Lögreglustjórinn vill ekki dróna á Ljósanótt

„Bent hefur verið á að umrædd flygildi kunni að bila og nefnd hafa verið dæmi þess og einnig að stjórnendur á jörðu niðri hafi tapað stjórn slíkra tækja og þau flogið út í buskann“

Ólafur Helgi Kjartansson beinir þeim tilmælum til „flugmanna“ að geyma flygildin heima á Ljósanótt.
Lögreglustjórinn Ólafur Helgi Kjartansson beinir þeim tilmælum til „flugmanna“ að geyma flygildin heima á Ljósanótt.

Það þykir vinsælt í dag að fljúga svokölluðum „drónum“ yfir fjölmenn mannamót út um allan heim en með þessum flygildum ná ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn sjónarhornum sem áður var ekki hægt að ná nema með kranabíl.

Gestir á Menningarnótt í Reykjavík tóku til að mynda eftir nokkrum slíkum „drónum“ á flugi yfir mannfjöldanum en hvorki forsvarsmenn eða viðbragðsaðilar ræddu sérstaklega notkun á slíkum tækjum fyrir hátíðina eða tóku afstöðu til þeirra. Mikið var þó rætt um þessi flygildi að Menningarnótt lokinni og töldu einhverjir að mikil hætta gæti skapast ef flugmenn flygildanna misstu stjórn á þeim yfir mannfjölda með ófyrirséðum afleiðingum.

Sjá einnig: Setning Ljósanætur í dag, bjartasta fjölskylduhátíð landsins um helgina

Þessi umræða hefur náð inn á borð til lögreglustjórans á Suðurnesjum, Ólafs Helga Kjartanssonar, en það eru eindregin tilmæli hans „að flug ómannaðra loftfara eða flygilda hvers konar, sem ganga undir nafninu drónar verði ekki yfir byggð eða þar sem mannfjöldi er samankominn á Ljósanæturhátíð í Reykjanesbæ.“

Ólafur Helgi segir að embættinu hafi borist ósk frá Öryggisnefnd Ljósanætur auk þess sem honum hafi borist alvarlegar athugasemdir frá manni sem „vel þekkir til notkunar ómannaðra flygilda.“

„Bent hefur verið á að umrædd flygildi kunni að bila og nefnd hafa verið dæmi þess og einnig að stjórnendur á jörðu niðri hafi tapað stjórn slíkra tækja og þau flogið út í buskann. Ákveðnar reglur gilda um loftför samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998. Í þeim er ekki að finna sérstök ákvæði um þá nýbreytni sem felst í þeirri tækni sem ómönnuð loftför byggja á eða flug þeirra almennt,“ segir Ólafur Helgi og bætir við að mikilvægt sé að gæta öryggis almennra borgara.

„Með vísan til framkominnar óskar og þess að mikilvægt er að gæta öryggis almennra borgara og einnig með vísan til lögreglulaga nr. 90/1996, 1. greinar þeirra sem fjallar um hlutverk lögreglu, einkum 2. töluliðar, a. liðar um gæzlu almannaöryggis og b. liðar, en þar er fjallað um öryggi borgaranna og að lögregla skuli koma í veg fyrir að því sé raskað, eru það eindregin tilmæli lögreglustjóra að flug ómannaðra loftfara eða flygilda hvers konar, sem ganga undir nafninu drónar verði ekki yfir byggð eða þar sem mannfjöldi er samankominn á Ljósanæturhátíð í Reykjanesbæ.“

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.