Sígarettustubbar, áfengi og rottueitur í pökkum fyrir fátæk börn undir jólatrjám í Smáralind og Kringlunni

Rottueitur, áfengi og gosflaska full af sígarettustubbum hafa fundist í jólapökkum í Kringlunni og Smáralind. Pakkar þessir eru ætlaðir börnum sem búa við fátækt eða eiga um sárt að binda. Þessir óhugnanlegu hlutir ásamt skítugum dúkkum og ónýtum leikföngum hafa dúkkað upp í jólapökkum í þessum tveimur verslunarmiðstöðum í gegnum árin. Þetta hefur DV staðfest frá Fjölskylduhjálp Íslands og Mæðrastyrksnefnd. Á hverju ári finnast minnst tuttugu pakkar sem innihalda vafasamar gjafir.

Í skilaboðum sem nú er deilt á Facebook er fullyrt að algengt sé að ýmislegt óeðlilegt leynist í jólapökkum fyrir þá sem minna mega sín og eru settir undir þar til gert jólatré í verslunarmiðstöðvum. Í þessum skilaboðum er sagt að í fyrra hafi fimmtungur pakka sem fólk lét undir jólatréð í Smáralind eða Kringlunni endað í ruslinu. Fullyrt er að fólk hafi pakkað inn ónýtum fötum, notuðum ryksugupokum og bleyjum, svo eitthvað sé nefnt. „Ég vil því koma því til almennings að passa hvað er verið að láta undir téð því að eru sorgmædd börn sem fá þessa pakka,“ segir í skilaboðunum.

Í samtali við DV segir Pétur Gísli Finnbjörnsson hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur að þetta sé orðum aukið en þetta gerist þó öðru hvoru. „Það þarf alltaf að fara í gegnum pakkanna því stundum hefur verið vínflaska eða leikfangabyssur eða eitthvað svoleiðis. Þá fannst rottueitur fyrir mörgum árum. Þannig að það þarf að fara í gegnum alla pakka,“ segir Pétur Gísli.

Ásgerður Jóna Flosadóttir hjá Fjölskylduhjálp Íslands segir nauðsynlegt að opna alla pakka.

„Ég kannast ekki við notaðar bleyjur eða ryksugupoka. Allir pakkar eru opnaðir hjá okkur til að fyrirbyggja að börn fái pakka með drasli í. Það gerist ekki. Það kemur fyrir að við fáum gamla bangsa eða skítugar dúkkur. Við höfum fengið kókflöskur með sígarettustubbum,“ segir Ásgerður Jóna. „Við ítrekum það að við opnum alla pakka en bendum foreldrum á að pakka þeim aftur inn, vegna þess að það stendur yfirleitt stelpa eða strákur eða aldur. Það er persónulegra að foreldrar pakki fyrir börnin sín. Þetta eru á þriðja tug pakka sem eru vafasamir. Við gætum ekki hugsað okkur að börn fengju slíka gjöf.“

Þá segir Ásgerður Jóna mikilvægt að koma því áleiðis til fólks sem lætur gott af sér leiða og lætur gjafir undir jólatré í Kringlunni og Smáralind að vanda valið þegar það pakkar inn gjöfum fyrir fjölskyldur sem þurfa á aðstoð að halda. Staðan nú sé slæm og kveðst Ásgerður hafa fengið fyrirspurnir um jólaaðstoð í október og nóvember.

„Ég var dálítið hissa á að fólk byrjaði svona snemma. Okkar tilfinning er, þrátt fyrir góðæri, að vissir hópar eiga mjög erfitt. Við vitum ekki hvað verður núna um jólin, vitum það ekki fyrr en daginn fyrir Þorláksmessu. Við erum að taka þessa viku á móti umsóknum alla þessa viku, frá eitt til þrjú upp í Iðufelli og síðan er verið að skrifa niður í Reykjanesbæ frá 1. desember. Mér finnst eins og róðurinn sé erfiðari í ár. Þá hafa stofnanir haft samband við okkur og spurt hvenær tekið sé á móti skrásetningum. Það virðist vera leitað mikið til þeirra sem ekki eru með úthlutanir. Þá er verið að benda á okkur hvenær má sækja um. Við höfum ekki orðið var við þetta fyrr.“

Pétur Gísli segir í samtali við DV að hann kannist einnig við það vandamál sem lýst hefur verið á samskiptamiðlum.

„Ég ætla ekki að fullyrða að ryksugupoki eða bleyja hafi verið í pökkum en það er alveg dæmi um það að það sé eitthvað svona. Notuð leikföng, til dæmis. Við viljum helst gefa nýtt. Ég man eftir vínflösku en ég er bara að tala um það sem ég man eftir, ég hef verið í þessu í nokkur ár,“ segir Pétur Gísli.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.