Karlmaður framdi sjálfsvíg á miðvikudaginn - „Hátún er biðsalur dauðans,“ segir íbúi og vinur hins látna

Rétt fyrir miðnætti á miðvikudaginn framdi íbúi í blokkum Öryrkjabandalagsins við Hátún sjálfsvíg með því að henda sér út um glugga af einni af efstu hæðum hússins. Maðurinn var rétt rúmlega fimmtugur. Að sögn Júlíusar Þórðarsonar, íbúa í blokkunum og vinar mannsins, er þetta fimmti íbúinn sem hann þekkti persónulega sem sviptir sig lífi á þennan hátt frá því að hann flutti í blokkina árið 2001. Hann segist hafa orðið vitni að þeim flestum. „Hátún er biðsalur dauðans,“ segir Júlíus.

Júlíus lýsir manninum sem lést á miðvikudaginn sem góðum manni sem öllum líkaði vel við. Hann hafi verið rólegur í fasi en skarpgáfaður. Júlíus segir að hann hafi haft mikinn áhuga á skák og verið sterkur skákmaður.

Hildur Hjálmarsdóttir, íbúi á jarðhæð í blokkunum, kom að manninum en hann féll niður beint fyrir utan svefnherbergi hennar. Hún segist ekki hafa hætt að skjálfa þegar hún ræddi við blaðamann DV daginn eftir. Blóðsletta á verönd hennar hafði enn ekki verið þrifin.

Hildur kom að manninum rétt fyrir miðnætti á miðvikudaginn. „Þetta er bara hryllingur,“ segir Hildur.
Nágrannar Hildur kom að manninum rétt fyrir miðnætti á miðvikudaginn. „Þetta er bara hryllingur,“ segir Hildur.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Leo J. W. Ingason missti son sinn, Gunnar Leó Leosson, árið 2007 með þessum hætti en hann var nýfluttur í blokkirnar. Öll eru þau sammála um að ábyrgð stjórnvalda sé mikil.

DV óskaði eftir viðtali við Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóra Brynju – Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, sem á og rekur íbúðirnar í Hátúni 10, en ekki náðist í hann, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. „Hátúnið, og íbúarnir þar, hefur verið mér hugleikið, enda sagði ég af mér formennsku í ÖBÍ vegna andstöðu Hússjóðsins við róttækar umbætur,“ sagði Sigursteinn Másson, fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins og Geðhjálpar, í samtali við DV.

„Ég fór svo strax út til hans og sagði honum að hjálp væri á leiðinni en ég sá á augunum að þetta var búið“

Vill aldrei heyra þetta hljóð aftur

Hildur er nýflutt á jarðhæð þar sem henni finnst gott að geta farið beint út á veröndina vegna veikinda sinna. Hún var í áfalli en þó brött þegar hún tók á móti blaðamanni. Hún þekkti manninn sem lést ágætlega að eigin sögn. Það var um ellefuleytið á miðvikudagskvöld, þegar Hildur var í tölvunni, að hún heyrir þungt högg fyrir utan. Hún leit út og sá að vinur hennar lá í blóði sínu fyrir utan á veröndinni. „Hann lá með hendurnar frá sér. Ég reyndi að hringja í 112 en ég skalf svo mikið að ég gat það varla. Ég fór svo strax út til hans og sagði honum að hjálp væri á leiðinni en ég sá á augunum að þetta var búið,“ segir Hildur.

Hildur segir að þetta hafi verið einfaldlega skelfileg lífsreynsla. Hún segir að lögreglan hafi staðið sig með prýði en furðar sig þó á því að sér hafi ekki verið boðið upp á áfallahjálp. Hún segir þó að prestur hafi boðað komu sína síðar um daginn. „Þetta er bara hryllingur. Það er enn þá blóð fyrir utan,“ segir Hildur. Hún segist vilja skipta um hellurnar og láta grasleggja fyrir utan íbúðina sína þar sem hún búist allt eins við því að þetta muni endurtaka sig. „Ég vil aldrei heyra þetta hljóð aftur,“ segir Hildur.

Sjálfsvígin þögguð niður

Júlíus bendir á að ríflega þrítug kona hafi hent sér úr blokkinni á nákvæmlega sama stað árið 2011. Hann kom að henni og segir það hneyksli hvernig það mál var meðhöndlað. „Hún henti sér niður út um glugga á 8. hæð. Hún var lengi í dauðateygjum en vettvangurinn var opinn alltof lengi. Líkið lá svo fyrir allra manna sjónum í um 20 mínútur. Ég gekk í kringum hana margoft,“ segir Júlíus. Þess má geta að þetta var fyrir utan þáverandi matsal blokkanna.

Júlíus leggur áherslu á að sjálfsvígin séu orðin of mörg í Hátúni og eitthvað þurfi að gera. Hann segir ekki lengur hægt að þagga þessi mál niður. „Ábyrgð stjórnvalda á þessu er mikil. Sjálfsmorðum hér á eftir að fjölga verði stjórnin ekki dregin til ábyrgðar. Við erum manneskjur fyrst og fremst. Mér hefur verið sagt að tala ekki við fjölmiðla en það er nauðsynlegt að stöðva þöggunina. Ég gæti misst húsnæðið fyrir að tala en hvað gerir maður ekki fyrir vini sína?“ segir Júlíus. Hann segir að húsvörður hafi sagt sér í trúnaði að sjálfsvíg sem eigi sér stað inni í íbúðum séu margfalt fleiri.

„Ég vil aldrei heyra þetta hljóð aftur“

Bæði Júlíus og Hildur segja að geðheilbrigðismál á Íslandi hafi verið í lamasessi alltof lengi. Þau segjast fullviss um að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir mörg þessara sjálfsvíga ef fólk gæti fengið almennilega heilbrigðisþjónustu. Þess má geta að hvorugt þeirra er öryrki vegna geðrænna sjúkdóma.

„Jónsdældin“

Júlíus vakti athygli á málinu á Facebook-síðunni Aðgerðarhópur háttvirtra öryrkja og aldraðra. Þar komu margir fram og sögðu álíka sögu af sjálfsvígshrinunni í blokkunum. Einn íbúi sagðist ekki geta sofið yfir þessu.

Ein kona sagðist hafa búið í blokkunum rétt fyrir aldamót. Hún sagði þá orðna allt of marga sem hafa kastað sér úr blokkunum. „Mér varð illa brugðið þegar maður sem bjó þarna bauð mér í sýnisferð í kringum blokkirnar þrjár og á leiðinni benti hann reglulega á staði á jörðinni og sagði: „þarna er Jónsdældin“ og „þarna er Gunnudældin“ og svo framvegis. Hann sagði mér að yfirleitt væri reynt að fylla upp í dældirnar en stundum hefði það ekki verið gert nægilega vel. Þetta voru tugir dælda og nafna og eftir hálfan hring í kringum blokkirnar treysti ég mér ekki meir, titraði, skalf og grét,“ skrifaði konan.

„Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á þessum sjálfsvígum,“ segir Leo J. W. Ingason.
Missti son sinn „Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á þessum sjálfsvígum,“ segir Leo J. W. Ingason.
Mynd: Facebook
Gunnar Leó Leosson var afar vel menntaður og hafði ekki verið lengi öryrki þegar hann lést.
Framdi sjálfsvíg árið 2007 Gunnar Leó Leosson var afar vel menntaður og hafði ekki verið lengi öryrki þegar hann lést.

Nýfluttur í blokkina

Leo J. W. Ingason, sagnfræðingur og upplýsingafræðingur, er einn þeirra fjölmörgu sem tjáðu sig á Facebook-þræðinum. Hann missti son sinn, Gunnar Leó, árið 2007 en hann framdi sjálfsvíg með því að kasta sér af þaki einna blokkanna. Hann hafði flutt í blokkina þann sama dag.

„Hann bjó þarna á sjöttu hæðinni, þetta var reyndar daginn sem hann flutti þangað. Hann var búinn að vera öryrki en svo ákvað hann að hann vildi búa sjálfstætt. Hann var nú ekki nema bara daginn þar til hann stökk af þakinu. Skugginn af svona sjálfsvígum eltir nánustu aðstandendur alla tíð. Þetta snertir marga aðra en þá sem sem svipta sig lífi,“ segir Leo í samtali við DV.

Leo segir að Gunnar hafi verið afar vel menntaður og hafi gegnt ýmsum ábyrgðarhlutverkum. Hann hafði lokið meistaragráðu í þýðingarfræðum og var með tvöfalda gráðu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. „Hann var funkerandi lengst af og ekki öryrki lengi fram að dánardegi,“ segir Leo.

Stjórnmálamenn mæta á hátíðarstund

Leo tekur undir með Júlíusi og segir sjálfsvígshrinuna endurspegla stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi. „Það eru svo fáir staðir til að leita til, þá til lækna eða sérfræðinga. Þá var ekki komið upp eins öflugt starf eins og Pieta, sjálfsvígsforvarnarsamtökin, og Ný dögun, samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Þau hafa verið að vinna gott starf en það þarf meira til. Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á þessum sjálfsvígum. Þetta er beinrekjanlegt til ábyrgðarleysis hjá stjórnvöldum. Þetta er hálfgert siðleysi því svo koma þeir kannski á hátíðarstund, eins og í þessari Pieta-göngu um daginn. Þá mæta þeir sjálfir sem helst vilja gera minna en ekki neitt fyrir þessa hópa,“ segir Leo.

Lítið breyst frá 2008

Mannlíf fjallaði um dauðsföll í Hátúni árið 2008 og verður ekki betur séð en lítið hafi breyst síðan þá. Tímaritið greindi frá því að á árunum 1997 til 2008 hefðu níu manns svipt sig lífi í blokkunum. Nokkrir þeirra höfðu hent sér af svölunum. Þá, fyrir ríflega níu árum, var greint frá því að unnið væri að því að kortleggja betur þarfir og veikindi fólks til að fækka mætti sjálfsvígum í blokkunum.

Þá ræddi Mannlíf við Pálínu Esther Guðjónsdóttur, íbúa í blokkinni, og sagðist hún ekki geta beðið eftir því að komast þaðan í burtu. „Ég get ekki séð neitt jákvætt við að búa hérna. Hér er of mikið af geðfötluðu fólki og leiðinlegt að þurfa að horfa upp á það. Maður er einmana í þessu húsi,“ sagði Pálína árið 2008.


„Hætt við því að fólk sjái svartnættið eitt“

Formaður ÖBÍ segir sorgaratburði sem þessa varpa ljósi á stærra vandamál í þjóðfélaginu, stöðu og aðbúnað öryrkja á Íslandi
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

„Ég harma þennan hræðilega sorglega atburð og þó ég taki fram að ég þekki ekki til þessa máls sérstaklega þá varpar það engu að síður ljósi á stærra vandamál í þjóðfélaginu,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, aðspurð um málið.

„Við heyrum það í hópi örorkulífeyrisþega að það eru fleiri sem svipta sig lífi og það eru fleiri sem íhuga að enda líf sitt. Við höfum lengi talað fyrir því að það þurfi að bæta heilbrigðiskerfið og það þarf að bæta sálfræðiþjónustu. Hún þarf að vera hluti af heilbrigðiskerfinu og þarf að vera gjaldfrjáls.“

Ellen segir marga örorkulífeyrisþega glíma við sára fátækt og bendir á að vísbendingar séu um að fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára hrökkvi skammt. „Þegar örorkulífeyrisþegar sem að stærstum hluta glíma við við geðraskanir horfa fram á þetta, að lífskjör þeirra muni ekki batna á næstu árum, þá er hætt við því að fólk sjái svartnættið eitt.“

Ekki verði séð að verið sé að bæta raunfjármunum inn í heilbrigðis- og almannatryggingakerfið.

„Það þarf að bæta verulegum fjármunum þar inn og tryggja það að fólk sjái fram á það að geta framfleytt sér. Þessir þættir hafa allir áhrif á líðan fólks og sérstaklega líðan fólks með geðrænan vanda. Ég velti því oft fyrir mér, hafa stjórnvöld hugsað hvers virði mannslífið er? Því þarna eru stjórnvöld ekki að hlúa að fólki sem þarfnast aðhlynningar og eru ekki að byggja upp til framtíðar.“

DV óskaði eftir viðtali við Þorstein Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, vegna málsins en fékk þær upplýsingar að hann væri í fríi og því ekki til viðtals.

mikael@dv.is


Harmleikir í Hátúni

Bágbornar aðstæður, félagsleg einangrun og kuldalegt hlutskipti
Öryrkjablokkirnar í Hátúni voru kallaðar endastöð öryrkja í Mannlífi í mars 2008.
Öryrkjablokkirnar í Hátúni voru kallaðar endastöð öryrkja í Mannlífi í mars 2008.

Í gegnum tíðina hefur húsnæði öryrkja í Hátúni 10 komist í fréttirnar í nokkur skipti vegna harmleikja sem vakið hafa hörð viðbrögð og umræðu um aðbúnað öryrkja hér á landi.

Í maí 2007 hlaut sextugur öryrki alvarleg annars og þriðja stigs brunasár á 20% líkamans eftir að hann fékk yfir sig allt að 80° heitt vatn í sturtu. Maðurinn lést af sárum sínum í júní. Slysið var rakið til blöndunartækja í íbúðinni sem ekki voru hitastýrð. Málið vakti hörð viðbrögð en eftir slysið var ráðist í að ljúka endurnýjun tækjabúnaðar í íbúðunum.

Í desember 2007 vakti önnur lítil frétt úr öryrkjablokkinni í Hátúni mikinn óhug á aðventunni þegar einstæð kona fannst látin í íbúð sinni. Staðfesti lögreglan að talið væri að konan hefði verið látin í rúma viku í íbúðinni án þess að hennar hafi verið vitjað. Þáverandi formaður ÖBÍ, Sigursteinn Másson, harmaði atburðinn og gerði þá kröfu um að farið væri yfir hvað hefði brugðist.

Sams konar atvik hafði átt sér stað tveimur árum áður, í desember 2005, þar sem íbúi hafði verið látinn í íbúð sinni um nokkra hríð.

Tímaritið Mannlíf fjallaði ítarlega um bágbornar aðstæður og félagslega einangrun öryrkja í Hátúni árið 2008. Var þar vísað í tölur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að 31 dauðsfall hefði orðið í Hátúni 10, 10a og 10b frá því í byrjun árs 1997. Þar af höfðu sjö einstaklingar legið látnir í íbúð sinni í meira en einn dag.

Árið 2007 gerði Reykjavíkurborg svarta skýrslu um málefni íbúa í Hátúni. Skýrslan var stimpluð trúnaðarmál en Mannlíf fjallaði um innihald hennar. Í skýrslunni kom fram að þjónustustig húsanna væri langt frá því að vera ásættanlegt. Hátúnið var sagt endastöð margra. Íbúar sögðu þá að ástandið væri þrúgandi og það sagt geta af sér veikt samfélag.


Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.