Tveir hælisleitendur dæmdir fyrir skjalafals

Hæstiréttur staðfesti síðastliðinn fimmtudag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í tveimur málum sem bæði snúa að skjalafölsun erlendra hælisleitenda. Voru þeir gripnir í Leifsstöð með tveggja daga millibili í mars síðastliðnum en báðir voru þeir á leið til Toronto í Kanada.

Fyrra málið snýr að ríkisborgara í Sri Lanka sem framvísaði þýsku bráðabirgðavegabréfi við vegabréfaskoðun í Leifsstöð þann 9. mars síðastliðinn. Vegabréfið reyndist breytifalsað, það er að segja falsað að hluta og svo límt í vegabréfabók annars þýsks vegabréfs en bæði vegabréfin höfðu verið tilkynnt stolin.

Í skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst maðurinn hafa komið frá Mílanó á Ítalíu með millilendingu í París, en þaðan hefði hann haldið til Íslands. Þá kom fram að hann hefði stöðu flóttamanns á Ítalíu og ætti skilríki hælisleitanda þar, en hann hefði dvalið á Ítalíu í fjóra mánuði. Þá kvaðst hann einnig hafa sótt um hæli í Sviss. Maðurinn hafði viðkomu í nokkrum löndum Evrópu á för sinni til Íslands og hafði hann dvalið á Ítalíu í fjóra mánuði og öðlast þar stöðu flóttamanns áður en hann kom hingað til lands.

Seinna málið snýr að sómalískum ríkisborgara sem þann 11.mars síðastliðinn framvísaði vegabréfi finnsks manns við vegabréfaskoðun í Leifsstöð.

Vaknaði strax sterkur grunur hjá tollayfirvöldum um að væri ekki lögmætur handhafi þess. Við frekari rannsókn á vegabréfinu var staðfest að það tilheyrði öðrum manni, en það hafði hvorki verið tilkynnt stolið né týnt. Í skýrslutöku hjá lögreglu 12. mars síðastliðnn kvaðst maðurinn hafa flogið frá Helsinki til Stokkhólms, þar sem hann hefði dvalið í tvo daga, en þaðan hefði hann flogið til Íslands. Þá kom fram að hann hefði sótt um hæli sem flóttamaður í Finnlandi í maí 2016, en umsókn hans hefði verið hafnað í október síðastliðnum.

Þá kemur fram að maðurinn hafði viðkomu í að minnsta kosti tveimur löndum Evrópu á för sinni til Íslands og hafði hann dvalið í Finnlandi í tæpt ár áður en hann kom hingað til lands.

Báðir hlutu þeir 30 daga fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur og hefur Hæstiréttur nú staðfest úrskurðinn í málum þeirra beggja.

Hvorugur mannanna hefur sótt um hæli sem flóttamaður hér á landi og í báðum dómsúrskurðum kemur fram að viðkomandi hafi ekki gefið sig ekki fram við stjórnvöld við komu sína til landsins og ekki fært gildar ástæður fyrir því að hafa ekki gert það eða fyrir ólöglegri komu sinni hingað til lands. Þá mat dómurinn það svo að hvorugur mannanna væri að koma til landsins beint frá landsvæði þar sem lífi hans, heilsu eða frelsi var ógnað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.