Ósátt við meðferðina á páfagauknum Mosa í Blómavali: „Ekkert dót, ekkert fyrir hann að tæta og rífa“

Rekstrarstjóri Blómavals fullyrðir að vel sé hugsað um fuglinn

Lítið er um að vera í búrinu hjá Mosa.
Mozart Lítið er um að vera í búrinu hjá Mosa.
Mynd: Kolbrún Eva

„Skammir dagsins fær Blómaval í Skútuvogi. Þeir eru tiltölulega nýkomnir með African Grey páfagauk í búðina sem eflaust slær í gegn hjá kúnnum og börnum þeirra. Aftur á móti hef ég komið þangað þrisvar sinnum síðan hann kom og í öll skiptin kvartað yfir því að það sé ekkert fyrir fuglinn inn í þessu risastóra og flotta búri. Ekkert dót, ekkert fyrir hann að tæta og rífa,“ segir dýravinurinn Kolbrún Eva í Facebook-færslu sem vakið hefur mikla athygli.

„Kraftur fjöldans breytir kannski einhverju“

Að hennar sögn kemur starfsfólk Blómavals af fjöllum þegar hún kvartar undan aðstæðum fuglsins og virðast á öllu vera sama um páfagaukinn. „Þessir fuglar þurfa rosalega mikið. Blómaval er ekki að standa sig í að gefa fuglinum það sem hann þarf til að vera hamingjusamur. Nenniði plís ef þið eigið leið þarna inn að kvarta yfir þessu líka. Kraftur fjöldans breytir kannski einhverju,“ segir Kolbrún Eva.

Færslu hennar var deilt mörg hundruð sinnum og voru dýravinir vægast sagt ósáttir við meðferðina á fuglinum, sem heitir Mozart en er kallaður Mosi. Minntust margir páfagauksins Jakobs sem átti heimili sitt í Blómaval í þrjá áratugi en hann dó í desember 2016, þá 50 ára gamall

„Eins og mér fannst gaman að fara að klóra Jakobi þá sárvorkenndi ég honum alltaf. Sérstaklega þegar það var mikið að gera og honum leið illa í fjölmenninu. Ég reyndi meira að segja að biðla til þeirra og bauðst til að kaupa hann. Ég vonaði innilega að þau myndu ekki fá sér annan fugl en það var ekki svo gott,“ segir Linda Rós Helgadóttir.

Segja að vel sé hugsað um Mosa

Áhyggjur dýravina bárust til Blómavals og svaraði rekstrarstjóri búðarinnar, Berglind Bjarnadóttir, fyrir meðferðina á Mosa. Í svari hennar kemur fram að Mosi sé tekinn út úr búrinu á hverjum degi. Hann sé kjassaður, mikið látið með hann og honum gefið góðgæti, meðal annars hnetur, ávexti og aðalfæðu sína, þurrfóðurköggla.

„Við vinnum náið með fyrri eigenda og tökum smá skref svo Mosi aðlagist sem best hjá okkur og við munum kynna hann fyrir nýjum leikföngum hægt og rólega. Við erum einnig með samning við dýralækni svo allt sé sem best fyrir Mosa okkar og hann dafni og njóti verunnar hjá okkur. Við getum fullvissað þig um að vel er hugsað um Mosa og leikföngum verður bætt við hjá honum á næstunni, þó gerum við það rólega til að styggja hann ekki því sum leikföng vill hann allls ekki sjá í búrinu,“ segir í svari Berglindar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.