Tveggja milljarða króna túrbína safnar ryki

Var keypt árið 2010 fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar - Stendur enn ónotuð inni á gólfi Reykjanesvirkjunar

Túrbínan bíður þess að vera tekin í notkun en hún var keypt fyrir rúma tvo milljarða árið 2010.
Reykjanesvirkjun Túrbínan bíður þess að vera tekin í notkun en hún var keypt fyrir rúma tvo milljarða árið 2010.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Tveggja milljarða króna risafjárfesting HS Orku liggur inni á gólfi Reykjanesvirkjunar og safnar ryki. Um er að ræða sérstaka túrbínu sem hugsuð var fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar.

Frá þessu er grein í Viðskiptablaðinu. Þar er viðtal við Ásgeir Margeirsson, forstjóra HS Orku, sem segir málið snúa að samningi sem gerður var við Norðurál í Helguvík.

„Túrbínan var keypt árið 2010 og var hugsuð fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku. Túrbínan er háþrýstigufuhverfill sem var sérsmíðaður af Fuji í Japan fyrir HS Orku. „Hún var keypt til að afla orku fyrir samninginn við Norðurál í Helguvík. Sá samningur er ekki orðinn virkur,“ segir Ásgeir.

HS Orka hefur hafið gerðardómsferli til að losna undan orkusölusamningum sem fyrirtækið undirritaði við Norðurál í apríl 2007 og á meðan það ferli stendur yfir þá segir Ásgeir að ólíklegt sé að hún verði tekin til notkunar en segir þó félagið opið fyrir öðrum kostum við nýtingu hennar.

Telja má líklegt að álver Norðuráls í Helguvík verði endanlega úr sögunni ef HS Orka vinnur málið en þeir bera fyrir sig að ákvæði orkusölusamningsins hafi ekki verið uppfyllt og því sé hann ekki lengur í gildi. Því eru forsvarsmenn Norðuráls ósammála en búast má við niðurstöðu úr gerðardómnum í byrjun næsta sumars.

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.