Grafalvarleg staða hafnarinnar

Reykjanesbær afskrifar nærri 5 milljarða - Mikil rýrnun Magma skuldabréfsins

Tafir á uppbyggingu í Helguvík hefur nú orðið til þess að bæjarsjóður Reykjanesbæjar þarf að afskrifa 3 milljarða króna.
Fagnað Tafir á uppbyggingu í Helguvík hefur nú orðið til þess að bæjarsjóður Reykjanesbæjar þarf að afskrifa 3 milljarða króna.

Fjárhagslegar hremmingar Reykjanesbæjar virðast engan enda ætla að taka. Bæjarstjórnin ræddi á fundi í gær ársreikning fyrir árið 2014, en samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar síðdegis í gær varð halli bæjarsjóðsins 4,8 milljarðar króna.

Mikil óvissa um Reykjaneshöfn

Úr tilkynningu Reykjaneshafnar til Kauphallarinnar í gær

Enn ríkir óvissa um rekstrarafkomu Reykjaneshafnar. Ráðist hefur verið í kostnaðarsama uppbygginu hafnaraðstöðu og lóða í Helguvík sem óvíst er hvenær muni skila sér. Fyrirhugað álver Norðuráls er enn í biðstöðu en framkvæmdir við byggingu kísilvers United Silicon eru hafnar og starfsleyfi annars kísilvers, Thorsil, er til umfjöllunar hjá Umhverfisstofnun. Í áætlunum sínum gerir Reykjaneshöfn aðeins ráð fyrir þeim verkefnum sem góðar líkur eru á að muni skapa tekjur. Miðað við núverandi tekjur Reykjaneshafnar eru litlar líkur á að höfninni takist að endurgreiða Reykjanesbæ 3 milljarða króna víkjandi lán og því er það fært niður í efnahagsreikningi A-hluta bæjarsjóðs. Ef bjartsýnustu spár og áætlanir hafnarinnar ganga eftir gæti þetta breyst. Þá mun krafan aftur verða færð inn í efnahagsreikning A-hluta Reykjanesbæjar líkt og gert er nú með stofnfé Sorpeyðingastöðvar Suðurnesja sf.

Hallann má að mestu rekja til fortíðarvanda því bæjarsjóður var einn og sér var nánast í jafnvægi í fyrra.
Skuldsetning og eignarýrnun varð til þess að afskrifa þurfti eignir um 4,8 milljarða króna. Þetta gerist í eitt skipti fyrir öll og er bókfært tap bæjarsjóðs á árinu 2014.

Höfnin þungur baggi
Bæjarsjóður neyðist til að færa niður 3 milljarða króna lán til Reykjaneshafnar, en höfnin er mjög skuldsett, rekin með miklum halla og engar líkur til þess að bærinn fái milljarðana til baka eins og ástatt er.

Athyglisvert er að bæjaryfirvöld færa niður 637 milljónir króna af eftirstöðvum svokallaðs Magma-bréfs, en eftir því sem DV kemst næst skuldar Magma (síðar Alterra) enn 1,9 milljarða króna eftirstöðvar af bréfinu vegna kaupa á HS Orku á sínum tíma. Þannig er að sjá að markaðsvirði skuldabréfsins sé langt undir nafnverðinu.
Þá eru einnig færðar niður eignir bæjarins um 353 milljónir króna vegna uppsafnaðra ógreiddra gjalda, svo sem útsvars, fasteignagjalda og fleira sem ekki er gert ráð fyrir að bæjarsjóður geti innheimt.

Við þetta bætist afskrift á hlutafé bæjarins í öðrum félögum fyrir 200 milljónir króna. Einnig er afskrifað uppsafnað 110 milljóna króna tap á Brunavörnum Suðurnesja.

Samkvæmt heimildum DV eru þessar afskriftir Reykjanesbæjar gerðar með vitund og samþykki eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Þrátt fyrir 4,8 milljarða króna tapað fé var hefðbundinn rekstur A-hluta bæjarsjóðs í járnum í fyrra.

Skuldafjall
Skuldahlutfall Reykjanesbæjar er hið hæsta í landinu. Í fyrra lækkaði það úr 263 prósentum í 244 prósent sem hlutfall af árlegum tekjum bæjarfélagsins.

Skuldavandi Reykjanesbæjar er fjarri því leystur, en stærsta viðfangsefnið á næstunni eru samningar við lánardrottna EFF, bæjarsjóðs og Reykjaneshafnar. Skuldir EFF nema um 12 milljörðum króna en EFF á og rekur íþróttamannvirki, skóla, leikskóla, Hljómahöllina og önnur mannvirki í Reykjanesbæ. Stærsti kröfuhafinn er slitabú Glitnis með um 7 milljarða króna kröfu.

Reykjaneshöfn þarf að greiða 2 milljarða króna af skuldum sínum á næsta ári. Þeir peningar eru hvergi til samkvæmt heimildum DV og höfnin er rekin með miklum halla. Hún þyrfti að skila allt að 600 milljóna króna afgangi árlega til þess að eiga möguleika á að greiða af lánum sínum.

Í tilkynningu til Kauphallar segja bæjaryfirvöld að Sóknin – margra ára áætlun um fjárhagslega endurreisn bæjarins – sé farin að skila árangri. En semjist ekki við lánardrottna og fari allt á verri veg er ekki óhugsandi að greiðslufall blasi við bæjarsjóði Reykjanesbæjar. Staða Reykjaneshafnar er grafalvarleg og jafnvel enn meiri líkur á greiðslufalli hennar. Erfiða stöðu má aða sínu leyti rekja til tafa á uppbyggingu iðnaðar í grennd við höfnina eins og rakið er til hliðar.

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.