Kæra Eygló Harðar: Hjartnæm samstaða Íslendinga á samfélagsmiðlum

Hundruð Íslendinga bjóða fram aðstoð sína við að taka á móti flóttamönnum – Einhverjir bjóða húsakost á meðan aðrir bjóða föt og uppihald

Íslendingar hvetja ríkisstjórnina til þess að taka við fleiri en fimmtíu flóttamönnum.
Flóttamannastraumur Íslendingar hvetja ríkisstjórnina til þess að taka við fleiri en fimmtíu flóttamönnum.
Mynd: Skjáskot/independent

Yfir tíu þúsund Íslendingar hafa skráð sig í hóp á samfélagsmiðlinum Facebook undir yfirskriftinni: „Kæra Eygló Harðar.“ Hópurinn er fyrir þá Íslendinga sem vilja rétta fram hjálparhönd þegar það kemur að því að taka á móti flóttamönnum.

„Erum við sem þjóð bara sátt við að græða á eymdinni?“ spurði Kristinn á Facebook-síðu sinni og benti á hagnað Landhelgisgæslunnar af verkefnum vegna flóttamannastraumsins.
Kristinn Hrafnsson „Erum við sem þjóð bara sátt við að græða á eymdinni?“ spurði Kristinn á Facebook-síðu sinni og benti á hagnað Landhelgisgæslunnar af verkefnum vegna flóttamannastraumsins.
Mynd: Mynd Gunnar Gunnarsson

Mikil reiði braust út á Íslandi þegar í ljós kom að Íslendingar ætluðu einungis að taka við fimmtíu flóttamönnum og benti til dæmis blaðamaðurinn Kristinn Hrafnsson á það að Landhelgisgæslan hafi hagnast umtalsvert á verkefnum er snúa að flóttamannastraumi yfir Miðjarðarhafið. Hann benti á tveggja milljarða hagnað árin 2010 og 2011 með hreinan rekstrarhagnað upp á 680 milljónir króna.

„Einhvern veginn hefur þessi gróði gleymst þegar rætt er um hetjulegar björgunaraðgerðir gæslumanna í Miðjarðarhafinu. Það ætti að huga að honum þegar menn deila myndum af sjóreknum líkum barna. Það ætti að ræða þessar fjárhæðir í samhengi við þá mannúð sem stjórnvöld opinbera við ákvörðun um sýrlenskan flóttamannakvóta. Eða erum við sem þjóð bara sátt við að græða á eymdinni?“ spyr Kristinn Hrafnsson á Facebook-síðu sinni en færslan vakti töluverða athygli.

„Margfalt betra að búa hjá hommum en í flóttamannabúðum!“

En þótt það standi á íslenskum stjórnvöldum þá er allt annað uppi á teningnum hjá íbúum landsins sem nú flykkjast inn í umræddan hóp á Facebook og bjóða allt frá íbúðum yfir í föt og uppihald.

„Kæra Eygló og allir aðrir ráðamenn. Við hjónin erum að fara að flytja erlendis og erum því að losa okkur við alls kyns dót. Við getum gefið fullt af dóti til heimilis, eins og bolla, glös, diska, ristavél ofl. Jafnvel bækur og fallegar myndir. Og svo munu að sjálfsögðu losna tvö pláss á landinu þar sem við hjónin eru jú að fara af landinu.“

...og Íslendingarnir sem buðu fram hjálp sína koma úr öllum áttum. Hér voru tveir hamingjusamir samkynhneigðir sveitamenn sem buðu fram aðstoð sína og sögðu meðal annars að þótt mörgum kunni að finnast það að þeir ættu alls ekki að eiga börn „...þá hlýtur að vera margfalt betra að búa hjá hommum út á landi en í flóttamannabúðum!“

Þúsundir flóttamanna drukkna í Miðjarðarhafinu vegna ástandsins í dag.
Drukkna á hafi úti Þúsundir flóttamanna drukkna í Miðjarðarhafinu vegna ástandsins í dag.

“Kæra Eygló.
Ég og maðurinn minn erum hamingjusamir sveitamenn sem eigum ástríkt og gott reglusamt heimili fullt af öllum veraldlegum gæðum sem við glaðir myndum vilja gefa. Við búum alleinir í risastóru húsi í friðsælu íslensku sjávarþorpi þar sem ekkert í umhverfinu né samfélaginu minnir á hinn stríðshjáða heim. Við höfum næga innkomu og bjóðum allar kjöraðstæður fyrir börn til að eiga góða og áhyggjulausa æsku. Annar okkar er heimavinnandi og við eigum stóra fjölskyldu og bakland á staðnum, það þarf jú heilt þorp til að ala upp barn. Reglugerðir á Íslandi heimila ættleiðingar á hinsegin heimili en á sama tíma hefur íslenska ríkið enga samninga við lönd sem leyfa ættlæðingar til hinsegin foreldra. Við munum því líklega seint fá tækifæri til að ala upp okkar eigin börn. Við mundum glaðir vilja bjóða flóttabörnum varanlegt fóstur og ástríkt heimili, borga undir þau fargjöld og standa staum af öllum kostnaði við uppeldi þeirra og tryggja þeim öruggt líf.
Af þeim rúmlega 12.000 börnum sem að komu ein án fjölskyldu til ítalíu á síðasta ári hafa um þriðjunugur horfið úr móttökubúðum og hælum. Flest hafa lent í mansali og eru nú í þrælkunarvinnu eða vændi.
Þau sem eru í móttökubúðum og hælum búa flest við hræðilegan aðbúnað og eru dæmi um að hæli hýsi tífalt fleiri börn en þau eru hæf að taka á móti. Mörg þeirra eiga aðeins að dvelja þar nokkra daga en daga þar uppi.
Þó að mörgum kunni að finnast að við eigum alls ekki að eiga börn, þá hlýtur að vera margfalt betra að búa hjá hommum út á landi en í flóttamannabúðum!“

Einhverjir benda á það inni í hópnum á Facebook að nær væri að hjálpa þeim Íslendingum sem heimilislausir eru áður en taka á við flóttamönnum til landsins.
Hvað með heimilislausu Íslendingana? Einhverjir benda á það inni í hópnum á Facebook að nær væri að hjálpa þeim Íslendingum sem heimilislausir eru áður en taka á við flóttamönnum til landsins.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Hver ætlar að hýsa heimilislausa íslenska manninn?“

Ekki eru þó allir sáttir við þá miklu athygli og hjálp sem flóttamönnum býðst á meðan einhverjir Íslendingar ráfa um götur borga og bæja og eru heimilislausir.

„Hver ætlar að hýsa heimilislausa Íslenska manninn sem var í fréttunum í gær? Hvaða geðlæknar eiga að taka að sér þetta fólk? vegna áfallastreituröskunnar. Hafið þið séð aðstæður flóttamanna sem búa nú þegar hérna þ.e. í Njarðvík? Vitið þið að Ísland er skuldbundið í alþjóðasáttmála að veita flóttafólki um og yfir 300.000 krónur á mánuði í framfærslu og frítt húsnæði en íslendingar sem eiga ekki atvinnubótarétt eða annan rétt fá um 120.000 á mánuði og geta étið það sem úti frýs? Finnst ykkur réttlátt að bjóða fólki upp á þetta bæði flóttamönnunum og fátæku íslendingunum. Þurfum við ekki að taka til í okkar landi áður en það er ráðist í framkvæmdir annarstaðar? Kerfið okkar er handónýtt nú þegar og það gerir illt verra fyrir þetta fólk sem þarfnast mikillar og faglegrar hjálpar að koma hingað í þúsundatali í þetta ónýta kerfi sem boðið er upp á.“

...og einn var frekar stuttorður:

Nei takk komið nóg af þessu liði

Langflestir voru þó jákvæðir og buðu fram aðstoð sína. Sumir bjuggu jafnvel yfir reynslu í þessum málaflokk.

„Kæra Eygló
Við fjölskyldan erum tilbúin að leggja okkar að mörkum til að aðstoða við komu fóttafólks. Við eigum nægan mat, föt og það sem er kannski mikilvægast höfum við mikla reynslu í þessum efnum. Árið 2000 tókum við þátt í verkefni Rauða krossins á Siglufirði þar sem við tókum að okkur átta manna fjölskyldu og fylgdum henni eftir í heilt ár. Við erum ennþá í góðum samskiptum við þessa fjölskyldu fimmtán árum síðar. Neyðin var gríðarlega mikil og verkefnin mörg en þvílík hamingja sem fylgir því að gefa af sér og sjá hvað flóttafólkið "okkar" var hamingjusamt og þakklátt með þessa smáu hluti í lífinu sem okkur fannst sjálfsagðir. Stuðningurinn var margskonar, fólst m.a. í því að útvega dót eins og föt og bækur, vera tengiliður fyrir fjölskylduna út á við, t.d. ef þurfti læknisaðstoð. Vera vinur og bjóða heim og taka fólkið með á samkomur. Í heildina var þetta skemmtilegt verkefni, mjög þroskandi og allir Íslendingar hefðu gott af því að leggja eitthvað að mörkum, því að öll getum við gert eitthvað gagn ef viljinn er fyrir hendi. Við hjónin Hans Rúnar Snorrason þurfum því ekki að hugsa okkur tvisvar um og erum tilbúin til að vera stuðningsfjölskylda strax á morgun.“

Íslenskur kennari, einstæð móðir með sex ára son sinn, segist tilbúin að taka á móti barni í neyð.
Börn í neyð Íslenskur kennari, einstæð móðir með sex ára son sinn, segist tilbúin að taka á móti barni í neyð.
Mynd: Reuters

Einstæð með sex ára son býðst til að taka við barni í neyð

Þá var líka til dæmis ein einstæð móðir með sex ára gamlan son sem bauðst til þess að taka við barni í neyð. Hún bauðst líka til að borga flugið fyrir barnið.

„Kæra Eygló
Ég er einstæð móðir með 6 ára gamlan son. Við búum í eigin húsnæði og höfum það gott. Við getum tekið að okkur barn í neyð. Ég er kennari og myndi kenna barninu að tala, lesa og skrifa íslensku sem og að aðlagast íslensku samfélagi. Við eigum föt, rúm, dót og allt sem barn þarf. Ég myndi að sjálfsögðu borga flugið fyrir barnið. Bestu kveðjur Hekla“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.