Framtíð stóriðjunnar í Helguvík í höndum íbúa Reykjanesbæjar

Yfir 25% íbúa á kjörskrá í Reykjanesbæ vilja fá að kjósa um breytingar á deiluskipulagi vegna fyrirhugaðs kísilálvers Thorsil

Þessi mynd var tekin við mótmælin í Reykjanesbæ í maí en þá gengu hestar og menn gegn frekari stóriðju í Helguvík.
Mótmæltu í Reykjanesbæ Þessi mynd var tekin við mótmælin í Reykjanesbæ í maí en þá gengu hestar og menn gegn frekari stóriðju í Helguvík.
Mynd: Gunnar Már

Svo virðist sem að íbúar í Reykjanesbæ fái að kjósa um frekari stóriðju í Helguvík en 2.697 einstaklingar skrifuðu undir áskorun þess efnis að efna til íbúakosninga um breytingar á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðs kísilálvers Thorsil.

Reykjanesbær gerir kröfu um að undirskrift 25% íbúa á kjörskrá bæjarfélagsins þurfi til að knýja fram íbúakosningu en samkvæmt Þjóðskrá Íslands, sem tók á móti og fór yfir nöfn þeirra einstaklinga sem studdu áskorunina, voru 25,3% íbúa samþykkir íbúakosningu.

Söfnunin fór fram samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 155/2013 um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum og var bæði rafræn á Ísland.is og á pappír. Þjóðskrá hefur sent rafrænt bréf til þeirra sem skrifuðu undir áskorunina, þeim til staðfestingar, en hægt er að nálgast það á vefsíðunni Ísland.is

Fyrirhuguð stóriðja í Helguvík hefur farið fyrir brjóstið á fjölmörgum íbúum Reykjanesbæjar. Þessir íbúar hafa meðal annars, líkt og DV greindi frá, mótmælt þeim áætlunum með kröfugöngu og nú undirskriftalistum.

Sjá einnig: Hestar og menn mótmæltu stóriðju í Reykjanesbæ: Krefjast íbúakosninga

„Það er til mikils að vinna fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að halda bindandi íbúakosningu um mikilvægt málefni eins og stóriðjuframkvæmdir í Helguvík. Bæjaryfirvöld ættu að setja sér það markmið að auka aðkomu og virkni borgaranna um ákvörðun mikilvægra framkvæmda sem varðar hagsmuni heildarinnar og með því styrkja félagsauð sveitarfélagsins,“ sagði Dagný Alda Sveinsdóttir, ein af þeim sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni, í innsendri grein á vef Víkurfrétta.

„Nýr meirihluti gaf kjósendum loforð um nýja sýn í umhverfismálum, opna stjórnsýslu og aukið íbúalýðræði. Málefni eins og stóriðja varðar ekki eingöngu fjármál bæjarins heldur einnig heilsu manna og dýra á svæðinu. Með því að efna til bindandi íbúakosninga eru bæjaryfirvöld ekki bara að efna kosningarloforð sitt heldur munu þeir verða fordæmi í öðrum stórum málum þjóðarinnar.“

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.