Birkir segir mjólkurneytendur vera enn á brjósti: „Eru bragðlaukar þínir mikilvægari en líf dýrs?“

Vegfarendur spurðir út í afstöðu sína í áróðursmyndbandi Vegan Iceland - „Við tökum kálfinn í burtu svo við getum drukkið mjólkina. Er það eðlilegt?“

Ljósmynd/Skjáskot af vef youtube
Ljósmynd/Skjáskot af vef youtube

„Í mjólkuriðnaðinum sæta dýr grimmúðlegri meðferð. Við gerum mjólkurkýr óléttar og tökum svo kálfana þeirra frá þeim. Bara svo við getum drukkið mjólkina, jafnvel þó við þurfum ekki að gera það.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í myndskeiði á vegum Vegan Íceland þar sem nokkrir vegfarendur í miðborg Reykjavíkur eru spurðir um afstöðu sína til neyslu á mjólkurvörum. Gengur spyrjandinn, Birkir Steinn Erlingsson svo langt að varpa fram þeirri fullyrðingu að þeir sem neyti mjólkurvara séu í raun ennþá á brjósti.

Umrætt myndskeið er það þriðja á vegum Vegan Iceland þar sem vegfarendur í miðborginni eru spurðir um álit sitt á þeim málefnum sem Vegan samtökin standa fyrir. Inn á milli spurninga fá áhorfendur að sjá ljósmyndir sem sýna meðferð á dýrum í matvælaframleiðslu.

Á vefsíðu Vegan Ísland kemur fram að kýr rétt eins og konur, mjólki aðeins eftir að þær hafa eignast afkvæmi.

„Þær ganga með kálfinn í níu mánuði og hafa kálfinn á spena í um það bil 4 mánuði. Í búskap er kýrin tæknisædd (handleggur inní endaþarm upp að olnboga og málmpípa í leggöng) og kálfurinn er tekinn af henni eftir aðeins nokkra daga svo að hægt sé að mjólka hana. Kýr sakna kálfanna og kalla á þá í einhvern tíma eftir að þeir eru teknir frá móður sinni. Kálfurinn fær mjólkurduft og mjólk sem er ekki hæf til sölu, til dæmis mjólk af kúm sem eru lasnar eða á lyfjum. Kálfunum er síðan slátrað til manneldis, nema að til standi að gera hann að mjólkurkú“

Í myndskeiðinu,sem finna má neðst í fréttinni, eru viðmælendur spurðir hvað þeim finnist eðlilegt að vera lengi á brjósti og eru svörin misjöfn. Á meðan einn þeirra telur hálft ár vera meira en nóg er annar sem telur þrjú ár vera hæfilega langan tíma.

Því næst eru viðmælendur spurðir hvort þeir séu ennþá á brjósti. Svara þeir allir neitandi og eru þá því næst spurðir hvort þeir neyti mjólkurvara og hvort þeir taki undir þá fullyrðingu að þeir sem neyti mjólkurvara séu ennþá á brjósti frá öðru dýri.

Á einum stað bendir spyrjandinn á það að hvergi annars staðar í náttúrunni þekkist það að drekka mjólk frá öðru dýri. „Þú sérð ekki simpansa vera drekka mjólk frá belju, er það nokkuð?“

Einnig varpar spyrilinn fram þeirri spurningu hvers vegna kýr framleiði mjólk og bendir á það sé fyrir kálfinn. „Við tökum kálfinn í burtu svo við getum drukkið mjólkina. Er það eðlilegt?“

Þegar einn viðmælandanna, hálf bandarísk kona bendir á að á Íslandi sé minna um að dýraafurðir séu hormónaviðbættar en í Bandaríkjunum svarar spyrilinn henni með því að „á Íslandi sé enn komið fram við dýr eins og vöru, rétt eins og í Bandaríkjunum.“ Ljósmyndirnar sem fólk fái að sjá sýni ekki rétta hlið.

„Myndiru segja að bragðskyn þitt sé mikilvægara en líf dýrs?“ spyr hann jafnframt einn viðmælandann. Þá spyr hann aðra viðmælendur hvort að siðferði mannsins eigi að lúta fyrir menningunni í samfélaginu.

„Þrældómur var einu sinni samþykktur af samfélaginu og augljóslega finnst okkur það rangt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.