Gunnar Hrafn um Óttar Proppé: Hann er sammála því að við myndum ekkert græða á því að missa hið frábæra starf Hugarafls

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, hefur sent DV stutta yfirlýsingu í tilefni umfjöllunar um málefni Hugarafls, félags sem sérhæfir sig í þjónustu við fólk með geðraskanir. Mikil hætta er á að starfsemi félagsins stöðvist vegna fjárskorts. Ungir Píratar hafa sent frá sér ályktun þar semþeir krefjast þess að Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra komi í veg fyrir lokun Hugarafls og að félagið fái nauðsynlegan stuðning.

Gunnar Hrafn hefur sjálfur glímt við geðræn vandamál og steig hann fram í vetur og lýsti baráttu sinni við þunglyndi.
Hann telur að vilji sé hjá heilbrigðisráðherra til að koma Hugarafli til bjargar. Gunnar skrifar í orðsendingu sinni til DV:

„Ég tek heilshugar undir þessa kröfu og hvet sem flesta þingmenn, þvert á flokka, til að gera hið sama. Þarna myndum við missa úrræði sem meira en 170 manns nýta sér að jafnaði og kostar mjög lítið að reka - það eru engin úrræði sem koma í staðinn og skjólstæðingar Hugarafls þyrftu þá jafnvel enn frekar að leita á náðir heilbrigðiskerfisins sem er nú þegar að sligast undan álagi og er auk þess dýrt í rekstri til samanburðar. Ég hef rætt þetta við Óttarr Proppé og veit að hann er sammála því að við myndum ekkert græða á að missa hið frábæra starf Hugarafls #Althingi“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.