Segir Bjarna hafa tryllst á ritstjórn 365: Starfsfólki brugðið og segja öskrin hafa borist um húsið

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og starfandi forsætisráðherra, er sagður hafa tryllst á ritstjórn 365-miðla á laugardaginn og öskraði á Sunnu Sæmundsdóttur, fréttamann Stöðvar 2. Nokkur vitni voru að atvikinu sem átti sér stað á fréttagólfinu. Sunna sjálf staðfestir í samtali við DV málsatvik. Hún vildi þó ekki tjá sig um málið utan þess að staðfesta að það hafi gerst.

Eitt vitni að atvikinu sagðist ekki hafa séð jafn reiðan mann lengi og var brugðið. Annað vitni fannst hegðunin gífurlega ófagleg af starfandi forsætisráðherra, sagði viðkomandi það áhyggjuefni í hve miklu ójafnvægi forsætisráðherra virtist vera á þessari stundu. Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarkona Bjarna, þurfti að sögn vitna að draga forsætisráðherra afsíðis til að róa hann niður áður. Svanhildur Hólm aðstoðarmaður Bjarna gerir lítið úr atvikinu í samtali við DV og segir Bjarna aðeins hafa gert athugasemdir við frétt sem flutt var í hádeginu.

Trylltist vegna staðreyndavillu

Staðfestir frásögnina
Sunna Sæmundsdóttir Staðfestir frásögnina

Forsaga málsins er að á laugardaginn mætti Bjarni í Víglínuna hjá Heimi Má Péturssyni en á meðan Heimir ræddi við Katrínu Jakobsdóttur beið Bjarni frammi. Þá rakst hann á Sunnu. Eftir nokkur orðaskipti segja vitni að Bjarni hafi gjörsamlega misst stjórn á skapi sínu og hróp hans borist um húsið. Einn heimildarmanna DV vildi þó meina að ekki hafi verið um hróp að ræða heldur tryllt öskur, hafi þeim sem vitni urðu að þessu atviki brugðið mjög.

Í hádegisfréttum fyrr um þann dag kom fram staðreyndavilla í frétt Sunnu sem var að hluta byggð á frétt úr Fréttablaðinu þann sama dag. Sú frétt fjallaði um hvort Bjarni Benediktsson hafi mögulega gerst sekur um innherjaviðskipti þegar hann seldi eignir sínar í Sjóði 9 fyrir 50 milljónir króna nokkrum dögum fyrir bankahrunið.

Staðreyndavillan í þeirri frétt var eftirfarandi setning:

„Jafnframt að Bjarni hafi átt sæti í efnahags- og skattanefnd Alþingis þar sem erfið staða Glitnis var rædd.“

Þessi staðreyndavilla var leiðrétt á Vísi en hið rétta er að staða Glitnis var ekki rædd í þeirri nefnd. Rétt er að taka fram að í frétt Fréttablaðsins var vitnað í Stundina en í þeirri umfjöllun var hvergi fullyrt að staða Glitnis hafi verið ræddi í efnahags- og skattanefnd. Fleiri fjölmiðlar fóru rangt með en í leiðréttingu Vísis sagði:

„Í upphaflegri útgáfu hennar og í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði að erfið staða Glitnis hafi verið rædd á fundum efnahags- og skattanefndar þingsins sem Bjarni sat. Var þar vísað í frétt Stundarinnar. Ekki er rétt að fundað hafi verið um erfiða stöðu Glitnis í nefndinni.“

Vitni segja að Svanhildur hafi farið með Bjarna afsíðis og róað hann niður
Svanhildur róaði Bjarna Vitni segja að Svanhildur hafi farið með Bjarna afsíðis og róað hann niður
Mynd: kristinnm@birtingur.is kristinnm@birtingur.is

Bjarni fjallaði sama dag um fréttina og sagði á Facebook:

„Ég virði það við visir.is að leiðrétta fréttina.“

Bjarni hafði áður birt löng skrif á Facebook þar sem hann skammaðist yfir frammistöðu hinna ýmsu fjölmiðla sem höfðu fjallað um frétt Stundarinnar. Sú frétt vakti mikla athygli á föstudag sem og fleiri fréttir tengdar fjölskyldu forsætisráðherra.

Lýsti óþoli á blaðamenn

Ekki náðist í Bjarna Benediktsson en Svanhildur Hólm Valsdóttir aðstoðarmaður Bjarna segir í samtali við DV:

„Hann gerði alvarlegar athugasemdir frétt sem var flutt í hádeginu, við blaðamanninn sem hafði þá nýbirt þessa frétt sem reyndist ekki hafa neinar haldbærar heimildir fyrir fullyrðingum. Sú frétt var leiðrétt með leiðréttingu inni í fréttinni síðar um daginn.“

Líkt og fyrr segir rakst Bjarni á Sunnu á gangi ritstjórnar 365 meðan hann beið eftir því að fara í Víglínuna. Að sögn vitna hóf hann mál sitt á því að spyrja hana hvers vegna hún hafi sagt fyrrnefnda staðreyndavillu í útvarpsfréttum og sagt þjóðinni ósatt. Sunna kannaðist ekki í fyrstu við villuna en þegar hún áttaði sig á að þeim hafði orðið á, hefði hún undir eins beðist afsökunar og lofað að leiðrétta fréttina við fyrsta tækifæri. Við það var staðið.

Þá hafi Bjarni hins vegar æst sig upp úr öllu valdi. Vitni segja að hann hafa lýst óþoli sínu á blaðamannastéttinni og hann hafi öskrað og baðað út höndum. Eftir stuttan reiðilestur hafi Svanhildur Hólm tekið hann afsíðis til að róa hann niður áður en komið var að honum í Víglínunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.