Íbúar í fjölbýli bera nú ábyrgð á vanskilum nágranna sinna

HS Veitur hafa tekið einhliða ákvörðun um að gera íbúa í fjölbýlishúsum á Suðurnesjum ábyrga fyrir skilvísi og vanskilum á hitaveitureikningum allra sem í því búa – „Vægast sagt ofar mínum skilningi“

Nú þarf annaðhvort einn íbúi í fjölbýlinu eða húsfélagið að taka á sig að greiða reikninginn frá HS Veitum.
Allir í fjölbýlinu bera ábyrgð Nú þarf annaðhvort einn íbúi í fjölbýlinu eða húsfélagið að taka á sig að greiða reikninginn frá HS Veitum.

HS Veitur sendi íbúum fjölbýlishúsa á Suðurnesjum bréf þann 1. maí síðastliðinn þar sem íbúar voru beðnir um að koma sér saman um annað hvort einn íbúa eða húsfélag sem sér um að borga hitaveitureikninginn til fyrirtækisins og þannig taka ábyrgð á skilvísi allra í húsinu.

Furðar sig á einhliða ákvörðun fyrirtækisins.
Ívar Pétur Guðnason Furðar sig á einhliða ákvörðun fyrirtækisins.

Furðar sig á þessari afgreiðslu

Einn þeirra sem fékk bréfið er Ívar Pétur Guðnason en hann furðar sig á því að þetta sé yfir höfuð löglegt; að fyrirtækið geti tekið einhliða ákvörðun um þessa innheimtu.

„Ég var ekkert búinn að skoða þetta mál frá því ég fékk bréfið. Það var síðan núna fyrir helgi sem ég fæ tilkynningu um að HS Veitur hafi tekið þá einhliða ákvörðun að húsfélagið yrði skráður greiðandi frá og með 1. Júní,“ segir Ívar Pétur sem furðar sig á þessari afgreiðslu.

„Ég sé ekki neinn tilgang með þessari breytingu annan en þann að koma ábyrgðinni yfir á meðeigendur, nágranna þína. Hingað til hafa allir, hvort sem það eru 2, 3 eða 15 í fjölbýlishúsi, greitt hlutfallslega miðað við notkun hússins. Það gefur augaleið að í fjölmennum fjölbýlishúsum þá er alltaf einhver sem klikkar á þessu og með þessu er fyrirtækið alveg laust við það að þurfa að ganga á eftir vanskilafólkinu. Núna þurfum við þessi skilvísu að gera það,“ segir Ívar Pétur.

Einn reikningur fyrir alla

HS Veitur hafa hingað til aðeins geta tekið af rafmagn af einni og einni íbúð í fjölbýli en oftast er aðeins eitt vatnsinntak. Það þýðir að hingað til hafa HS Veitur ekki geta aðhafst vegna ógreiddra hitaveitureikninga þegar sá sem skuldar býr í fjölbýli. Núna verður lokað fyrir vatnið í öllu fjölbýlinu ef reikningar allra verða ekki greiddir og þá búinn til aðeins einn reikningur í stað þess fjölda sem á íbúð í fjölbýlinu.

„Nú átt þú að borga reikninginn fyrir nágranna þinn og þú átt síðan að rukka nágrannann. Ef hann borgar þér ekki þá verður þú eða húsfélagið að sjá um þetta. Að einhver úti í bæ skuli geta ákveðið að ég sé kominn í sjálfskuldarábyrgð fyrir nágranna mína, þetta er vægast sagt ofar mínar skilningi.“

Fjárfestirinn fór fyrir hópnum sem keypti stóran hlut í HS Veitum. Markmiðið var að fjárfesta í grunnþjónustu samfélagsins og græða þar á.
Heiðar Már Fjárfestirinn fór fyrir hópnum sem keypti stóran hlut í HS Veitum. Markmiðið var að fjárfesta í grunnþjónustu samfélagsins og græða þar á.
Mynd: © 365 ehf / Anton Brink

Vill hagnast á grunnþjónustu samfélagsins

DV hefur ítarlega fjallað um málefni HS Veitna og þá aðallega um eignarhald fyrirtækisins en einkahlutafélag, sem fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson fór fyrir, tryggði sér 34,38 prósent hlut í HS Veitum á síðasta ári. Félagið heitir HSV eignarhaldsfélag slhf. og er Heiðar Már einn af eigendum félagsins ásamt Tryggingamiðstöðinni og nokkrum lífeyrissjóðum.

Kaupin vöktu talsverða athygli og þá sérstaklega samstarf Heiðars Más og lífeyrissjóðanna en fjárfestirinn er fyrrverandi starfsmaður fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, Novator.

Þá greindi DV einnig frá því að fram hefði komið í fréttum að fyrirtæki Heiðar Más hefði það að markmiði að fjárfesta í fyrirtækjum sem starfa í „grunnþjónustu“ samfélagsins og „hagnast á slíkum kaupum.“

Ekki náðist í neinn hjá HS Veitum sem gat gefið upplýsingar um þessa stefnubreytingu í innheimtu fyrirtækisins - DV fékk hinsvegar góðfúslegt leyfi hjá Ívari Pétri til að birta með fréttinni grein sem hann skrifaði á vef Víkurfrétta.

Furðulegt háttalag HS Veitna um nótt

Um daginn skikkuðu HS Veitur eigendur íbúða í fjölbýlishúsum til þess að gangast í ábyrgð á skuldum og vanskilum eigenda annarra íbúða í húsinu. Þessi ákvörðun hefur farið hljótt og lítið hefur verið um hana fjallað, en það að skikka einhvern til þess að bera ábyrgð á skuldum annarra án skriflegs samþykkis er ólöglegt og líka fram úr hófi siðlaust. 
HS tók ákvörðun um að hætta að rukka eigendur í fjölbýli hlutfallslega fyrir notkun á heitu vatni í gegnum einn hemil. Í staðinn var ákveðið að einn íbúi eða húsfélag (þar sem það er til staðar) borgaði alla upphæðina og rukkaði síðan hina eigendurna eftir þeirra hlutfalli í reikningnum. Þetta felur í sér að sá sem fær heildarreikninginn þarf að fá greitt frá meðeigendunum og við vitum öll að því miður eru ekki allir jafn skilvísir og þeir ættu að vera.

Eina ástæðan sem ég fæ séð fyrir því að HS tekur upp þetta furðulega og að mínu mati ólöglega háttalag er að fyrirtækið hefur gefist upp á fyrirhöfninni sem felst í að rukka vanskil sumra notenda í fjölbýli. Þá hefur kviknað sú fína hugmynd hjá fyrirtækinu að láta einhvern einn ábyrgan eiganda eða húsfélagið borga sér og síðan þarf sá ábyrgi eða húsfélagið að rukka vanskilin! HS er laust allra mála og þarf ekki að afskrifa glataðar skuldir lengur – sú byrði lendir núna á meðeigendum fólksins sem er í vanskilum. Þar sem HS ákveður að húsfélag fái reikninginn bera allir eigendur ábyrgð á greiðslu reikningsins og lenda því hinir í súpunni ef einhver einn stendur sig ekki.

Íbúar í fjöleignarhúsi þurfa að spyrja sig hvort þeir séu reiðubúnir að borga hitaveituna fyrir meðeigendurna? Við eigum ekki að láta HS Veitur komast upp með að færa ábyrgð á vanskilum eins eigenda yfir til meðeigenda í fjöleignarhúsum. Stöndum saman, segjum nei og skorum á eigendur fyrirtækisins að sjá sóma sinn í að láta vera að ráðast á skilvíst sómafólk þegar fólk sama húsi er í vanskilum.

Við höfum líka gott af að velta fyrir okkur hvað getur gerst ef þetta háttalag verður látið óátalið. Þýðir það kannski að bærinn fer að senda einn reikning vegna fasteignagjalda í öll hús og ætlast til þess að einn eigandi í fjölbýli beri ábyrgð á vanskilum allra annarra eigenda?

Ívar Pétur Guðnason

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.