Unglingar látnir vinna sleitulaust við að setja saman iPhone-síma

Um þrjú þúsund nemendur í skóla einum í Kína segja farir sínar ekki sléttar af samskiptum við skólayfirvöld en nemendurnir voru látnir vinna, stundum í ellefu klukkustundir á dag, við að setja saman iPhone X-snjallsíma frá Apple.

Sex þessara nemenda stigu fram í viðtali við Financial Times á dögunum þar sem þeir lýstu þessu. Nemendurnir, sem eru á aldrinum 17 til 19 ára, voru látnir vinna í verksmiðjum Foxconn í borginni Zhengzhou í Kína, en Foxconn hefur áður komist í fréttirnar vegna bágra kjara starfsfólks.

Að sögn nemendanna sögðu skólayfirvöld að vinna þeirra í verksmiðjunni væri hluti af námi þeirra, starfið væri í raun forsenda þess að þeir gætu lokið námi og útskrifast. Þeir hafi verið látnir setja saman myndavélar fyrir iPhone X-símana þó starfið tengdist námi þeirra ekki á nokkurn hátt.

Alls hafa um þrjú þúsund nemendur við Zhengzhou Urban Rail Transit-skólans unnið í verksmiðjum Foxconn síðan í september. Skólayfirvöld vildu ekki tjá sig um málið þegar Financial Times leitaði viðbragða en bæði Apple og Foxconn sögðust ætla að skoða málið. Var það staðfest að unglingar hefðu stundum unnið í rúmar 40 klukkustundir á viku í verksmiðjum Foxconn en að sögn Apple var enginn neyddur til að vinna í verksmiðjunni. Þá hafi nemendurnir fengið greitt fyrir vinnuna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.