Lágt álverð dregur niður hagnað OR

Nam 2.300 milljónum og minnkar um 1.500 milljónir á milli ára - Afrakstur Plansins 7 milljörðum umfram markmið

Lækkandi álverð hefur verulega neikvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins.
OR Lækkandi álverð hefur verulega neikvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins.

Orkuveita Reykjavíkur (OR) hagnaðist um tæplega 2,3 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og minnkaði hagnaður fyrirtækisins um meira en 1,5 milljarða króna frá sama tíma fyrir ári. Rekstrartekjur OR jukust engu að síður um ríflega tvo milljarða á tímabilinu og námu samtals 20,5 milljörðum króna.

Samdráttur í hagnaði Orkuveitunnar skýrist einkum af lækkun á gangvirði innbyggðra afleiða í orkusölusamningum fyrirtækisins. Fram kemur í árshlutareikningi OR að lækkunin nemi nærri 4,2 milljörðum króna á fyrri árshelmingi. Sú virðisrýrnun má fyrst og fremst rekja til lækkunar álverðs á síðustu mánuðum. Staðgreiðsluverð á áli er í dag í kringum 1.520 Bandaríkjadalir á tonnið og hefur ekki mælst lægra í sex ár.

Fram kemur í afkomutilkynningu frá OR að árangur í rekstri fyrirtækisins var um mitt þetta ár liðlega sjö milljörðum króna umfram þau markmið sem sett voru í Planinu árið 2011. Í lok júní 2015 hafði Planið skilað 52,3 milljörðum króna bata í sjóð Orkuveitu Reykjavíkur. Planið gerði ráð fyrir 45,1 milljarðs króna árangri til þess tíma. Varanleg lækkun rekstrarkostnaðar Orkuveitunnar bætir jafnt og þétt í árangurinn. Á móti kemur að nú eru að falla til útgjöld vegna stórra fjárfestinga sem frestað var árið 2011.

Bjarni Bjarnason.
Forstjóri OR Bjarni Bjarnason.

Fjárfestingar OR aukast

Samhliða batnandi fjárhagsstöðu Orkuveitunnar hafa fjárfestingar fyrirtækisins aukist á síðustu misserum. Verulega hefur verið fjárfest í viðhaldi veitukerfa og virkjana það sem af er árinu. Að auki hafa framkvæmdir verið teknar upp að nýju í verkefnum sem var frestað í hruninu. Stærstu verkefnin eru lagning gufuæðar frá Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun og uppbygging fráveitu á Vesturlandi. Viðhaldsfjárfestingar Orkuveitunnar munu aukast á næstu misserum og komast í eðlilegt horf í lok næsta árs, að því er segir í tilkynningu OR.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir að rekstur fyrirtækjanna sem eru innan samstæðu Orkuveitunnar sé orðinn traustur og stöðugur og áhættustýring hefur dregið úr sveiflum í afkomu. „Starfsmenn Orkuveitunnar leggja sig fram um sparnað og hagsýni í rekstrinum. Þannig uppfyllum við það hlutverk að veita viðskiptavinum okkar trausta og góða þjónustu á sem lægstu verði,“ er haft eftir Bjarna í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.