Stones-aðdáandi ábyrgur fyrir dularfullu bollunum

Tengist ekki sölu fíkniefna - Síðhærður karlmaður í svörtum Stones-jakka hefur sést á vettvangi

Þessi mynd var tekin um síðustu helgi. Ofan á umferðamerkinu má greina plastílát sem litað hefur verið í neon-grænum lit.
Merkjasending Þessi mynd var tekin um síðustu helgi. Ofan á umferðamerkinu má greina plastílát sem litað hefur verið í neon-grænum lit.

Dularfullar merkjasendingar við Bústaðaveg hafa vakið mikla athygli í vikunni. Um er að ræða ýmiss konar ílát, lituð í margs konar neon-litum, sem sett hafa verið ofan á umferðarmerki á gatnamótum Grensásvegar og Bústaðavegar. Tilgangur gjörningsins er óþekktur en íbúar hafa orðið varir við ílátin í um þrjú ár og hafa kviknað upp margs konar kenningar um tilgang þeirra.

Fjölmargar kenningar í gangi

Eins og kom fram í frétt DV fyrr í vikunni um málið þá er lífseigasta kenningin sú að um merkjasendingar vegna fíkniefnaviðskipta væri að ræða.

Rætt á fundi í Réttarholtsskóla

Margir íbúar hafa sett sig í sambandi við lögreglu vegna þess og meðal annars hefur málið verið rætt á fundi foreldrafélags Réttarholtsskóla. Einnig hefur því verið haldið fram að um metnaðarfullt framhjáhald sé að ræða, að einhverfur einstaklingur í hverfinu standi fyrir þessu og í vikunni fékk DV ábendingu um að vændiskona kæmi málunum fyrir. Önnur ábending, öllu áreiðanlegri, barst um að síðhærður maður, í jakka merktum Rolling Stones og appelsínugulum skóm bæri ábyrgðina.

Maðurinn síðhærði sem hengir upp bollana er að sögn lögreglu iðulega klæddur appelsínugulum skóm og svörtum Rolling Stones-leðurjakka.
Keith Richards Maðurinn síðhærði sem hengir upp bollana er að sögn lögreglu iðulega klæddur appelsínugulum skóm og svörtum Rolling Stones-leðurjakka.
Mynd: 2013 Getty Images

Síðhærður maður í Rolling Stones-jakka ábyrgur

„Já, við höfum fengið fjölmargar ábendingar vegna þessa máls og höfum heyrt margar kenningar. Við höfum hins vegar séð til einstaklingsins sem stendur fyrir þessu og höfum ekki talið ástæðu til þess að veita honum tiltal. Hann býr þarna skammt frá og það stafar engin ógn af honum. Það er engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að um merkjasendingar vegna sölu fíkniefna sé að ræða,“ segir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni við Grensásveg.

„Hann setur ílátin yfirleitt upp um hábjartan dag. Við höfum fjarlægt þau reglulega en þau birtast alltaf aftur,“ segir Gunnar. Aðspurður hvort ofangreind lýsing um síðhærðan mann eigi við þennan einstakling þá staðfestir Gunnar það. „Við höfum séð þessi ílát skjóta upp kollinum víðar, til dæmis hefur verið bolli undanfarið við gatnamót Snorrabrautar og Hringbrautar. Við gefum okkur það að sami aðili standi fyrir þessu,“ segir Gunnar að lokum. Ráðgátan um dularfullu bollana virðist því vera leyst.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.