„Sumt fólk í okkar samfélagi telur að það megi misnota og nauðga börnum á þennan viðbjóðslega hátt“

Barnaníðingahringur: Sakborningar sem fundnir voru sekir fyrir rétti í Newcastle fyrir skömmu
Barnaníðingahringur: Sakborningar sem fundnir voru sekir fyrir rétti í Newcastle fyrir skömmu

Formaður ísömsku samtakanna Ramadhan Foundation á Bretlandi, Mohammed Shafiq, segir að sumir íslamskir karlmenn sem hafa verið viðriðnir misnotkunarmál þar sem brotið er gegn hvítum breskum stúlkum álíti þær vera einskis virði og hægt sé að koma fram við þær eins og manni sýnist.

Shafiq er einn þekktasti álitsgjafi í fjölmiðlum um málefni múslima á Bretlandi. Shafiq segir: „Það er mikilvægt að ræða kjarna málsins – hvers vegna sumt fólk í okkar samfélagi telur að það sé í lagi að misnota og nauðga börnum á þennan viðbjóðslega hátt ... hér þarf að grípa inn í með fræðslu.“

Frá þessu greinir á Sky News en ummælin lætur Shafiq falla í kjölfar frétta í vikunni um að 18 manna hópur hafi verið sakfelldur fyrir rétti í Newcastle vegna víðtækra kynferðisbrota gegn unglingsstúlkum.

Þolendur mannanna eru 22 stúlkur og eru ákærurnar yfir 100. Mennirnir eru flestir pakistanskir múslimar, en einnig eru í hópnum menn upprunnir frá Bangladesh, Íran, Írak, Indlandi og Tyrklandi. Flestir þeirra eru hins vegar fæddir í Bretlandi og allir eru breskir ríkisborgarar.

Mennirnir tældu til sín unglingsstúlkur sem stóðu höllum fæti, gerðu þær háðar fíkniefnum, nauðguðu þeim og gerðu sumar út í vændi. Kerfisbundin misnotkun götugengja með íslamskan bakgrunn á hvítum breskum stúlkum er þekkt vandamál á Bretlandi og þetta mál er aðeins eitt í langri röð viðamikilla misnotkunarmála með þar sem brotaferlið hefur verið með áþekku mynstri.

Mohammed Shafiq
Mohammed Shafiq

Rotherham-hneykslið

Borgin Rotherham á Norður-Englandi er á stærð við Reykjavík. Skýrsla sem birt var árið 2014 leiðir í ljós að í borginni hafi um 1.400 börn verið misnotuð kynferðislega á árabilinu 1997 til 2013, af götugengjum sem hafi tælt börnin til sín, gefið þeim fíkniefni, nauðgað þeim margsinnis og gert sum út í vændi.

Í skýrslunni kemur fram að félagsmálayfirvöld, lögregla og fjölmiðlar hafi lengi veigrað sér við að taka á þessum faraldri af ótta við að fá á sig rasistastimpil, þar sem yfirgnæfandi meirihluti gerenda voru múslímar, upprunnir frá löndum Suður-Asíu, og flestir þolendurnir hvítar, breskar stúlkur. Yngstu þolendurnir voru 11 ára en algengur aldur þolenda var 13-15 ára. Dæmi voru um að lögregla hefði vísað frá stúlkum sem leituðu til hennar á flótta undan gengjunum og afgreitt þær sem dópista. Stúlkurnar lentu þá aftur í klónum á gengjunum.

Mörg önnur misnotkunarmál af svipuðu tagi hafa komið upp, flest í borgum á Norður-Englandi, til dæmis í Birmingham, Rochdale og Luton. Fjölmargir gerendur hafa á undanförnum árum verið dregnir fyrir dómstóla og margir fengið þunga fangelsisdóma.

BBC hefur gert heimildarmynd um misnotkunarfaraldur í Rochdale og var brotaferlið þar keimlíkt því sem átti sér stað í Rotherham.

Mohammed Shafiq segir mikilvægt að umræðan um þetta vandamál verði ekki einokuð af hægri öfgamönnum og antí-íslamistum. Hinir öfgafyllstu telja að allir múslímar séu nauðgarar, en ýmsir aðrir halda því fram að trúarritum Íslams sé um að kenna því þar finni brotamennirnir réttlætingu fyrir því að misnota konur sem ekki eru múslímar.
Shafiq bendir á að kynferðislega misnotkun sé að finna í öllum samfélögum en samfélög múslima á Bretlandi þurfi að taka á þessum faraldri og þeim viðhorfum sem liggja að baki ofbeldisverkunum.

Umfjöllun BBC um Rotherham-skýrsluna

Heimildarmynd um Rochdale-hneykslið

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.