„Vikulegur föstudagspistill forstjóra LSH kom því verulega á óvart“

Bandalag háskólamanna og aðilarfélög segjast hafa frá upphafi verkfall lýst því yfir að tryggja þurfi öryggi sjúklinga

Alvarlegt ástand er að skapast á sjúkrahúsinu vegna verkfallsins.
Landspítalinn Alvarlegt ástand er að skapast á sjúkrahúsinu vegna verkfallsins.

Samkvæmt Bandalagi Háskólamanna þá hafa átt sér stað fundir með yfirstjórn LSH til þess að leysa úr hinum ýmsu málum sem upp koma í kjölfar verkfallsins. Hafa þessi mál aðallega snúið að undanþágubeiðnum fyrir morgundaginn, mánudaginn 11. maí.

Páll Matthíasson segir að verkfall BHM gæti dregið fólk til dauða.
Forstjóri Landspítalans Páll Matthíasson segir að verkfall BHM gæti dregið fólk til dauða.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Forsvarsmenn bandalagsins segja að vikulegur föstudagspistill forstjóra LSH hafi komið þeim verulega á óvart.

DV fjallaði um pistilinn en þar sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans meðal annars að verkfall BHM gæti dregið fólk til dauða. Hafði hann verulega áhyggjur af ástandinu og biðlaði til deiluaðila að ná samkomulagi.

„Á fundi fulltrúa BHM með yfirstjórn LSH í gær, föstudaginn 8. maí, fór forstjóri LSH yfir þá alvarlegu stöðu sem ríkir á spítalanum í fimmtu viku verkfalls. Fulltrúar BHM fóru af þeim fundi með það að leysa úr þeim málum sem borin voru upp á fundinum. Þau varða aðallega undanþágubeiðnir fyrir mánudaginn 11. maí. Vikulegur föstudagspistill forstjóra LSH kom því verulega á óvart,“ segir í yfirlýsingu frá BHM vegna málsins.

„BHM og aðildarfélög þess hafa frá upphafi verkfalls lýst því yfir að tryggja þurfi öryggi sjúklinga og hefur sú afstaða ekki breyst. Undanþágur munu afgreiddar héðan í frá sem hingað til og bráðatilvikum sinnt. Að lokum skal á það bent að til að afstýra neyðarástandi þarf samninganefnd ríkisins að ganga til samninga við aðildarfélög BHM og treystum við því ef marka má orð heilbrigðisráðherra um alvarleika málsins að hann beiti sér fyrir því af fullum þunga.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.