Aðgengi fyrir fatlaða, samt ekki: „Þetta er það grillaðasta sem ég hef séð“

Framkvæmdir við félagsheimilið Dalabúð í Búðardal tóku óvænta beygju – Bjuggu til fallegan ramp fyrir hjólastóla en misreiknuðu eitthvað staðsetningu handriðsins – „Ég botna ekkert í þessu“

Nýju aðgengi fyrir hjólastóla hefur verið lokað með handriði.
Félagsheimilið Dalabúð í Búðardal Nýju aðgengi fyrir hjólastóla hefur verið lokað með handriði.

„Þetta er það grillaðasta sem ég hef séð,“ segir Jón Gunnar Benjamínsson, ötull talsmaður bætts aðgengis fyrir fatlaða en sjálfur notar Jón Gunnar hjólastól.

Hvernig datt mönnum þetta í hug?
Ótrúlegt Hvernig datt mönnum þetta í hug?

DV hefur undir höndum ljósmynd af inngangi við félagsheimilið Dalabúð í Búðardal en þar hafa staðið framkvæmdir við meðal annars inngang félagsheimilisins. Mikið hefur verið lagt í að pússa upp gamlar tröppur fyrir utan félagsheimilið og búið er að steypa glænýjan ramp fyrir utan til þess að auðvelda aðgengi þeirra sem nota hjólastól líkt og Jón Gunnar.

Lokað fyrir nýja aðgengið

Eitthvað virðist staðsetning ryðfrís stálhandriðs hafa skolast til því búið er að setja það upp meðfram tröppunum og yfir rampinn. Staðsetningin er til þess fallin að loka algjörlega fyrir aðgengi hjólastóla með nýja rampinum.

„Það er greinilega búið að leggja mikið á sig við að pússa tröppunar, bæta við steypu og síðan móta rampinn. Síðan er þessu handriði skellt þarna niður. Þetta er alveg ótrúlegt,“ segir Jón Gunnar.

„Ég skil ekki hvað hefur vakið fyrir mönnum þegar þeir smelltu þessu ryðfría stálhandriði niður á þessum stað. Ég botna þetta ekki.

Botnar ekkert í framkvæmdunum í Búðardal.
Jón Gunnar Benjamínsson Botnar ekkert í framkvæmdunum í Búðardal.
Mynd: Úr einkasafni

Sá sem tók myndina vildi ekki láta nafn síns getið en sagði í samtali við DV að þetta væri rosalegt. Hann væri ekki bundinn við hjólastól en slíkt þyrfti ekki til þess að koma auga á þessa vitleysu.

Ekki hægt annað en að taka mynd af svona vitleysu

„Þegar maður sér svona vitleysu þá er ekki annað hægt en að taka mynd og láta vita af þessu. Vakna engar spurningar hjá mönnum sem eru að setja svona handrið upp. Ég bara skil þetta ekki,“ segir maðurinn sem var svo gott sem orðlaus þegar hann kom auga á þetta um helgina á ferðalagi um landið.

„Ok, það geta komið upp mistök þegar menn panta handrið en að átta sig ekki á þessu þegar það var sett upp. Ég næ bara ekki utan um þetta. Lagið með Klaufabárðunum fór að spilast í hausnum á mér þegar ég fór að reyna að sjá þá fyrir mér setja handriðið þarna niður. Maður á auðvelt með að hlæja af þessu en síðan er þetta líka bara svo óréttlátt. Það er enginn annar rampur þarna til þess að komast inn í félagsheimilið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.