Vilja að Keflavíkurflugvöllur verði kenndur við Reykjavík: „Hættið að reyna að taka nafnið af okkur“

„Halda mætti að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið á Íslandi sem skipti máli þessa dagana,“ segir formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar

Suðurnesjamenn vilja halda í nafnið.
Barist um flugvöllinn? Suðurnesjamenn vilja halda í nafnið.

„Ekki nóg með að borgin vilji stela nafninu af „Keflavíkurflugvelli“ og skaða almenna markaðssetningu til tugi ára hjá sveitarfélögunum á Suðurnesjum auk fyrirtækja og stofnana. Ofan á þetta bætast hugmyndir þeirra um að flytja flugvöllinn til Hafnarfjarðar. Á að leggja Suðurnesin af,“ spyr Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, í aðsendri grein í Víkurfréttum.

Ástæðan fyrir aðsendu greininni er erindi Svanhildar Konráðsdóttur, sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, á fundi Faxaflóahafna en þar kynnti hún á dögunum aðgerðaráætlun Reykjavíkur sem var unnin út frá gildandi ferðamálastefnu borgarinnar. Í erindinu segir Friðjón að gildandi stefna Reykjavíkurborgar feli það meðal annars í sér að aðalflugvöllur Íslands verði kenndur við Reykjavík.

Segir skilaboðin skýr

„Ég held að ráðandi aðilar í Reykjavíkurborg þurfi að líta í eigin barm og byrja að haga sér eins og „eðlileg höfuðborg.“ Höfuðborgin þarf á sterkri landsbyggð að halda, án landsbyggðarinnar er enginn höfuðborg,“ segir Friðjón.

„Skilaboðin okkar eru alveg skýr. Hættið að reyna að taka nafnið af okkur Suðurnesjamönnum, þetta er og verður áfram Keflavíkurflugvöllur.“

Á að leggja Suðurnesin af?

„Þetta er ekki spurning sem að ég á að svara eða nokkur. Þetta snýst ekki um neitt í þá veruna,“ svarar Svanhildur og segir málið snúast um drög að aðgerðaráætlun ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar.

Ferðamálastefna borgarinnar til ársins 2020 hafi verið samþykkt árið 2011 en þegar útlit var fyrir að ferðamönnum myndi fjölga gríðarlega á næstu árum var ákveðið að endurskoða stefnuna og setti borgin sérstakan stýrihóp á laggirnar sem síðan nýverið skilaði af sér drögum.

„Með ferðamálastefnunni fylgja aðgerðaráætlanir en drögin skiptast í fimm kafla. Eitt af tuttugu forgangsatriðum þeirrar aðgerðaráætlunarinnar að styrkja vörumerkið „Reykjavík“ með sérstakri aðgerðaráætlun sem felur meðal annars í sér að aðalflugvöllur Íslands verði kenndur við Reykjavík og að „hlið“ Reykjavíkur fái ásýnd gestrisni með merkingunum „Reykjavik Loves,“ segir Svanhildur og bendir á að drögin hafi verið send fjölmörgum aðilum til umsagnar. Þessir aðilar séu meðal annars Faxaflóahafnir, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Isavia ræður nafninu

„Þetta er hugmynd sem hefur komið upp áður og er liður í því að styðja við vörumerkið „Reykjavík,“ segir Svanhildur og bætir við að þetta sé ekki ákvörðun Reykjavíkurborgar.

„Nei þessi tillaga er ekki sett fram eins og þetta sé ákvörðun Reykjavíkurborgar. Það er alveg á hreinu að svo er ekki.“

Eftir því sem DV kemst næst er það Isavia sem ræður því hvort nafni flugvallarins verði breytt frá Keflavíkurflugvelli í Reykjavíkurflugvöll en til gamans má geta að flugvöllurinn er í landi Sandgerðisbæjar.

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.