Einar Ágúst sagðist hafa ætlað að skjóta hund ritstjórans: „Við eigum óuppgerða stóra hluti Mikki“

Tónlistarmaðurinn Einar Ágúst Víðisson fór mikinn á Twitter nú í morgunsárið. Rifjaði hann upp þegar hann ætlaði að skjóta hund Mikaels Torfasonar, rithöfundar og fyrrverandi ritstjóra DV og Fréttablaðsins. Einar Ágúst sagðist eiga óuppgerða hluti við Mikael sem munu að sögn Einars hafa átt sér stað fyrir margt löngu. Einar fjarlægði tístin stuttu eftir birtingu.

„Mikael Torfa að frussa vibba út úr sér í radíóinu. Nú skal mökkað og græða á dauða föður síns. Skítseiði. Við eigum óuppgerða stóra hluti Mikki. ALDREI gleyma því padda,“ sagði Einar Ágúst á Twitter og vísaði til bókar Mikaels, Syndafallið, sem fjallar um föður Mikaels og baráttu hans við alkóhólisma. Torfi, faðir Mikaels, lést í maí aðeins 67 ára að aldri en hinn ljóðelski rakari rak Hárhornið á Hlemmi um árabil. Bók Mikaels hefur fengið afar góðar viðtökur hjá gagnrýnendum.

Stuttu síðar birtir Einar Ágúst aðra færslu:

„Herma eftir Bubba M: Minning - þegar ég stóð fyrir utan heimili M.Torfa í 101 fyrir margt löngu síðan og var að fara að skjóta hundinn hans í gegnum útidyrahurðina og var stoppaður. Andsk.“

Einar Ágúst greinir ekki frá því hvaða umfjöllun það er sem hafi gert það að verkum að hann hafi reiðst rithöfundinum og ritstjóranum fyrrverandi. Mikael var oft umdeildur meðan hann starfaði sem ritstjóri, bæði á DV og Fréttablaðinu. Í bók blaðamannsins Jakobs Bjarnars sem ber heitið Í slagsmálum við þjóðina fjallar Jakob um þessa stormasömu ritstjórnartíð Mikaels. Var bókin hluti af M.A ritgerð Jakobs, en hana má lesa hér. Í ritgerð Jakobs segir orðrétt:

„Við fjölluðum um frægðarpersónur út frá siðareglunum okkar. Trúnaður okkar var fyrst og síðast við lesendur blaðsins, við þá sem tóku upp veskið í Bónus eða í Olís og keyptu blaðið. Og af hverju ætti það að vera eitthvað ósiðlegt að mynda Loga og Svanhildi fyrir framan kirkjuna þegar þau giftu sig en allt í fína að mynda þau inni á baðherbergi í Hús og híbýli?

Á Íslandi hefur það tíðkast að frægðarpersónur ritstýri umfjöllun um sjálft sig. Ef Ragnhildur Steinunn vill helst gleyma því að hún hafi verið fegurðardrottning eiga fjölmiðlarnir að kóa með henni, ef landsliðsfyrirliði játar á sig spilafíkn í erlendum fjölmiðlum eiga íslenskir miðlar að þegja um það, ef Björk ræðst á ljósmyndara á samúðin að vera með henni, ef Kalli Bjarni smyglar inn kókaíni eigum við að sleppa því að nafngreina hann, ef Sveppi vill ekki láta fjalla um líkamsárás á sig eiga fjölmiðlar að hlýða því og svo framvegis?“

Í bók Jakobs er greint frá umfjöllun DV frá árinu 2004. Þar mátti finna umfjöllun á tveimur síðum og sagt að Eurovision-stjarna væri flækt í stærsta fíkniefnamál síðustu ára“. Þar var mynd af Einari og undirfyrirsögnin var: „Einar Ágúst fer á Vog síðar í dag“.

Á öðrum stað segir í ritgerð Jakobs:

„Við fjölluðum um frægt fólk eins og það væri fólk. Við sögðum frá örlögum Einars Ágústs, söngvara og útvarpsmanns, þegar hann flæktist inn í stórt fíkniefnamál. Ég held að hann hafi skilið af hverju. Allavega ef ég á að taka mark á viðtölum við hann eftir að hann varð edrú. En auðvitað eru þetta ömurlegar fréttir. Hræðilegar.“

Fréttin virðist hafa reitt Einar Ágúst til reiði á þessum tíma. Söngvarinn hefur áður tekið umfjöllun nærri sér. Fyrir þremur árum skvetti hann kaffi á Kolbein Tuma Daðason blaðamann á Vísi vegna fréttar um að hann stæði höllum fæti fjárhagslega.

Einar Ágúst kallaði Kolbein einmitt líka pöddu í Facebook-færslu þá: „...svo gat ég ekki setið á mér og fór niður á 365 þar sem paddan mætti með ljósmyndara og ég endaði á að skvetta sjóheitu kaffinu framan í hann.”

Einar Ágúst baðst síðar afsökunar á þessu. Að sögn blaðamannsins var kaffið var volgt og fór á skyrtu Kolbeins sem sagði: „Hann sendi mér fallegt bréf og afsökunarbeiðni sem ég tók til greina og svaraði bara sömuleiðis,“ sagði Kolbeinn Tumi Daðason í samtali við mbl.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.