Byggir upp íþróttasvæði fyrir börn á Filippseyjum

Ingvar Jónsson og eiginkona hans, Dia Marie Labro stefna á að setja upp skólahreystisbraut í Bo

Ferðin til Borongan breytti lífi Ingvars, sem vill láta gott af sér leiða þar í staðinn.
Ánægð Ferðin til Borongan breytti lífi Ingvars, sem vill láta gott af sér leiða þar í staðinn.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég fór þangað í fyrsta skipti í janúar og var í þrjár vikur í fríi. Það gaf mér mjög mikið og ég heillaðist af Borongan,“ ­segir Ingvar Jónsson, verslunarstjóri 66°Norður í Faxafeni. Hann undirbýr um þessar mundir happdrætti og sölu happdrættismiða en ágóðinn af sölu þeirra verður notaður til að koma upp íþróttaaðstöðu; badminton- , tennis- og sparkvelli auk skólahreystibrautar fyrir börn, í borginni Borongan á Samar-eyju á Filippseyjum. Einnig er í bígerð að byggja innanhúsaðstöðu þegar fram líða stundir.

Ég hugsaði með mér að ég vildi gera eitthvað fyrir krakkana þarna.

Ekkert skipulagt íþróttasvæði

Eiginkona Ingvars, Dia Marie Labro, er frá Filippseyjum, nánar tiltekið frá Borongan og heimsóttu þau fjölskyldu hennar fyrr á árinu.

„Ég féll alveg fyrir þessum bæ og fólkinu þarna. Ég er mikill íþrótta­áhugamaður og þegar ég leit í kringum mig tók ég eftir því að það var ekkert íþróttasvæði á vegum bæjarins og engin viðunandi aðstaða fyrir íþróttaiðkun. Það voru körfuboltakörfur hér og þar á götunni, en ekkert skipulagt íþróttasvæði,“ segir hann. Þá fékk hann þá hugmynd að standa fyrir uppbyggingu á slíku svæði fyrir börn.

„Ég hugsaði með mér að ég vildi gera eitthvað fyrir krakkana þarna,“ segir hann og bætir við að hann hefði gjarnan viljað geta gefið af sér á meðan hann var á Filippseyjum og velt þessu mikið fyrir sér. „Mig langar til að byggja upp leiksvæði þarna. Þetta er sextíu þúsund manna borg og þar af eru um sautján þúsund börn.“

Stofnaði styrktarsjóð

Bróðir Diu Marie er arkitekt og ­hefur aðstoðað Ingvar við að teikna upp svæðið. „Ég nefndi þetta við fjölskyldu konunnar minnar og aðra og það voru allir sammála um að þetta væri verðugt verkefni til að ráðast í,“ segir hann. Úr varð að stofna styrktar­sjóð, safna íþróttafötum í samstarfi við íþróttafélög og fjárframlögum og leggjast svo í uppbyggingu á svæði í febrúar á næsta ári.

Fyrsta skrefið er happdrættið og þeir sem Ingvar hefur leitað til hafa tekið honum vel og honum hefur ­fyrir vikið tekist að safna mörgum vinningum, alls 82 og er byrjaður að selja miðana.

„Ég ætla að nota allt þetta ár til að safna fyrir þessu og verð með fleiri uppákomur í ár,“ segir Ingvar, en þar á meðal eru fyrirhugaðir styrktartónleikar. „Ég vil gera þetta hægt og rólega og vanda til verka. Draumurinn er að ná að safna vel fyrir þessu svo hægt sé að klára þetta. Viðbrögðin hafa verið alveg frábær,“ segir hann og bætir því við að vonandi hafist þetta með aðstoð frá góðu fólki.

Féll kylliflatur

Hann hefur einnig komið upp heimasíðu, ssb.mozello.com, en þar má finna nánari upplýsingar um styrktarsjóðinn og nálgast happdrættismiða. „Ég féll kylliflatur ­fyrir Borongan og held að fleiri Íslendingar hefðu gott af því að taka sér smá frí, fara þangað til að slaka á og njóta þess að vera til,“ segir hann og segist hafa verið endurnærður þegar hann sneri aftur til Íslands. n

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.