Íbúar í Reykjanesbæ flytja lögheimili sín til að greiða ekki hærri gjöld

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir ekki alla skilningsríka gagnvart stöðu bæjarfélagsins

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson Bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Mynd: Skjáskot/Víkurfréttir

Dæmi eru um að íbúar hafi flutt lögheimili sín úr Reykjanesbæ til þess að greiða ekki hærri gjöld. Þetta segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, í viðtali við sjónvarp Víkurfrétta.

Fjölmargir íbúar hafa áhyggjur af hugsanlegri mengun frá stóriðju í Helguvík.
Höfnin í Helguvík Fjölmargir íbúar hafa áhyggjur af hugsanlegri mengun frá stóriðju í Helguvík.
Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

„Langflestir bæjarbúa sýna stöðunni skilning þó auðvitað séu þeir ekki sáttir við að þurfa að greiða hærri gjöld. Það er mikilvægt. En svo eru aðrir sem eru ekki svona skilningsríkir og hafa flutt lögheimili sitt út úr bænum til barna eða skyldmenna,“ segir Kjartan Már og bætir við að þetta sé auðvitað stórfurðulegt mál.

Viðtalið birtist á vef Víkurfrétta og ræðir bæjarstjórinn stöðuna í dag, nýju ársreikningana, möguleikana í Helguvík og hugsanlega mengun þar.

Verður að treysta opinbera eftirlitskerfinu

Hvað Helguvík varðar og þá hugsanlegu mengun sem gæti komið frá bæði kísil- og álverksmiðju þá segir Kjartan Már að þetta sé vissulega viðfangsefni sem bæjarbúum ber skylda til þess að fylgjast vel með og fara vel yfir.

„Við höfum hinsvegar til þess ákveðnar stofnanir eins og Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun, þetta opinbera eftirlitskerfi sem við verðum bara að treysta. Nú er til dæmis starfsleyfi kísilmálmverksmiðju Thorsils til meðferðar hjá Umhverfisstofnun og að hvaða niðurstöðu stofnunin mun komast veit ég ekkert um á þessu stigi en það skýrist innan einhverra vikna. Ef það verður á þá leið að Umhverfisstofnun mun veita verksmiðjunni starfsleyfi þá verðum við bara að treysta því að það sé gert á faglegum grunni og að þetta eftirlitskerfi virki,“ segir Kjartan Már.

„Ég veit hinsvegar að hestamenn og aðrir hafa miklar áhyggjur af þessu og margar raddir segja að það sé ekki hægt að treysta þessu kerfi en við sem opinbert apparat getum ekki annað en bara treyst á þær aðferðir og þau tæki og tól sem þessir opinberu aðilar hafa.“

Sjónvarp VíkurfréttaÞessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.