enga hugmynd um.
Erfðaprinsinn Bar skarðan hlut frá borði í valdabaráttu við bróður sinn, Kolamola Kóng. Framtíð hans er í uppnámi en það hefur hann enga hugmynd um.
Mynd: Brynja

Blaðamaður DV kíkti í heimsókn til Kristjáns og Einars í vikunni og má með sanni segja að um sannkallaða ­ævintýraveröld sé að ræða. Framan við húsið er hilla þar sem notuðum skóm hefur ­verið breytt í blómapotta. Í ­garðinum rennur heitt vatn í heimagerða útisundlaug og um alla lóð má sjá falleg blóm og gróður. Kristján er fæddur á staðnum og bjó þar öll sín æskuár. Hann flutti síðan aftur í heimahagana ásamt eiginmanni sínum ­sumarið 2009. „Að ­okkar mati eru Suður-Reykir vagga garðyrkju á Íslandi. Afi minn, Bjarni Ásgeirsson frá Reykjum, reisti hér ­upphituð gróðurhús til grænmetis- og blómaræktunar árið 1923 og var frumkvöðull í þeim efnum. Þá var Listasafn Einars Jónssonar fyrsta húsið í Reykjavík sem var tengt við hitaveitu frá Suður-Reykjum. Þetta er því merkilegur staður,“ segir Kristján. Amma hans, Ásta ­Jónsdóttir, opnaði fyrstu ­blómabúðina í Reykjavík, Blóm og ávexti, árið 1930 og áhuginn á blómum og garðyrkju ­smitaðist yfir til Kristjáns. „Ég hafði aldrei áhuga á fótbolta og íþróttum eins og aðrir strákar heldur labbaði ég um sveitina með bók um íslenska flóru og fletti upp nöfnunum á blómum,“ segir Kristján brosandi. Hann opnaði síðar blómabúð í miðbæ Reykjavíkur og þegar Kristján var að velta fyrir sér nöfnum blasti eitt nafn við: „Amma kallaði mig alltaf blómálfinn sinn og það lá því í augum uppi sem nafn,“ segir Kristján sem rak samnefnda verslun um árabil.

Kolamoli hafði betur í valdabaráttunni

Þessi fallegi hani ríkir sem kóngur yfir óðali sínu að Suður-Reykjum 3. Tekist var á um framtíð hans á héraðsdómstigi.
Kolamoli Kóngur Þessi fallegi hani ríkir sem kóngur yfir óðali sínu að Suður-Reykjum 3. Tekist var á um framtíð hans á héraðsdómstigi.
Mynd: Brynja

Í útjaðri lóðarinnar að Suður-Reykjum er óðal tveggja hana, bræðranna Kolamola Kóngs og Erfðaprinsins. Óðalið samanstendur af rúmgóðu svæði sem er afgirt sem og glæsilegu hænsnahúsi þar sem verpt er allt árið um kring. Kolamoli hafði betur í valdabaráttu þeirra bræðra og ­sölsaði undir sig átta hænur sem hann hugsar vel um. Eldri bróðir hans, Erfðaprinsinn, fær að annast þær sem Kolamoli vildi ekki en þær eru fjórar talsins. Meðan á rúmlega klukkustundar langri heimsókn blaðamanns stendur gala hanarnir 4–5 sinnum. Líkt og áður segir þá er það þetta hanagal sem hefur gert að verkum að Kristján og Einar hafa staðið í margra ára deilum við Mosfellsbæ sem náði hámarki á dögunum þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi. Allt byrjaði þegar nágranni kvartaði vegna meints hávaða fyrir nokkrum árum og síðan hefur málið undið upp á sig. Nú er það markmið yfirvaldsins að fá dómsúrskurð þess efnis að framkvæmd skuli húsleit á heimili hjónanna til að hafa uppi á fuglunum og þeim verði síðan fargað.

Erfitt að leita á stað sem er ekki til

„Við fengum skyndilega bréf frá lögreglunni fyrir rúmum fimm árum þar sem mér var gert að afhenda fuglana. Til marks um hvað málið er illa unnið þá er ­krafan stíluð á mig einan sem er einkennilegt því við Einar erum giftir og eigum fuglana saman. Ef dómur fellur gegn mér þá verður fróðlegt að sjá hvernig yfirvöld ætla að bera sig að, verður helmingur fuglanna tekinn eða ætla þeir að skera hvern fugl í tvennt?“ segir Kristján kíminn.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.