Uppgjör í Fellunum: Handrukkun um hábjartan dag

Horfði af svölunum sínum á mann barinn með stálröri

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögreglumenn Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Alvarleg líkamsárás átti sér stað hjá Iðufelli í Breiðholti í dag. Þrír menn réðust þá á einn mann og veittu honum alvarlega áverka meðal annars með stálröri. Íbúi í hverfinu varð vitni að atvikinu frá svölunum að íbúð sinni og hefur lögreglan staðfest frásögn viðkomandi.

Um var að ræða uppgjör á skuld og hefur viðkomandi þolandi orðið fyrir slíkum innheimtuaðgerðum áður og er talinn skuldseigur í undirheimunum, að sögn lögreglu. Lögregla kom á vettvang og tók alla mennina þrjá höndum en þolandinn var fluttur á slysadeild.

Nánar tiltekið átti atvikið sér stað bak við Iðufellsblokkina fyrir utan svokallaða Leifasjoppu. Málið hefur vakið mikinn óhug íbúa í hverfinu en í umræðuhópnum Betra Breiðholt á Facebook segist einn íbúi hafa fundið sprautunálar á svæðinu undanfarnar vikur.

Ung kona sem varð vitni að atvikinu frá svölunum sínum segir að þrír menn hafi ráðist á einn og slegið hann með járnröri og sparkað til hans þar sem hann lá á jörðinni. Gamall maður varð vitni að árásinni og heilsaði einn árásarmannanna honum með handabandi. Þolandi árásarinnar bað gamla manninn um að hringja á lögregluna en áður en til þess kom hringdi konan sem horfði á atvikið frá svölunum á lögreglu og gaf greinargóða lýsingu á mönnunum sem handteknir voru stuttu síðar.

Konan sagði í samtali við DV:

„Það sem truflar mig mest er að þetta gerist um hábjartan dag, rétt við leikskóla, á gangstétt þar sem ég og kærastinn minn löbbum daglega með hundana okkar ásamt helling af öðru fólki og börnum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.