Hispurslaus Alec Baldwin

Hefur skrifað hispurslausa endurminningabók.
Alec Baldwin Hefur skrifað hispurslausa endurminningabók.

Leikarinn Alec Baldwin hefur sent frá sér endurminningabók sem þykir bæði hispurslaus og skemmtileg. Leikarinn þykir nokkur gallagripur og bókin er talin endurspegla það.

Leikarinn segir meðal annars frá kókaínneyslu sinni sem lauk árið 1985 eftir að hann tók skammt og fannst í kjölfarið eins og hjarta sitt væri að springja. Hann ræðir um hjónaband sitt og leikkonunnar Kim Basinger og segir hana hafa verið afar sjálfhverfa manneskju en hún hafi þó átt til að vera skemmtileg. Þegar þau skildu háðu þau harða forræðisdeilu um dóttur sína, Ireland. Á þeim tíma skildi Baldwin eftir skilaboð í símsvara til dóttur sinnar, sem var á táningsaldri, þar sem hann kallaði hana dónalega og hugsunarlausa giltu. Í bókinni segir Baldwin að þarna hafi hann fært Kim og lögfræðingum hennar vopn í hendur. Orð hans hefðu einnig haft afar slæm áhrif á samband hans við dótturina.

Baldwin minnist á Harrison Ford og segir að þrátt fyrir gríðarlega farsælan feril, auð og aðdáun umheimsins hafi leikarinn ekki enn hlotið Óskarsverðlaun og það hljóti að plaga hann. Hann segir að Ford sé í eigin persónu lágvaxinn og beinaber og rödd hans hljómi eins og hann sé að tala á bak við luktar dyr.

Hann ræðir um leikstjórann Oliver Stone og segir hann vera leikstjóra sem vinni í stíl Machiavellis og myndi jafnvel hrinda móður sinni niður tröppur ef það yrði til þess að auðvelda fjármögnun á kvikmynd.

Baldwin viðurkennir í bókinni að hann hafi orðið skotinn í nokkrum mótleikkonum sínum, þar á meðal Tinu Fey og Meryl Streep.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.