Torfi Geirmundsson er látinn: „Hann var einstakur maður“

Torfi Geirmundsson rakari er látinn, 67 ára að aldri. Torfi lést aðfaranótt laugardags. Mikael Torfason, skáld og sonur Torfa, greinir frá andláti Torfa í hjartnæmum pistli á Facebook. Torfi rak Hárhornið við Hlemm um árabil og átti tryggan kúnnahóp sem óx á hverju ári. Þar gátu viðskiptavinir flett í tímaritum og ljóðabókum, og verðið var alltaf það besta í bænum og hjá sumum ekki neitt ef því var að skipta. Torfi var fróður um margt og í Hárhorninu áttu sér oft stað fjörugar og hressandi umræður. Torfi var einstakur maður líkt og Mikael segir á Facebook-síðu sinni og verður hans sárt saknað af fjölskyldu, vinum og viðskiptavinum.

Mikael greinir frá erfiðri baráttu Torfa en útförin fer fram á fimmtudaginn, 18. maí, klukkan 13 í Árbæjarkirkju. Mikael segir á Facebook:

„Við höfum átt svo erfiðar vikur við pabbi og systkini mín síðan pabbi innritaðist á Landspítalann fyrir fimm vikum. Tíu dögum eyddum við í Gautaborg á biðilsbuxum eftir nýrri lifur en þegar þær dyr lokuðust náðum við að koma pabba hingað heim aftur. Í nótt tók hann svo sitt síðasta andartak og við kvöddum þennan ótrúlega merka mann.

Pabbi var alltaf stór í sniðum og lifði síðustu ár eins og kóngur á Hárhorninu við Hlemm. Rakari fram á síðasta dag og hann gaf og lánaði klippingar og neitaði að hækka verðið þótt það væri lægra en nokkurs staðar.

Þessi mynd hér var tekinn fyrir tveimur árum. Pabbi var einn af stofnendum KSÁ, Knattspyrnufélags Seláss og Árbæjar, forvera Fylkis. Í þessum mánuði eru einmitt liðin fimmtíu ár frá því félagið var stofnað. Það er því fullkomlega við hæfi að kveðja pabba í Árbænum og á eftir athöfninni bjóðum við fjölskyldan til erfidrykkju í safnaðarheimili kirkjunnar.
Mikael segir: Þessi mynd hér var tekinn fyrir tveimur árum. Pabbi var einn af stofnendum KSÁ, Knattspyrnufélags Seláss og Árbæjar, forvera Fylkis. Í þessum mánuði eru einmitt liðin fimmtíu ár frá því félagið var stofnað. Það er því fullkomlega við hæfi að kveðja pabba í Árbænum og á eftir athöfninni bjóðum við fjölskyldan til erfidrykkju í safnaðarheimili kirkjunnar.

Hann var einstakur maður og einu sinni kom ég og ætlaði að fá lánaðan bílinn hjá honum til að útrétta. Ég vann rétt hjá rakarastofunni en það kom á pabba við þessa beiðni. Hann hafði nefnilega lánað frönskum ferðalang bílinn yfir helgina án þess að vita frekari deili á honum önnur en þau að sá franski sagðist eiga von á unnustu til landsins. Pabba fannst fáránlegt annað en að hann tæki bílinn til að sýna sinni heittelskuðu Ísland og sagði honum að skila honum bara einhvern tíma í næstu viku.

Ég kann ótal svona sögur af örlæti pabba og vil benda þeim sem vilja minnast hans á að kaupa álfinn frá SÁÁ. Og helst fleiri en einn. Tveir af hverjum tíu íslenskum karlmönnum enda á Vogi einhvern tímann á lífsleiðinni. Alkóhólismi er þjóðarsjúkdómur okkar Íslendinga.

Útför pabba fer fram núna á fimmtudaginn, 18. maí, kl. 13 í Árbæjarkirkju. Ég vil biðja vini okkar og ættingja að koma og minnast pabba með okkur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.