Afhjúpuðu kappakstursbíl

Mynd: Kristinn Ingvarsson 6691371

Kappaksturs- og hönnunarliðið Team Spark, sem skipað er nemendum við Háskóla Íslands, afhjúpaði í dag rafknúna kappakstursbílinn TS17 (Laka) að viðstöddu fjölmenni á Háskólatorgi. Liðið tekur þátt í kappaksturs- og hönnunarkeppnum stúdenta bæði á Ítalíu og í Austurríki í sumar.

Í tilkynningu kemur fram að Team Spark hafi hannað og smíðað kappakstursbílinn í vetur. Hann ber ekki aðeins nafn liðsins og ársins, þ.e. TS17, heldur einnig íslenskt nafn en bíll þessa árs kenndur við eldstöðina Laka.

Liðið er skipað verkfræðinemum við Háskóla Íslands og nú í fyrsta sinn nemanda í viðskiptafræði sem kemur að vinnu við viðskiptaáætlun vegna bílsins. Alls hafa 45 nemendur komið að hönnun bílsins frá því í fyrrahaust en þeir fá hluta vinnunnar metinn í námi sínu við Háskóla Íslands.

Lið frá Háskóla Íslands hefur tekið þátt í hönnunar- og kappakstursmótum háskólanema allt frá árinu 2011 og oftast farið til Bretlands þar sem keppnin Formula Student fer fram á hinni fornfrægu Silverstone-braut. Í fyrra tók Team Spark í fyrsta sinn einnig þátt í Formula SAE Italy í Varano de' Melegari nærri Parma og náði þar þeim merka áfanga að uppfylla allar þær umfangsmiklu kröfur sem gerðar eru til rafknúinna kappakstursbíla svo að heimilt sé að aka þeim á kappakstursbrautinni.

Förinni er aftur heitið til Ítalíu í ár en í stað keppninnar á Silverstone halda Team Spark-liðar til Austurríkis þar sem liðið tekur þátt í Formula Student Austria sem fram fer á Formúlu 1-kappakstursbrautinni Red Bull Ring. Þar etur Team Spark kappi við um 50 lið frá háskólum beggja vegna Atlantsála bæði innan og utan brautar.

Keppt er í tveimur flokkum í Formula Student. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru hönnun og áætlanir kynntar en ekki er keppt í kappakstri. Team Spark hyggst keppa í flokki 1 líkt og undanfarin ár.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.