Norðurál hagnast um 10,7 milljarða

Hagnaðurinn álversins á Grundartanga þrefaldaðist milli ára - Greiðir lægsta orkuverðið

Alls störfuðu 549 manns hjá álveri Norðuráls í fyrra.
Grundartangi Alls störfuðu 549 manns hjá álveri Norðuráls í fyrra.
Mynd: Skessuhorn

Álver Norðuráls á Grundartanga var rekið með 82,7 milljóna dollara, jafnvirði 10,7 milljarða króna, hagnaði á síðasta ári. Hagnaðurinn rúmlega þrefaldaðist milli ára en árið 2013 nam hann 3,2 milljörðum króna.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Norðuráls Grundartanga ehf. námu tekjur álversins 565 milljónum Bandaríkjadala, um 73 milljörðum króna, og jukust þær um 31% milli ára. Rekstrarkostnaður nam 430 milljónum dala, 55 milljörðum króna, og jókst um 113 milljónir dala.

Eignir álversins voru í árslok 2014 metnar á 706 milljónir dala, 91 milljarð króna, en skuldirnar námu 315 milljónum dala.

Móðurfélag álversins, Norðurál ehf., var aftur á móti rekið með 8,5 milljóna dala hagnaði í fyrra, jafnvirði 1,1 milljarðs króna. Stjórn álversins á Grundartanga greiddi 40 milljónir dala, 5,2 milljarða króna, í arð til móðurfélagsins í fyrra.

Greiðir lægsta raforkuverðið

Norðurál, sem er í eigu kanadíska álfyrirtækisins Century Alumunium, greiðir lægsta raforkuverðið af álverunum þremur sem eru starfandi á Íslandi í dag og eru með orkusamning við Landsvirkjun. Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði greiðir aðeins lítillega hærra verð en Norðurál en hins vegar þarf álverið í Straumsvík, sem er í eigu Rio Tinto Alcan, að greiða langsamlega hæsta raforkuverðið, eða um 35 Bandaríkjadalir á megawattstund.

Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og ráðgjafi í orkumálum, upplýsti um þetta á Orkubloggi sínu í lok júlímánaðar en hann benti á að mjög lágt raforkuverð til Norðuráls og Fjarðaáls veldur því að meðalverð raforku til álvera á Íslandi er með því allra lægsta í heiminum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.